08.04.1981
Efri deild: 74. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3539 í B-deild Alþingistíðinda. (3565)

217. mál, lánsfjárlög 1981

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Sú till., sem hér liggur fyrir og er flutt af Lárusi Jónssyni og mér, er til komin vegna þess að okkur er ljóst að ekki má dragast öllu lengur að taka ákvörðun í þessu máli. Það er svo, að menn hafa valið þann kostinn að reisa þessa byggingu í samvinnu við Bandaríkjamenn sem koma til með að þurfa að hafa aðstöðu þarna um einhvern tíma. Þeir hafa boðist til að leggja í þessa framkvæmd 20 millj. dollara, en hún mun alls kosta rúmlega 43 millj. dollara. Það er ekki aðeins að þessi upphæð standi til reiðu, heldur hafa þeir boðist til að kosta alfarið framkvæmdir við flugvélastæði, eldsneytisafgreiðslu og vegi að byggingunni sem nemur um 25 millj. dollara, þannig að það er nokkurs virði að við sýnum lít á því að hefja þessar framkvæmdir.

Hér er um að ræða framkvæmd við byggingu sem verður höfuðsamgöngumiðstöð landsins næstu áratugi og bætir úr brýnni þörf, vegna þess að sú flugstöð, sem nú er fyrir, er allsendis ófullnægjandi, ekki aðeins hvað varðar aðbúnað starfsfólks, heldur líka er niðurlægjandi að þurfa að búa við það að vera með flugstöðina inni á miðju varnarliðssvæðinu.

Því er ekki að leyna, að við eigum allmikla von í því, að framsóknarmenn styðji þessa tillögu. Alþfl.-menn gera það allir og hv. þm. Lárus Jónsson hefur lýst yfir að sjálfstæðismenn geri það einnig. Framsóknarmenn gerðu ályktun á miðstjórnarfundi sínum nú um helgina þar sem þeir bentu á nauðsyn þess að aðskilja herlíf og þjóðlíf, eins og þeir kölluðu það, þannig að ég vænti þess, að ~eir verði með.

Úrtölumenn hafa í Þjóðviljanum og á fleiri stöðum reynt að bera saman nauðsyn þess að ljúka innlendri flugvallagerð og svo aftur þessu. Ég tel, að sá samanburður sé í raun alveg út í hött og sé ekki rök gegn því, að flugstöðin verði byggð. Í samanburði, sem gerður er í Þjóðviljanum í dag, er reiknað með því alfarið að þetta sé kostað af íslenska ríkinu, en þess ekki getið, að við eigum kost á þeim fjármunum frá Bandaríkjunum er ég hef tilgreint.

Hinir ýmsu aðilar hafa fjallað um flugstöðvarbygginguna og m. a. flugráð. Í samþykkt, sem það gerði, mæla ráðsmenn með því að ráðist verði í framkvæmdir — eða eins og þeir segja, með leyfi forseta: „Flugráð mælir með að stefnt verði að byggingu nýrrar flugstöðvar og þannig bætt öll aðstaða fyrir flugfarþega og starfslið á flugvellinum.“

Ráðuneyti Ragnars Arnalds hefur gert áætlanir um þessi mál og unnið vel og dyggilega að undirbúningi. Allt mælir með því að við tökum ákvörðun einmitt nú. Ég trúi ekki öðru en Alþb.-menn sjái sig um hönd. Þeir hafa sætt sig við ýmsar framkvæmdir sem Bandaríkjastjórn hefur alfarið kostað, eins og t. d. lengingu flugbrautar, þar sem látið var við það sitja að gera bókanir í ríkisstj. og ekki annað gert. Ýmislegt annað mætti til tína, en sú röksemd, að ekki megi gera þetta í samvinnu við Bandaríkjamenn, stenst ekki á meðan menn una við framkvæmdir eins og t. d. flugbrautarlenginguna.

Ég hef heyrt það á framsóknarmönnum hér í deildinni, að þeim þyki ekki varlegt að beygja kommana meira en þeir hafi gert. Þeir framsóknarmenn telja sig hafa fengið tryggingu fyrir því, að umræddir olíutankar verði byggðir. Svo er málum háttað, að framkvæmdir þar syðra eru meiri núna en oft áður. Þeim framsóknarmönnum óar við því að vísu að beygja kommúnista öllu meira, en ég held að það sé alveg tímabært að taka ákvörðun hvort sem þeim líkar betur eða verr.

Um framtíð Flugleiða, sem rætt var um hér áðan, veit náttúrlega enginn að fullu, en sú óvissa, sem þar ríkir, er ekki rök fyrir því að fresta þessari byggingu. Þessi bygging hlýtur að koma og við verðum að taka ákvörðun til þess að missa ekki af því fé sem til reiðu er nú þegar.

Sú flugstöð, sem nú á að byggja, hefur verið margendurhönnuð, ef svo mætti segja, og er nú í minnsta lagi. Síðasta endurhönnun gekk aðallega út á það að gera allt umhverfi stöðvarinnar nöturlegra en það ella hefði orðið, en búið er að koma kostnaði niður í það lágmark sem hugsanlegt er.

Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir ágætar viðtökur við þessari till. og vænti þess, að aðrir framsóknarmenn fylgi í fótspor hans. Við megum ekki láta úrtölumenn og fulltrúa afturhaldsins í landinu, sem í dag og síðustu árin hefur verið í gervi Alþb., stjórna því hvernig farið er að þessum málum. Við verðum að hafa þor til þess að taka ákvarðanir, þegar réttur tími er, og láta úrtöluraddir afturhaldsmanna sem vind um eyru þjóta. Því er það von mín, að sem allra flestir dm. samþykki þessa till. þannig að hægt verði að hefja framkvæmdir sem allra fyrst.