06.04.1981
Neðri deild: 71. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3462 í B-deild Alþingistíðinda. (3510)

209. mál, tollskrá

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það eru aðeins fá orð við þessa umr.

Það er fyrst það, að auðvitað er ekki vansalaust hversu þetta mál hefur dregist hér í þinginu og er raunar komið í algeran eindaga að afgreiða málið. Hverju þar er um að kenna skal ég ekkert um segja, en auðvitað er það afskaplega slæmt þegar mál sem þetta dregst von úr viti, ekki bara í þetta skipti, heldur gerðist þetta, ef ég man rétt síðast líka. Þetta var allt á síðasta snúningi þá líka.

Ég vil mjög taka undir þau meginsjónarmið sem komu fram í máli hv. þm. Alberts Guðmundssonar. Ég tel að það sé ekki vansalaust fyrir íslenskt þjóðfélag hvernig það hefur hagað þessum málum. Það er auðvitað þörfin sem á að ráða. Menn segja: Það er erfitt að koma því í framkvæmd. — Ég hef heyrt þær mótbárur, að til þess þurfi að setja ítarlegri löggjöf. Það má vera að það sé rétt. En í framhaldi af því væri vissulega verðugt verkefni fyrir hæstv. ríkisstj. og Alþingi að á ári fatlaðra væri á komandi hausti gengið frá slíkri löggjöf sem innifæli það meginefni að það væri þörfin sem réði, en ekki nefnd sem úrskurðaði — meira og minna kannske eftir geðþóttaákvörðun hverju sinni.

Menn segja á móti: Það er tekjutap ríkissjóðs. — Það sjónarmið er ríkt í mörgum hverjum stjórnvöldum. Þar virðist ekki skipta máli hvort svörtustu afturhaldsmenn eða argvítugustu kommúnistar sitja í ráðherrastólum hverju sinni. Þar virðist enginn munur á. Alltaf er ríkissjóður númer eitt og svo þegnarnir númer tvö. Ég hef sagt það áður og segi það enn: Ef menn á annað borð eru að horfa í peningana í þessu tilfelli er ekkert vandamál að sjá fyrir þeim hluta málsins. Það mætti að mínu viti fækka t. d. starfsfólki í ríkiskerfinu um a. m. k. 30% án þess að nokkurs staðar sæi högg á vatni í þjónustu við fólkið. Það er alltaf stór hópur í ríkiskerfinu sem situr næstum því einvörðungu við blaðalestur og ríkið kaupir blöðin til þess að fólk geti lesið þau. Þarna á að breyta og þarna má bæta um til þess að draga úr rekstrarútgjöldum ríkisins.

Ég þykist vita að þetta sjónarmið eigi ekki mikið fylgi hér á Alþingi. en vonandi vex því fylgi að draga úr ríkiskerfinu með þessum hætti til að bæta upp það sem ríkið hefur vanrækt t. d. gagnvart öryrkjum og fötluðum og fleiri þjóðfélagsþegnum. En þetta sjónarmið hefur ekki heldur náð eyrum stjórnvalda, hvort sem í hlut eiga íhaldsmenn eða kommúnistar. Þar breyta ekki þau rök sem eru að baki í þessu máli. Það getur auðvitað ekki gengið að ríkisvaldið haldi alltaf áfram, hvernig sem árar á annað borð í efnahagsmálum eða verkast vill um stöðu þjóðarinnar, að hlaða ofan á kerfið hjá sér og bæta þannig sköttum á þegnana án þess að þeir sjái í raun og veru nokkuð koma í staðinn.

Ég skal ekki hafa um þetta öllu fleiri orð, herra forseti, en ég vil mjög taka undir, eins og ég sagði áðan, það meginsjónarmið hjá hv. þm. Albert Guðmundssyni, að hér eigi að breyta til. Ég þykist þess fullviss að það verði ekki gert við afgreiðslu málsins nú, en það væri vissulega verðugt verkefni þó að það yrði ekki fyrr en síðar á árinu. Í leiðinni væri það ekki síður verðugt verkefni að skera upp ríkiskerfið, fækka starfsfólki og minnka þannig skattpeninga. Þjónustan verður ekki verri, kannske betri.