08.04.1981
Efri deild: 75. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3548 í B-deild Alþingistíðinda. (3588)

209. mál, tollskrá

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Í frv. þessu segir: „Enn fremur er rn. heimilt að lækka eða fella niður fyrir framangreint fólk gjöld af gervilimum, sem ekki verða gerðir hér á landi, svo og af áhöldum og hjálpartækjum sem sérstaklega eru gerð með tilliti til þarfa þess og henta ekki öðru fólki.“

Ég held að það sé á nokkrum misskilningi byggt ef menn halda að þetta sé nýmæli í lögum. Þetta hefur verið í lögum og hefur verið framkvæmt undantekningarlaust. Ef um hefur verið að ræða fólk af þessu tagi hafa aðflutningsgjöld verið felld niður. Ég held því að það mundi engu breyta þó að þessi setning verði þannig orðuð að rn. sé skylt að lækka eða fella niður. Ég held að rn. telji sér a. m. k. siðferðilega skylt að láta eitt yfir alla ganga og heimildin sé því tvímælalaust notuð ef hún er talin eiga við.

Ég vil hins vegar greina frá því hér, að um nokkurra ára skeið hefur verið deila milli þeirra sem hér eiga hlut að máli, og rn. um það, hvernig skilja beri orðið „gjöld“ í þessari mgr. Það hefði kannske verið frekar ástæða til að hreyfa við því orði, vegna þess að það hefur verið þarna umdeilanlegt eins og í mjög mörgum öðrum hliðstæðum tilvikum. Þetta orð má auðvitað annars vegar túlka þannig að það eigi einungis við aðflutningsgjöld, sbr. að hér er verið að ræða um tollskrá með síðari breytingum, en víða í löggjöf hefur það í reynd verið túlkað þannig að fella megi niður aðflutningsgjöld og sölugjald. Um þetta hafa verið deilur, en heimildin hefur verið túlkuð með hinum þrengri skilningi, þannig að einungis aðflutningsgjöld hafa verið felld niður. Nú fyrir skemmstu, þ. e. fyrir 10 dögum, var tekin ákvörðun um að fallast á þá eindregnu kröfu þeirra sem hér eiga hlut að máli, að sölugjöld falli hér eftir undir þessa heimild. Þetta held ég að eigi vel heima í þessum umr., en er að vísu annað atriði en spurt var um.