31.03.1981
Sameinað þing: 67. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3207 í B-deild Alþingistíðinda. (3335)

378. mál, gjaldskrárhækkanir B-hluta fyrirtækja

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Það er ekkert nýtt að opinberar stofnanir og opinber fyrirtæki setji fram háar kröfur um gjaldskrárhækkanir. Það hefur verið svo um langt skeið. Það er heldur ekkert nýtt að ekki sé hægt að verða við öllum slíkum kröfum. Fjárlög gera ráð fyrir ákveðnum hækkanaferli hjá hverri þessara stofnana fyrir sig, og við ákvarðanir fjárlaga verður að sjálfsögðu miðað þegar gjaldskrárhækkanir verða afgreiddar, en þó tekið tillit til breyttra aðstæðna og breyttra forsendna. Hitt getur svo vel gerst, að þörf verði á því að framkvæma sérstakar sparnaðarráðstafanir, jafnvel niðurskurðarráðstafanir, hjá einstökum stofnunum ef þær gjaldskrárhækkanir, sem leyfðar verða og áformað hefur verið að leyfa, duga ekki til.

Það vafðist ýmislegt fleira inn í mál hv. þm. áðan, m. a. vísitölumálin. Ég vissi ekki almennilega hvort hann var að leggja einhverja sérstaka fsp. fyrir mig í sambandi við það. Það eru aðrir aðilar sem svara til um vísitölumálin. Ég vil hins vegar segja það alveg eins og er, að ég held að það geti ekki talist neitt höfuðatriði, hvorki af hálfu verkalýðshreyfingarinnar né af hálfu Alþb., að ekki skuli tekið tillit til viðskiptakjara. Ég held að sú regla að taka upp viðmiðun við viðskiptakjör hafi ekki verið tekin upp í andstöðu við verkalýðshreyfinguna á sínum tíma. Það var ekki tekið upp í andstöðu við Alþb. Og það er ekkert höfuðatriði hjá okkur að slíkt megi ekki gera í sambandi við vísitölu. En hitt er allt annað mál, að það voru mörg önnur og miklu verri skerðingarákvæði í vísitölunni afnumin á þessu ári. (Gripið fram í: Hver voru þau? Ja, það er t. d. það skerðingarákvæði, sem varðaði áfengi og tóbak og verkaði töluvert sterkt inn í vísitöluútreikning, og fleiri atriði. (Gripið fram í: Þau eru enn þá.) Nei, skerðing vegna áfengis og tóbaks er ekki með þeim hætti sem áður var í vísitölu. Það er misskilningur hjá hv. þm. (Gripið fram í: Skerðingarákvæðin eru þar.) Nei, þau eru þar ekki. Þau eru þar alls ekki. (Gripið fram í: Fá þá launþegar hækkun vegna 6% hækkunar áfengis og tóbaks?) Nei, þeir fá ekki hækkun vegna hennar, en þeir fá hins vegar ekki lækkun eins og var áður fyrr vegna þess að áfengi og tóbak hefur getað verkað bæði til hækkunar og til lækkunar. Á tímabili verkaði það til hækkunar, en samkv. seinasta skipulagi sem var á þessum málum verkaði hækkun á áfengi og tóbaki beinlínis til lækkunar á launum með þeim sérstöku reikningsaðferðum sem viðhafðar voru, vegna þess að þessar vörur voru að hálfu leyti inni í vísitölunni og að hálfu leyti út úr henni. Nú hafa þessar vörur verið teknar algerlega út úr. Hækkanir á þessum vörum breyta því engu til eða frá um launagreiðslur til manna og það er áreiðanlega það rétta í þessum efnum. Það getum við svo sannarlega flokkað undir „prinsipmál“ af okkar hálfu.

Hvað viðskiptakjörin snertir held ég að það hafi á margan hátt verið skynsamlegt fyrirkomulag að taka þau inn á sínum tíma og geti auðvitað vel komið til greina á síðara stigi að það verði ákveðið. Hins vegar höfum við nú ákveðið hvernig vísitölugreiðslum verði háttað á þessu ári. Sú ákvörðun miðaðist fyrst og fremst við það, að menn fengju til baka í áföngum það sem frá þeim væri tekið 1. mars. Við vitum að þetta sérstaka fyrirkomulag á að gilda út þetta ár.

Ég skaut þessu að vegna þess að ég varð var við að hv. þm. hafði vissa tilhneigingu til að mistúlka afstöðu okkar Alþb.-manna í þessum efnum. Það kom ekkert við fsp. sem hér var borin fram, en mér fannst rétta að skjóta því að.

Hins vegar verð ég að segja það við hv. 1. þm. Reykv., Geir Hallgrímsson, að hann þarf greinilega að kynna sér allmiklu betur en hann hefur gert hvernig vísitölugreiðslum er háttað á laun.