26.03.1981
Sameinað þing: 66. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3141 í B-deild Alþingistíðinda. (3276)

252. mál, innlent fóður

Egill Jónsson:

Herra forseti. Ég get þakkað hv. frsm. og þeim báðum flm. að þessari till. að þeir skuli hafa flutt þetta mál hingað inn á Alþing. Þetta er einn þáttur í þeirri viðleitni að bæta vissa þætti í framleiðslumálum og rekstri landbúnaðarins. Eins og hv. frsm. tilgreindi hefur þetta mál borið að hér á Alþingi fyrr, m. a. s. á þessu þingi, þar sem var till. frá þm. Vesturl. Þó að sú till. hafi fjallað um tiltekið verkefni, þ. e. byggingu graskögglaverksmiðju, er það af sömu rót komið.

Að því er afstöðu mína varðar til þessa máls er ég að sjálfsögðu reiðubúinn að leggja vinnu í þessa tillögu. Það er einkum tvennt sem ég vildi þó gera hér athugasemd við í sambandi við till. Þar er mikil áhersla lögð á að gerðar séu rannsóknir á því, hvað sé hægt að komast langt í því að fóðra á heimafengnu fóðri á þessu landi. Þær rannsóknir tel ég í raun að liggi fyrir að mjög verulegu leyti. Ég held að það sé ekki ágreiningsmál á meðal þeirra manna, sem hafa starfað á því faglega sviði, að það sé hægt að framleiða meginhlutann af öllu því fóðri í þessu landi sem búfénaður okkar þyrfti á að halda. Alla vega er það óverulegt magn sem þyrfti að flytja inn. Það hafa komið fram á allra síðustu árum, m. a. vegna viðleitni annarra þjóða til að spara orku í sambandi við fóðurframleiðslu, nýjar og miklu auðveldari aðferðir, m. a. við nýtingu á korni. Nágrannaþjóðir okkar eru að byrja á að taka það í súr, jafnvel með stöng, vegna þess að það kostar mikið fjármagn að þurrka kornið. Þar hefur það m. a. komið fram, að þó að spretta þess sé ekki á æskilegasta máta með tilliti til þurrkunar er þetta geysilega gott fóður. Möguleikar okkar eru því vissulega miklir í þessum efnum. Ég hefði þess vegna talið eðlilegra að afgreiðsla á þessari till. mótaðist frekar af því að kanna leiðir til að koma þessu verkefni í framkvæmd en hinu, að það þurfi að leggja mikið upp úr rannsóknum í þessum efnum. Þær tel ég að liggi fyrir að mjög verulegu leyti.

Annað atriði hnaut ég um í þessari till. Það var að fela á Rannsóknaráði þarna mjög mikilvægt hlutverk. Það held ég að eigi ekki að gera. Þetta er langbest komið í höndum rannsóknar- og félagsmála landbúnaðarins. Þar hafa þessi störf verið unnin, m. a. af Rannsóknastofnun landbúnaðarins, rannsóknarþátturinn, og það er gífurlega mikil þekking og reynsla fyrir hendi hjá Búnaðarfélagi Íslands í þessum efnum. Á vegum Búnaðarþings hafa, eins og hv. frsm. gat hér um, einnig starfað nefndir að mjög hliðstæðum verkefnum. Ef ég man rétt var ein slík kjörin á síðasta Búnaðarþingi. Ef við eigum að ná árangri í þessum efnum er ég alveg sannfærður um að skilyrði eru fyrir því, að slík áætlunargerð sé unnin af þeim aðilum, sem hafa framkvæmt þessar rannsóknir á þeim stöðum þar sem vitneskjan liggur fyrir, og af þeim félagsþáttum í landbúnaðinum þar sem bæði áhugi og skyldur sameinast. Þess vegna legg ég á það mikla áherslu að þetta verði tengt þeim verkefnum. Mér líst ekki á að Rannsóknaráð ríkisins fjalli um þessi verkefni, það verð ég að segja alveg eins og er.

Þetta eru ábendingar sem í raun og veru skipta ekki sköpum í sambandi við þetta mál. Eins og hv. frsm. gat um skiptir mestu máli að tekið verði við þessu máli og því verði sinnt og lögð verði í það vinna. Þá kemur náttúrlega út úr því hvaða leiðir eru líklegastar til að þoka góðu máli lengra áfram.