08.04.1981
Efri deild: 74. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3539 í B-deild Alþingistíðinda. (3564)

217. mál, lánsfjárlög 1981

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég hef ekki hugsað mér að gera aths. við málflutning utanrrh. Ég hef gert hér fyrst og fremst grein fyrir því við þessa umr. hvers vegna framlag til flugstöðvarbyggingar var ekki tekið inn á lánsfjáráætlun. Ég hef fært fram þau rök, sem ég held að tali fyrir sig sjálf, og sé ekki ástæðu til að endurtaka þau. Utanrrh. hefur gert grein fyrir sínum sjónarmiðum og við eigum vafalaust síðar kost á að skiptast frekar á skoðunum um þetta mál.

En vegna þess að utanrrh. upplýsti menn hér um, að hann hefði gert sérstaka bókun um þetta mál í ríkisstj., og sagði, að hann hefði látið bóka það eftir sér að hann áskildi sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. um framlög til flugstöðvar sem hugsanlega kæmi fram hér í þinginu, vil ég upplýsa það í framhaldinu, að eftir að sú bókun hafði verið gerð lýsti ég því yfir, að vegna þeirra ákvæða í stjórnarsáttmálanum, sem allir þekkja, væri það skýlaust brot að okkar dómi á samstarfssamningi flokkanna ef einn ráðh. í þessari ríkisstj. gengi í lið með stjórnarandstöðunni til að knýja fram milljarðaútgjöld sem ríkisstj. hefði ekki samþykkt að standa að. — Þetta vildi ég að kæmi fram í framhaldi af þessum upplýsingum um bókun í ríkisstj.