09.04.1981
Sameinað þing: 72. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3575 í B-deild Alþingistíðinda. (3630)

248. mál, aðstoð ríkisins við Siglósíld

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hv. þm. Lárus Jónsson hefur beint til mín nokkrum fsp. sem varða aðstoð ríkissjóðs við Lagmetisiðjuna Siglósíld.

Fyrsta spurningin er þessi: „Hve miklu nema bein framlög ríkissjóðs til Lagmetisiðjunnar Siglósíldar samkvæmt ríkisreikningi og fjárlögum frá 1973 til 1981 að báðum árum meðtöldum?“

Á árinu 1979 varð Lagmetisiðjan Siglósíld fyrir því að framleiðsla verksmiðjunnar á Rússlandsmarkað var ekki flutt þangað og eyðilagðist. Var lítið svo á að ríkið eða ríkisstofnanir hefðu tekið á sig ábyrgð af því og þá fyrst og fremst iðnrn. og heilbrigðisyfirvöld, en deilt var um hvort hyggilegt væri að senda gallaða vöru á Rússlandsmarkað. Talið var að afskipti stjórnvalda af þessum útflutningi hefðu verið þess eðlis að ekki kæmi til greina annað en að ríkið bæri alfarið ábyrgð á þessu tjóni sem var upp á 96 millj. kr. Fjárveiting vegna þessa tjóns var í fjárlögum 1980 þó að greiðslan kæmi raunverulega á árinu 1979.

Á s. l. sumri, þegar skipt var um stjórn í fyrirtækinu og ráðinn nýr framkvæmdastjóri, kom í ljós að verulegur taprekstur hafði orðið hjá verksmiðjunni á fyrri hluta s. l. árs. Var hann talinn nema tæpum 200 millj. kr. Ákvörðun var þá tekin um að stöðva þennan rekstur og endurskipuleggja framleiðslu verksmiðjunnar og gera ráð fyrir að teknar yrðu upp nýjar framleiðsluaðferðir og framleiðsla úr öðrum tegundum sjávarafurða að nokkru leyti en verið hafði. Það lá ljóst fyrir samkvæmt áliti fróðustu manna, að ríkissjóður bæri fulla ábyrgð á þessu mati og aðeins væri um tvennt að ræða: að loka verksmiðjunni — og ríkissjóður hefði þá orðið að greiða þetta tap — ellegar þá að gera verksmiðjunni kleift að halda starfseminni áfram á nýjum grundvelli. Aukafjárveitingarbeiðni barst frá iðnrn. til að leysa málið með þessu síðara mót og hún var samþykkt á s. l. hausti og nam 150 millj. kr.

Þessi verksmiðja hefur staðið allvel að vígi flest árin og taprekstur af þessu tagi hefur ekki áður verið — í svo ríkum mæli a. m. k. Sum árin hafa komið vel út, en önnur illa, eins og gengur, en í heildina tekið hefur þessi rekstur gengið allsæmilega þangað til á seinasta ári.

Á fjárlögum ársins 1973 var 5 millj. kr. fjárveiting til verksmiðjunnar, 1974 aftur 5 millj., 1975 aftur 5 millj., og samkvæmt ríkisreikningi var sama upphæð greidd til verksmiðjunnar. Aftur á móti var ekki nein fjárveiting til verksmiðjunar á fjárlögum á árunum 1976, 1977, 1978 og 1979. Hins vegar hefur verksmiðjunni verið greitt beint framlag á árinu 1976 að upphæð 10 millj. kr., sem er þá aukafjárveiting á því ári og skýrist væntanlega af taprekstri á því ári ellegar fjárfestingum. Ég hef ekki haft aðstöðu til að kanna hvernig því var háttað á sínum tíma.

Að öðru leyti vil ég svara þessum lið fsp. á þann hátt, að í fjárlögum 1981 er framlag úr ríkissjóði áætlað 100 millj. kr. og er það vegna fjárfestingarframkvæmda.

Í öðrum lið fsp. er spurt: „Hve miklu nema ábyrgðir ríkissjóðs að auki vegna lána sem tekin hafa verið af fyrirtækinu eða ríkissjóði?“

Svar: Ríkisábyrgð á láni vegna vélakaupa í Þýskalandi, útgefin 24. 5. 1974 til þriggja ára, þýsk mörk 87 þús. Lánveitandi Landsbanki Íslands. Lánveiting af endurlánum ríkissjóðs 1980 50 millj. gkr.

Þriðja spurning: „Hver er lagaheimild fyrir „aukafjárveitingu“ úr ríkissjóði til fyrirtækisins á s. l. ári að upphæð 150 millj. gkr.?“

Til svars við þessari spurningu skal vakin athygli á því, að lagaheimild til þessarar aukafjárveitingar úr ríkissjóði er nákvæmlega sú sama og endranær þegar fjmrh. ákveður fjárveitingu úr ríkissjóði sem ekki er gert ráð fyrir í reglulegum fjárlögum yfirstandandi fjárlagaárs. Í 42. gr. stjórnarskrárinnar er gert ráð fyrir að heimilt sé að leggja frv. til fjáraukalaga fyrir Alþingi. Til nánari skýringar vil ég leyfa mér að vísa til rits prófessors Ólafs Jóhannessonar, Stjórnskipun Íslands, útgefins 1978 af Gunnari G. Schram prófessor. Á bls. 313 segir um þetta efni m. a. með leyfi forseta:

„Fjáraukalög eru jafnan samþykkt eftir á, og eru teknar upp í þau þær fjárveitingar sem stjórnin hefur innt af hendi á liðnu fjárhagstímabili umfram fjárlagaheimild eða án heimildar í fjárlögum. Hefur þannig myndast sú venja, að heimild eftir á fyrir fjárveitingum væri nægileg, og oftlega eru þá af hendi inntar fjárgreiðslur umfram það sem leyft er í fjárlögum, stundum í samráði við fjvn., en einnig oft án samráðs, í því trausti að Alþingi samþykki fjárveitinguna eftir á í fjáraukalögum.“

Ég hygg að það, sem hér hefur verið rakið, feli í sér fullnægjandi svar við þeirri fsp. sem hér er til umræðu. Til viðbótar má þó bæta því við, að í reglugerð nr. 96 1979, um Stjórnarráð Íslands, sem tekin er upp í lagasafnið, er sýnilega gengið út frá tilvist þess stjórnskipulega venjuréttar sem hér hefur verið lýst. Þannig segir í 5. gr. reglugerðarinnar að fjmrn., fjárlaga- og hagsýslustofnun fari með mál er varða greiðslur úr ríkissjóði umfram fjárlagaheimildir.

Fjórði liður fsp. er: „Hvaða fordæmi eru fyrir slíkum beinum „aukafjárveitingum“ til B-hluta fyrirtækja ríkissjóðs?“

Ég hef nú þegar vakið athygli á því í svari mínu við 1. lið fsp., að einmitt þetta sama fyrirtæki hefur áður fengið aukafjárveitingu. Það var á árinu 1976, 10 millj. samkvæmt ríkisreikningi. En ef nefna á einhver dæmi eða fordæmi frá s. l. ári um framlög til stofnana í B-hluta, þá er mér ánægja að tína hér upp nokkur. Sóttvarnarstöð Hríseyjar 8 millj., Byggingarsjóður hafrannsóknaskips 87.4 millj., Skipaútgerð ríkisins 150 millj., landshafnir 97.3 millj., Flugmálastjórn — sem þá var í B-hluta — 120 millj., Orkusjóður 622 millj. Þannig mætti nefna býsna mörg önnur dæmi, en ég læt þessi nægja. — Ég vænti þess, að fsp. sé nægilega svarað.