06.04.1981
Efri deild: 71. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3429 í B-deild Alþingistíðinda. (3486)

283. mál, lagning sjálfvirks síma

Egill Jónsson:

Herra forseti. Ég fagna því sannarlega að þetta frv. skuli vera fram komið. Það er sannarlega mikil þörf á að bæta símaþjónustuna í sveitum landsins, og ég tek undir þau rök sem komu fram hjá hæstv. samgrh. um það. Ég undirstrika það alveg sérstaklega sem kom fram í máli hans, að viðhaldinu hefur ekki verið sinnt svo sem vera skyldi, m. a. af því að það hefur verið gengið fram hjá því, gengið út frá því, að þessar breytingar gengju miklu hraðar yfir en raun ber vitni. Í því sambandi vil ég minna á að við síðustu fjárlagaafgreiðslu, þar sem framkvæmdir Pósts og síma voru verulega skornar niður frá því sem áætlun þeirrar stofnunar gerði ráð fyrir, var einmitt langmestur niðurskurðurinn á sjálfvirka símanum. Það er að sjálfsögðu rökstutt með því, að þar sé arðsemin minni en í ýmsum öðrum framkvæmdum á vegum Pósts og síma. Þess vegna er alveg öruggt að það mundi leiða til mikils vandræðaástands ef ekki kæmi til skipulagðra framkvæmda í þessum efnum. Ekki síst að þessari ástæðu er ákaflega mikilvægt að það verði gerð um þessi mál áætlun og við hana verði staðið.

Ég vek sérstaklega athygli á því, sem kom hér fram í ábendingu hv. þm. Helga Seljans og reyndar undirtektum ráðh., hvernig frá lögunum verður gengið og túlkun þeirra varðandi framkvæmdir í ár. Ég fæ ekki annað séð en þarna sé eðlilegt að taka af öll tvímæli og ekki síst með tilliti til þeirra skýringa sem komu fram hjá hæstv. ráðh., þar sem hann talar um að niðurfelling á aðflutningsgjöldum eigi að hans mati að ná til tiltekinna verkefna á þessu ári. Það eru væntanlega verkefni sem snerta lagningu sjálfvirks síma í sveitir landsins — það litla sem kann að verða framkvæmt af því á þessu ári. Það er ekki fyrir að synja að verði lögin framkvæmd þannig er hægt að komast lengra í þeim efnum en t. d. fjárlög mæla fyrir. Ég vil þess vegna undirstrika það alveg sérstaklega og beina þeim mjög ákveðnu tilmælum til fjh.- og viðskn., sem fjallar um þetta mál, að þarna verði kveðið skýrt á og að lögin verði látin verka með tilliti til þess að þau nái til framkvæmda þessa árs.