06.04.1981
Sameinað þing: 70. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3405 í B-deild Alþingistíðinda. (3479)

387. mál, fjárfestingar- og lánsfjáráætlun 1981

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Í lögum um stjórn efnahagsmála segir að ríkisstj. skuli leggja fyrir Alþingi fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir eitt ár í senn. Markmiðið er að tryggja að heildarumsvif í fjárfestingu og þróun peningamála og lánamála samrýmist þjóðhagslegum markmiðum. Enn fremur skal leggja fram frv. til l. um lántöku og ábyrgðarheimildir og aðrar nauðsynlegar ráðstafanir til fjáröflunar vegna opinberra framkvæmda og fjárfestingarlánasjóða að því marki sem slík ákvæði eru ekki í fjárlögum. Slíkt frv. til lánsfjárlaga var flutt í hv. Ed. og hefur verið afgreitt frá fjh.- og viðskn. Ed.

Þessi áætlun er samin á vegum ríkisstj. Undirbúning hafa annast Þjóðhagsstofnun, fjárlaga- og hagsýslustofnun, Seðlabanki Íslands og Framkvæmdastofnun ríkisins í samvinnu við einstök ráðuneyti.

Fjárfestingar- og lánsfjáráætlun er í höfuðatriðum reist á þeim markmiðum í efnahagsmálum sem sett eru fram í stjórnarsáttmálanum, efnahagsáætlun ríkisstj. frá síðustu áramótum og þjóðhagsáætlun. Helstu markmið ríkisstj., sem getið er um í þessum samþykktum og áætlunum, má draga saman í sex meginatriði:

1. Ríkisstj. leggur höfuðáherslu á næga og örugga atvinnu fyrir allá landsmenn.

2. Ríkisstj. hefur sett sér það mark að draga verulega úr verðbólgu á árinu og stefna að því að verðhækkanir frá upphafi til loka árs verði ekki meiri en 40%.

3. Í kjaramálum er markmið ríkisstj. að tryggja sem best kaupmátt launa og stuðla að jafnari lífskjörum.

4. Stefnt er að jafnvægi í viðskiptum við önnur lönd.

5. Ríkisstj. beiti sér fyrir æskilegu jafnvægi í byggð landsins.

6. Í atvinnumálum er lögð áhersla á atvinnuuppbyggingu og vöxt framleiðslu til þess að standa undir batnandi lífskjörum á komandi árum.

Þessi markmið mynda ramma í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun.

Þróun og horfur í efnahagsmálum þjóðarinnar á þessu ári hafa bæði dökkar og ljósar hliðar. Bráðabirgðauppgjör fyrir árið 1980 bendir til þess, að þjóðarframleiðslan hafi aukist um 2.5% frá fyrra ári, og er það meiri vöxtur en áður var gert ráð fyrir. Ástæðan er einkum sú, að fiskafli og framleiðsla sjávarafurða reyndist meiri en reiknað var með í þjóðhagsáætlun, þorskaflinn 428 þús. tonn rúm í stað 380–400 þús. tonna. Þjóðhagsspá fyrir árið 1981 telur nú að þjóðarframleiðslan verði svipuð og á árinu 1980. Í þjóðhagsáætlun frá því í okt. s. l. var hins vegar reiknað með 1% vexti þjóðarframleiðslu í ár. Þessa breytingu má einkum rekja til tveggja þátta: Í fyrsta lagi eru sóknartakmarkanir til að vernda og varðveita fiskstofnana og í annan stað dregur orkuskortur úr framleiðslu iðnfyrirtækja sem nota mikla raforku.

Viðskiptakjör, þ. e. hlutfall milli innflutnings- og út flutningsverðs, voru um 3.5% lakari á árinu 1980 en árið áður. Þessi rýrnun viðskiptakjara jafngilti 1.3% af þjóðarframleiðslu. Þar sem þjóðarframleiðslan jókst um 2.5% varð vöxtur raunverulegra þjóðartekna þannig 1.2%, en þær höfðu minnkað um 1.2% árið áður. Nú í ár er útlit fyrir að viðskiptakjör rýrni enn um 1–2%, en hér þarf þó að hafa í huga að óvissa er nú óvenjumikil um viðskiptakjör. Kemur þar margt til, en helstu áhrifaþættir eru þrír:

Verðlag á frystum fiski í Bandaríkjunum ræður enn sem fyrr miklu um. Verð á mikilvægustu afurðum hefur verið nær óbreytt í rúm tvö ár þó að matvælaverð í Bandaríkjunum hafi almennt hækkað talsvert. Afar erfitt er að ráða í líklega verðþróun á frystiafurðum á næstu misserum.

Í öðru lagi er olíuverðið óvissu háð. Skráð verð á olíu á Rotterdam-markaði hefur verið stöðugt að undanförnu. Innflutt gasolía frá Bretlandi kemur í auknum mæli fram í verði á næstunni og gengishækkun dollars veldur verðhækkun á olíu. Eins og nú horfir eru frekar líkur til að innflutningsverð á olíu hækki í ár heldur meira en verð á öðrum útflutningi.

Þriðji óvissuþátturinn er gengisþróun á erlendum gjaldeyrismörkuðum. Að undanförnu hafa átt sér stað sviptingar í verðhlutföllum á milli einstakra gjaldmiðla. Gengi Bandaríkjadollars hefur þannig hækkað verulega gagnvart öðrum myntum, en erfitt er að meta horfur í gengisþróun erlendis.

Helstu einkenni utanríkisviðskipta á árinu 1980 voru aukning vöruútflutnings umfram innflutning, rýrnun viðskiptakjara og mikill halli á þjónustujöfnuði. Vöruútflutningur jókst um 9% á föstu verðlagi, en vöruinnflutningur um 6.5%. Vöruskipti við útlönd urðu hagstæð um 10.8 milljarða gkr. Þjónustujöfnuður, þ. e. önnur viðskipti en vörur, einkum vaxtagreiðslur og samgöngur við útlönd, varð hins vegar óhagstæður um 42.8 milljarða gkr. Þegar tekinn er saman vöruskipta- og þjónustujöfnuður kemur út viðskiptajöfnuður og varð hann því óhagstæður um 32 milljarða gkr. Þessi halli varð talsvert minni en þjóðhagsáætlun í okt. gerði ráð fyrir, en það voru 46 milljarðar.

Í þjóðhagsspá fyrir 1981 er gert ráð fyrir að vöruskiptajöfnuður geti orðið hagstæður um nálægt 100 millj. nýkr. Hins vegar eru enn horfur á verulegum halla á þjónustujöfnuði, um 500 millj. nýkr. Verulegan hluta af þessum halla má rekja til hærri vaxta en áður á erlendum lánsfjármörkuðum og hinna miklu erfiðleika í flugrekstri. Samkv. þessari spá yrði viðskiptahallinn á árinu 1981 um 400 millj. nýkr. og er það ívið minni halli í hlutfalli við þjóðarframleiðslu en á árinu 1980.

Þróun inn- og útflutnings hefur verið hagstæð það sem af er árinu 1981. Á fyrstu tveim mánuðum ársins varð innflutningur 15% minni en á sama tíma í fyrra þegar reiknað er með sambærilegu gengi. Á sama tíma var útflutningur 4% meiri en í jan. og febr. í fyrra.

Eins og ýmsar þær tölur bera með sér, sem hér hafa verið raktar, er mótbyr í mörgum greinum í efnahagsmálum þjóðarinnar. Við þessar aðstæður er afar brýnt að láta ekki reka af leið og vinna af einurð að settu marki.

Samkv. þjóðhagsspá verður þjóðarframleiðslan svipuð á þessu ári og í fyrra. Byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð er einnig áætluð með svipuðu móti og á árinu 1980, en þá jukust umsvif í þessari grein um 34%. Gangi þessar spár eftir er líklegt að eitthvað dragi úr þeirri spennu eftirspurnar sem ríkt hefur oft á vinnumarkaði á undanförnum árum. Nauðsynlegt verður að fylgjast náið með atvinnuástandi, bæði í einstökum atvinnugreinum og einstökum byggðarlögum. Eftirlit með ástandi og horfum í atvinnumálum hefur verið eflt að undanförnu í samræmi við ákvæði stjórnarsáttmálans, en þar segir:

„Til þess að tryggja næga atvinnu og koma í veg fyrir ofþenslu á vinnumarkaði skal félmrn. og Þjóðhagsstofnun falið að fylgjast náið með atvinnuástandi og horfum í öllum greinum atvinnulífs og opinberum framkvæmdum um land allt. Komi í ljós, að hætta sé á atvinnuleysi eða ofþenslu í einhverri grein, skal ríkisstj. gert aðvart, til þess að unnt verði í tæka tíð að gera nauðsynlegar ráðstafanir með ákvörðunum ríkisstj. og samkomulagi við aðra aðila.“

Í samræmi við þetta ákvæði starfa nú fulltrúar Þjóðhagsstofnunar, vinnumáladeildar félmrn. og Kjararannsóknarnefndar saman að þessum málum, koma reglulega saman til að meta ástand og horfur í atvinnumálum og fara yfir gögn sem safnað er milli funda.

Efnahagsáætlun ríkisstj. frá 31. des. hefur það markmið að draga svo úr hraða verðbólgunnar að hún verði ekki meiri en 40% á árinu 1981. Efnahagsaðgerðirnar um áramót hafa þegar borið verulegan árangur. Í janúarmánuði hækkar vísitala framfærslukostnaðar um 1.62% og spá Hagstofu Íslands fyrir mánuðina febr.-maí gerir ráð fyrir 8.4% hækkun framfærsluvísitölu á því tímabili Ef þessi spá gengur eftir nema verðhækkanir á fyrstu fjórum mánuðum ársins 10.2%, sem gerir miðað við heilt ár um það bil 33%. Í spám Þjóðhagsstofnunar er gert ráð fyrir 8% hækkun í ágúst og 11% hækkun í nóv. Miðað við þessar spár og ef gert er ráð fyrir svipuðum verðhækkunum fyrir síðustu tvo mánuði ársins verður verðbólgan frá upphafi til loka árs um 40%. Það verður að hafa allan fyrirvara á um þessar spár. (Gripið fram í.) Eru þetta einhverjar aths. við áætlanir Þjóðhagsstofnunar frá 1980? (Gripið fram í.) Já, sem sagt það, sem ég skýrði hér frá, voru áætlanir Hagstofu og Þjóðhagsstofnunar og það verður, eins og ég tók fram, að hafa allan fyrirvara á um þessar spár því að reynsla margra undanfarinna ára sýnir hversu erfitt er að segja fyrir um verðlagsþróun af nákvæmni.

Þeim árangri, sem þegar hefur náðst, er nauðsynlegt að fylgja fast eftir á næstu mánuðum og misserum þar til er verðbólga verður ekki meiri hér á landi en í þeim löndum sem Íslendingar hafa mest samskipti og samanburð við.

Fjárfesting á árinu 1980 verður samkv. áætlun nokkru minni en í fyrra og talin nema 26% af þjóðarframleiðslu. Fjárfesting í fyrra nam um 27% af þjóðarframleiðslu. Í stjórnarsáttmálanum er mörkuð sú stefna, að heildarfjárfestingu á árinu 1980–1981 verði haldið innan þeirra marka sem ákvarðast af eftirspurn, viðskiptajöfnuði og atvinnuöryggi og nemi fjárfestingin um fjórðungi af þjóðarframleiðslu. Fjárfestingin hefur þannig verið í hátt við sett markmið, enda þótt mikil áhersla hafi verið lögð á framkvæmdir í orkumálum.

Raforkuframkvæmdir jukust um rösklega 40% Í fyrra og munu enn aukast nokkuð á þessu ári. Framkvæmdir við Hrauneyjafossvirkjun verða meiri í ár en í fyrra og miðast þær við að unnt verði að taka fyrsta áfanga virkjunarinnar í notkun í haust. Þá er lögð áhersla á hitaveituframkvæmdir, en hvort þessara ára, 1980 og 1981, nema orkuframkvæmdir, þ. e. raforku- og hitaveituframkvæmdir, um 5.5% af þjóðarframleiðslu, en meðaltal orkuframkvæmda sem hlutfall af þjóðarframleiðslu nam 2.5% á ári 1960–1969 og 4.2% á ári 1970–1971.

Ríkisstj. hefur lagt áherslu á jafnvægi í ríkisfjármálum og þannig verði veitt aðhald í efnahagslífinu og dregið úr verðþenslu. Góður árangur hefur þegar nást í þessu efni. Ríkisfjármálin voru í því jafnvægi á síðasta ári að það var mikilvægt framlag í viðnámi gegn verðbólgu. Samkv. bráðabirgðatölum urðu útgjöld ríkissjóðs um 28% af þjóðarframleiðslu, en á síðustu sex árum hafa útgjöld ríkissjóðs numið að meðaltali 28.5% af þjóðarframleiðslu.

Með peningamálum er fyrst og fremst átt við þróun innlána og útlána í bönkum og sparisjóðum. Markmið stefnunnar í peningamálum er að stuðla að framgangi efnahagsstefnu ríkisstj. með því að efla sparifjármyndun og skapa jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar lána. Fjárfestingar- og lánsfjáráætlunin felur í sér, að aukin útlánageta innlánsstofnana verði nýtt enn frekar en á síðasta ári til að draga úr erlendum lánum. Stefnt er að því að útlán bankakerfisins stuðli sem best að því að sjá fyrir eðlilegum þörfum atvinnulífsins án þess að leiði til ofþenslu.

Þróun innlána var mjög hagstæð á árinu 1980. Þau jukust um 67.4%, en 57.4 árið áður. Í þróun útlána horfði illa framan af ári. Útlán á fyrstu mánuðum ársins voru of mikil, og fóru langt fram úr áætluninni. Þessi þróun leiddi til peningaþenslu. sem dró úr aðhaldsáhrifum af batnandi stöðu ríkissjóðs. Til ágústloka versnaði lausafjárstaða bankanna um 27 milljarða gkr., en um 13.5 milljarða fyrir sama tímabil árið áður. Í septembermánuði var m. a. að tilhlutan ríkisstj. gripið til aðgerða til að draga úr útlánaaukningunni. Þessar aðgerðir ásamt aukningu innlána urðu til þess að peningamál tóku nýja og heillavænlegri stefnu og í árslok hafði góður árangur nást. Yfir árið í heild nam aukning útlána 56%, en var 58% árið áður.

Þróun inn- og útlána það sem af er þessu ári hefur verið hagstæð. Á fyrstu tveim mánuðum þessa árs hafa heildarinnlán aukist um 13.3%, en 9.8% á sama tímabili í fyrra. Vöxtur í útlánum er hægari en í fyrra, útlán jukust um 7.4% í jan. og febr., en 10.2% sama tímabil árið 1980.

Ríkisstj, leggur áherslu á að peningamálin verði í samræmi við efnahagsstefnu og verðlagsmarkmið hennar. Eins og þær tölur, sem nú hafa verið nefndar, bera með sér hefur náðst góður árangur í þessu efni. Betra jafnvægi er nú í peningamálum en verið hefur um árabil.

Herra forseti. Um ýmis önnur atriði, sem skipta verulegu máli í sambandi við fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, vil ég ekki ræða hér frekar, a. m. k. að sinni, en vísa til hinnar ítarlegu grg. í því þskj. sem útbýtt hefur verið.