08.04.1981
Neðri deild: 74. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3550 í B-deild Alþingistíðinda. (3595)

Umræður utan dagskrár

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Við umr. um tekjuskattsfrv. ríkisstj. í gærkvöld vefengdi hv. 7. þm. Reykv., Guðmundur J. Guðmundsson, að rétt væri haft eftir þegar ég sagði að hækkun kauptaxta frá 1979 til 1980 hefði numið 51%, en atvinnutekjur á mann hefðu hækkað um 53% eða svo. Bar ég Björn Björnsson hjá Kjararannsóknarnefnd fyrir þessu og hefur hann í samtali við mig í dag staðfest að það sé rétt að meðalhækkun kauptaxta milli áranna 1979 og 1980 nemi 51%. Á hinn bóginn vildi hann ekki meta hversu mikil hækkun atvinnuteknanna hefði verið í reynd. Er það rétt, að varðandi það atriði var misskilningur okkar á milli. Bið ég hann afsökunar á því. Á hinn bóginn liggur fyrir að hækkun kauptaxta frá árinu 1979 til 1980 hefur verið þessi eða þar um bil: Hjá verkamönnum 52%, iðnaðarmönnum 52.2% og verslunarmönnum 52.3%, um 41.5% hjá verkakonum og 48.4% hjá opinberum starfsmönnum. Búast má við að atvinnutekjur á mann hafi hækkað verulega miklu meira hjá sjómönnum frá árinu 1979 til ársins 1980 og kemur þar hvort tveggja til, að farmannaverkfall var á árinu 1979 mjög langt og í annan stað voru aflabrögð mun meiri á s. l. ári en 1979 þótt fiskverð hafi ekki fylgt hækkun kauptaxta. Það er vafalaust að fulltrúar ríkisvaldsins hafa að þessu leyti sýnt vilja sinn í verki til þess að halla á hlut sjómanna. Ef farið er aftur til ársins 1978 kemur í ljós að kauptaxti verkamanna hækkaði ekki nema um 43% milli áranna 1978 og 1979, en atvinnutekjur þeirra hækkuðu á hinn bóginn um 49% á mann. Veldur þar mestu vinnutímabreyting og að í vaxandi mæli var farið að beita launahvetjandi kerfum í atvinnurekstrinum.

Ég þarf ekki að segja hv. þm. frá því, að vitaskuld hafa sérfræðingar ríkisstj. í efnahagsmálum og hinir ýmsu hagfræðingar reynt að gera sér grein fyrir því, hversu atvinnutekjur í heild hafi hækkað frá árinu 1979 til 1980. Inni í kerfinu er nú mjög mikið talað um að þessi hækkun sé í kringum 55%. Ef það reynist rétt er vafalaust að atvinnutekjur á mann hafa ekki hækkað um minna en 53% frá 1979 til 1980 og kannske nær 54%. Ef heildaratvinnutekjur á mann eru þær sömu og hækkun kauptaxta, eða 51%, ber það vott um meiri samdrátt en viðurkenndur hefur verið og verri lífskjör á s. l. ári en opinberar skýrslur herma, en samkv. fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1981 hækkaði vísitala framfærslukostnaðar um 58.5% milli áranna 1979 og 1980.

Mönnum kann að þykja þessi talnaleikur nokkuð langur, en ástæðan er sú, að umrætt frv. ríkisstj. á að fela í sér fyrirheit um að við það verði staðið að skattar verði lækkaðir sem svarar 1.5% í kaupmætti. Með því að ýmsar tölur í þessu skattafrv. eru miðaðar við skattgjaldsvísitölu 145 og með því að ríkisstj. fæst ekki til að leggja að öðru leyti til grundvallar hærri meðaltalshækkun launatekna en 51% liggur fyrir að verið er að fara á bak við launamenn í landinu og gera þeim að greiða hærri skatta en opinberlega er viðurkennt. Aðeins skekkjan milli 51 og 53% þýðir um 2 milljarða gkr. í auknar tekjur fyrir ríkissjóð, sem þá um leið eru teknar frá launþegum í landinu.

Ég þykist geta sýnt fram á að af þeim 9 milljörðum gkr., sem ríkisstj. þykist vilja rétta launþegum, hefur hún með talnaleik tekið rúma 5 milljarða gkr, aftur. Það er töluvert fé. Það er út af fyrir sig að menn eins og hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, formaður Verkamannasambands Íslands, reyni að bera blak af ríkisstj. og hjálpa henni í skattaáþjáninni, bæði á s. l. ári og á þessu ári líka. En hitt er varla verjandi fyrir mann í hans stöðu að reyna að halda uppi blekkingum um það, hversu miklar hækkanir urðu á taxtakaupi verkamanna á s. l. ári og atvinnutekjum þeirra. Sú tala getur undir engum kringumstæðum legið undir tölunni 53. Ef hann hefur uppi aðrar tölur í því sambandi talar hann gegn betri vitund eða þá af fákunnáttu.

Ég þekki engan þann mann, sem hefur reynt að gera sér grein fyrir skattalagabreytingunum í heild, sem heldur því fram, að í þeim felist meiri eftirgjöf en sem svarar 0.5%. Ég er raunar þeirrar skoðunar sjálfur, að miðað við þjóðhagsáætlun ríkisstj. sé þessi tala enn lægri. Það gefur auga leið, að í 60% verðbólgu er kjarabót á bilinu 0–0.5% ekki merkjanleg. Þetta skattafrv. felur þess vegna ekki í sér neina leiðréttingu fyrir launþega. Til þess er þessi breyting allt of óveruleg og kemur of seint til skila, eða öll á síðari hluta ársins. Á hinn bóginn var kjaraskerðingin 7% umfram samninga 1. mars s. l. og veldur því m. a. að fyrirframgreiðsla skatta er tilfinnanlegri en ella. Það liggur fyrir. Því er ekki hægt að neita. Og einn þeirra manna, sem innsigluðu þá gerð, var formaður Verkamannasambands Íslands, Guðmundur J. Guðmundsson.