30.03.1981
Efri deild: 69. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3159 í B-deild Alþingistíðinda. (3287)

274. mál, varnir gegn sjúkdómum og meindýrum á plöntum

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Í landi okkar eigum við því láni að fagna að vera lausir við ýmsa sjúkdóma sem hrjá gróður og dýralíf í nálægum löndum. Hér veldur vafalaust mestu um lega landsins, sem er nokkuð einangrað og fjarri öðrum löndum. Það er mikil nauðsyn á aðgerðum og eftirliti til þess að forðast það, að þessir sjúkdómar geti borist hingað og valdið auknu tjóni, bæði í dýraríkinu og eins í jurtaríkinu.

Lög, sem gilda um varnir gegn sjúkdómum í plöntum og öðrum gróðri, eru frá 31. maí 1927 og heita lög um varnir gegn sýkingu nytjajurta. Lög þessi eru nú talin verulega úrelt orðin. Reglugerð, sem byggð er á þessum lögum, er einnig gömul eða frá 19. ágúst 1948, og því einnig úrelt og ekki hægt að byggja á henni eðlilegt eftirlit með innflutningi á plöntum og sjúkdómavarnir því samfara.

Það frv., sem hér er á dagskrá, um varnir gegn sjúkdómum og meindýrum á plöntum, er flutt til að ráða bót á þessu ástandi og gera mögulegt að koma við betra eftirliti með innflutningi á plöntum. Ég tel mjög nauðsynlegt að við höldum vöku okkar á þessu sviði og beitum því aðhaldi og eftirliti, sem nauðsynlegt er talið að ráði færustu manna, til þess að forðast að inn í landið berist nýir sjúkdómar í sambandi við plöntur og gróðurríki landsins. Frv. er flutt til að fullnægja þessu sjónarmiði.

Ég sé, herra forseti, ekki ástæðu til þess að hafa langa framsögu um þetta mál. Mér sýnist eðlilegt að reynt verði að ljúka afgreiðslu þessa frv. á yfirstandandi Alþingi. Ekki er vitað að ágreiningur sé um efni þess og frv. fylgir ekki aukinn kostnaður. Þess vegna vil ég mælast til þess við hv. deild, að reynt verði að haga afgreiðslu frv. þannig að það takist að ljúka afgreiðslu þess á yfirstandandi Alþingi.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. landbn.