31.03.1981
Sameinað þing: 68. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3229 í B-deild Alþingistíðinda. (3362)

267. mál, menntun fangavarða

Dómsmrh.( Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Það er orðið áliðið þings, sagði síðasti hv. ræðumaður. Það er orðið áliðið dags, verð ég að segja. Þó tel ég nauðsynlegt að fara nokkrum orðum um þessa till. og aðdraganda hennar, till. til þál. um menntun fangavarða.

Til upplýsingar vil ég geta þess í byrjun, án þess að ég segi það með nokkurri þykkju, að ég hef verið meira og minna í embættum hjá ríkinu í rúman aldarþriðjung, ef ég man rétt. Ég hef oft átt yfir mörgu fólki að segja. Mér hefur yfirleitt fallið ákaflega vel við mitt starfsfólk og reynt að bæta úr fyrir því á allan veg. En venjan hefur verið sú, sem ég tel mjög æskilega, að ef eitthvað af mínu starfsfólki hefur talið einhverju ábótavant í yfirstjórn mála hefur það fyrst komið til mín og sagt mér frá því. Nú hefur þetta orðið með öðrum hætti. Ég minnist þess ekki, það er rétt að það komi fram sem satt er, að stjórn félags íslenskra fangavarða hafi minnst á þetta mál við mig einu einasta orði, heldur valið þennan farveg: að láta hv. 2. þm. Austurl. flytja málið hér í þingsölum. Og það vil ég strax segja, að ég þekki þennan hv. þm. og við höfum starfað mikið saman. Ég er ánægður að fjalla um mál með honum, svo sannarlega, og hef ekkert við það að athuga.

Hitt er rétt, að hinn áhugasami og mjög ötuli nýi formaður Verndar, Hilmar Helgason, er maður ekki einhamur þegar hann snýr sér að verki. Hann hefur rætt við mig oftar en einu sinni um ýmis mál sem betur mega fara í mínu rn. og víðar og hann hefur talað um það, að ég man, nýlega að eitt af sínum fyrstu verkefnum yrði að stuðla að því að mennta fangaverði eins og þyrfti að gera. Ég kann honum bestu þakkir fyrir þann áhuga, sem hann hefur sýnt þeim málum sem ég hef um að segja, og vona að við eigum langt samstarf fyrir höndum.

En vegna þess að þessi till. er nú komin hér á borðið hef ég aflað mér upplýsinga um hvernig þessum málum hafi verið háttað í mínu rn. Ég ætla að leyfa mér að fara um þetta nokkrum orðum eftir því sem ég veit best hvað gerst hefur á liðnum árum.

Við gerð sérkjarasamnings Starfsmannafélags ríkisstofnana á árinu 1974 var samið svo um, að fangaverðir skyldu hækka í launaflokkum er þeir hefðu lokið ákveðnum námskeiðum. Var gerð svohljóðandi bókun í sambandi við kjarasamninginn:

„Dómsmrn. mun beita sér fyrir því, að skipulögð fræðsla og þjálfun verði tekin upp fyrir fangaverði, m. a. með námskeiðum við hæfi starfsmanna við hverja sérstaka stofnun. Starfsmannafélagi ríkisstofnana verði gefinn kostur á að fylgjast mjög náið með þeim skipulagningarframkvæmdum. Undirbúningi að ofangreindum skipulagningarframkvæmdum skal lokið fyrir 1. jan. 1975 og framhaldsnámskeið, sem um var getið í 1. gr., skulu hefjast á árinu 1975.“

Framkvæmd námskeiðahalds hefur verið þannig, að flest árin hefur verið efnt til námskeiðs á Litla-Hrauni að vorlagi og hafa nú verið haldin fimm námskeið þar. Hvert námskeið hefur verið milli 20 og 30 kennslustundir. Í Reykjavík hafa verið haldin tvö námskeið 1975 og 1979. Fyrra námskeiðið var 40 klst., en síðara námskeiðið 30 klst. Með þessum námskeiðum hefur rn. talið að fullnægt væri ákvæði kjarasamninganna um að fangavörður hefði lokið framhaldsnámskeiði og flyttist upp um einn launaflokk. Á námskeiðum þessum hefur verið leitast við að veita bæði bóklega fræðslu í greinum eins og sálfræði, afbrotafræði, hegningarlögum, fangelsisreglum og félagslegri aðstöðu. Nokkur líkamleg þjálfun hefur einnig verið á námskeiðunum. Ljóst er að ekki er unnt að veita nema mjög yfirborðskennda innsýn yfir þau viðfangsefni, sem hér er um að ~æða, í svo fáum kennslustundum. Fangaverðir hafa verið óánægðir með námskeið þessi að því leyti til, að þeir telja, að þau veiti þeim ekki jafnmikla menntun og framhaldsskóli lögreglunnar veitir lögreglumönnum, og telja sig hafa fengið þau svör, er þeir hafa verið að krefjast sömu launaflokka og lögreglumenn, að þeir hafi ekki hlotið sömu menntun og lögreglumennirnir og séu því ekki hæfir til að sitja í sömu launaflokkum og þeir.

Námskeiðsmálin virðast hafa komið á dagskrá við síðustu sérkjarasamninga Starfsmannafélags ríkisstofnana því þar var gerð svohljóðandi bókun:

„Minnt er á bókanir er fylgt hafa fyrri samningum varðandi fræðslumál fangavarða. Sérstakt námskeið fyrir fangaverði verður haldið eigi síðar en 1. maí 1981.“

Starfsmannafélagið hefur nú ritað rn. bréf þar sem það fer fram á að nú þegar verði hafinn undirbúningur að námsskrá þessa námskeiðs og að haft verði fullt samráð við fulltrúa félagsins. Lýsir félagið sig að sínu leyti reiðubúið að tilnefna fulltrúa í starfsnefnd ef á þá tillögu er fallist af hálfu rn.

Nú standa mál þannig í fangelsunum hér í Reykjavík og á Litla-Hrauni, að sex menn hafa ekki fengið viðurkenningu fyrir að hafa lokið framhaldsnámskeiði. Til að fullnægja ákvæðum kjarasamninga þyrfti því að halda námskeið fyrir þann hóp a. m. k. áður en þeir hafa verið fjögur ár í starfi. Ef hins vegar á að efna til kennslu fyrir fangaverði hér svipaðrar þeirri sem veitt er fangavörðum á Norðurlöndunum hinum, þá þarf að efna til verulegs skólahalds. Til dæmis í Noregi er framhaldsskóli fangavarða 1200 kennslustundir og tekur kennslan ásamt verklegri þjálfun um eitt ár. Vissulega væri gagnlegt fyrir fangaverði að fá slíka kennslu. Spurning er hins vegar hvort ríkisvaldið er reiðubúið til að kosta hana og hvort hún er nauðsynleg í starfi fangavarðanna. Og þarna komum við enn og aftur að því máli sem við fjölluðum um í máli sem rætt var hér næst á undan. Það er kostnaður við kennsluna og hvernig þær fjárveitingar eru inntar af hendi.

Ef koma ætti á fót slíkri kennslu og mennta þá fangaverði sem þegar eru í starfi, en þeir eru nú um 60, mætti hugsa sér að taka 15 manna hóp á ári og hafa hann í skóla hér í Reykjavík frá hausti til vors. Slíkt hefði að sjálfsögðu verulegan kostnað í för með sér því að ráða yrði 15 menn í fangelsin í staðinn, auk þess sem greiða yrði þeim, sem skólann sæktu, full laun með vaktaálagi. Ef koma á slíkum skóla á fót þarf að fá til þess verulega fjárveitingu og þarf því að taka ákvörðun um það nú á þessu vori, hvort stefna á að því að hefja slíkt skólahald á næstunni. Til að átta sig á kostnaði í stórum dráttum má áætla að 900 klst. skólavist 15 manna í 7 mánuði mundi kosta u. þ. b. 1.5 millj. kr. Nú eru í fjárlögum til námskeiðahalds fyrir fangaverði 20 þús. kr.

Þetta eru hinar almennu upplýsingar. En ég skal síðastur manna mæla gegn því, að menntun fangavarða sé aukin. Mér er það ljóst, að þeir vinna mjög mikilvægt og ábyrgðarmikið starf. Ég er reiðubúinn að leggja mig fram um að þeim verði gert fært að afla sér þeirrar menntunar sem gerir þeim kleift að leysa störf sín sem allra best af hendi. En ég verð að benda á það um leið og ég segi þetta, að þetta kostar fé. Þar komum við alltaf að meginmálinu sem oft stendur í okkur alþm. þegar við erum að reyna að koma góðum málum til leiðar.

Hér er að sjálfsögðu aðallega átt við sérmenntun, en við megum svo ekki gleyma því, að vitaskuld verða fangaverðir að uppfylla ýmsar kröfur. Og það gleður mig sannarlega að ég held að eftirsókn eftir fangavarðastöðum fari heldur vaxandi. Umsækjendum fjölgar um þær stöður sem losna, þannig að eitthvert tækifæri gefst til þess að velja úr. Þetta er að sjálfsögðu ánægjuefni. En hitt verð ég að benda á, að það er fjarri því að allir þeir fangaverðir eða þeir, sem sinna fangagæslu nú hér á landi, séu alveg ómenntaðir menn. Margir eru sem betur fer að mínum dómi allvel menntaðir. Lögreglumann, sem búinn er að ganga í Lögregluskólann og búinn að starfa í mörg ár að löggæslustörfum, tel ég t. d. menntaðan mann, þ. e. ef hann hefur næga hæfni. — Þar komum við alltaf að einu atriði, að um góðan mann sé að ræða. Það er nauðsynlegt að góðir menn veljist í störf, bæði fangavörslu og löggæslu. Það er ekki alltaf hægt að kenna þeim mönnum sem ekki uppfylla þetta skilyrði. Það er eins og segir í kvæði Bjarna Thorarensens:

Kurteisin kom að innan,

sú kurteisin sanna

siðdekri öllu æðri

af öðrum sem lærist.

Það er kannske númer eitt, þegar við tölum um að reyna að fá góðan fangavörð, að þar fari góður maður. Ég hef haft nokkuð náin kynni á undanförnum árum af einu fangelsi, á Kvíabryggju. Sé athugað hvaða menntun þeir menn hafa, sem þar gegndi störfum núna, þá er það lögreglumaður sem er nýráðinn forstjóri. Hann er hæfur maður og reyndist vel í öllum sínum löggæslustörfum á Snæfellsnesi um margra ára skeið. Þar eru menn sem hafa iðnmenntun og aðra mennt, þó þeir hafi ekki sérstakt fangavarðarpróf.

Þeir, sem hafa lesið Morgunblaðið um helgina, hafa e. t. v. lesið mikla grein um Bevin, hinn fræga stjórnmálamenn Breta. Bretakonungur spurði hann: Hvar hefurðu öðlast alla þína miklu menntun, Bevin? — því það var vitað mál að hann var óskólagenginn. Hann svaraði: Í limgerðum lífsreynslunnar.

Þannig má lengi telja, og ég get ekki stillt mig um að skjóta að einni gamalli gamansögu um íslenska bændur. Það hefur verið sagt um þá, að þeir vissu allt um allt nema búvísindi. Og við vitum að þeir eru hinir fróðustu menn þó að þeir hafi ekki allir gengið í búnaðarskóla.

Þess vegna er það fjarri mér að þessum orðum töluðum að mæla gegn þessari tillögu. Þvert á móti er ég reiðubúinn að stuðla að þessum málum. En ég get ekki stillt mig um að minna á í lokin þær hæfni- og menntunarkröfur sem eru gerðar til alþm. þegar þeir veljast hingað á Alþingi og eiga að ráða málum manna og raunverulega ráðum alþjóðar. Þeir þurfa ekki að sýna eitt einasta skírteini við inngöngudyrnar, ekki skírteini frá nokkrum skóla. Jú, þeir þurfa víst að hafa með sér kjörbréfið, en það er það eina. (Gripið fram í.) Jæja, það er að bera í bætifláka fyrir okkur alla og það er þakkarvert. En a. m. k. alþm., sem hingað kemur inn í salinn til þess að ráða fram úr mestu vandamálum lands og þjóðar, þarf ekki að sýna prófskírteini frá nokkrum skóla.