09.04.1981
Sameinað þing: 72. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3578 í B-deild Alþingistíðinda. (3633)

248. mál, aðstoð ríkisins við Siglósíld

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég efast ekkert um að starfsmenn fjárlaga- og hagsýslustofnunar hafi gefið þær upplýsingar á sínum tíma að ekki hafi verið um að ræða greiðslu úr ríkissjóði vegna þessa fyrirtækis á árinu 1976. En það svar, sem ég gaf áðan, er undirbúið af fjárlaga- og hagsýslustofnun. Þá hefur komið í ljós að fyrri upplýsingar hafa ekki verið nákvæmar. Samkvæmt ríkisreikningi 1976 kemur þetta á daginn. Ég sé því ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um það.

Um málið að öðru leyti finnst mér ekki við hæfi að þm. ýki það stórlega hversu mikil framlög hafa verið á undanförnum árum til þessarar verksmiðju. Upphæðirnar eru, eins og ég hef hér getið, 150 millj. á seinasta ári og svo væntanlega 100 millj. á þessu ári. Hvort tveggja á að gera verksmiðjunni kleift að komast á nýjan rekstrargrundvöll. En síðan bætast við 96 millj. sem eru allt annars eðlis. Ríkissjóður hefði orðið að greiða þá upphæð hvaða fyrirtæki sem var öðru. Þessi ákvörðun var ekki tekin út frá því, hvaða fyrirtæki átti í hlut, heldur var einfaldlega lítið svo á að aðrar stofnanir ríkisins hefðu borið ábyrgð á því, að þessi farmur varð að engu og ekki seldur úr landi eða nýttur á nokkurn hátt. Af þeirri ástæðu varð niðurstaðan að ríkið mundi skaðabótaskylt í þessu tilviki. Það hafði sem sagt valið þann kostinn að taka á sig þetta tjón frekar en að láta vöruna fara úr landi. En sannarlega mátti fá töluvert fé fyrir hana þótt ekki væri það fullt verð.

Ég ætla ekki hér að fara að metast við hv. þm. Lárus Jónsson, þó að mér sé hlýtt til Siglufjarðar og honum hlýtt til Akureyrar, um hvor verksmiðjan sé betri, Siglósíld eða K. Jónsson & Co. En ég vil benda honum á það, að ástæðan fyrir því, að rekstur K. Jónsson hefur gengið líklega aðeins skár en rekstur Siglósíldar nú allra seinustu ár, er tvímælalaust sú, að það hefur verið framkvæmt meira hagræðingarátak hjá fyrirtækinu á Akureyri heldur en hjá ríkisfyrirtækinu. Ríkisfyrirtækið hefur ekki breytt neinu hjá sér um nokkurt skeið og það er ljóst að munurinn í rekstri þessara fyrirtækja er nokkur vegna betri hagræðingar hjá akureyrska fyrirtækinu.

Það, sem nú er verið að gera, er einmitt það, að verið er að byggja þetta fyrirtæki upp með nýjum hætti, framkvæma þá hagræðingarbreytingu hjá fyrirtækinu sem gerir því kleift að standa hallalaust undir rekstrinum. Og það ætla ég að vona að muni nú takast. Mér finnst engin rök fyrir því, þó að ríkið sé eigandi fyrirtækis, að þá megi fyrirtækið ekki fá nein framlög frá eiganda sínum til þess að gera þær endurbætur á rekstri sem nauðsynlegar eru. Auðvitað verða eigendur í öllum tilvikum að gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til þess að fyrirtæki séu rekin með skaplegum hætti, og það breytir engu þó að ríkið eigi þar í hlut. Það verður auðvitað líka að hafa þá ábyrgðartilfinningu til að bera gagnvart þeim rekstri, sem það hefur, sem öðrum eigendum er ætlað að hafa. Þess vegna var talið óhjákvæmilegt að stöðva þann hallarekstur, sem þarna var í gangi, með sérstakri fjárveitingu frá eiganda fyrirtækisins.

Ég tel að það séu nokkur dæmi þess, að ríkið hafi veitt slíkan stuðning, og gæti vafalaust tínt fram ýmis dæmi úr fjárlögum og ríkisreikningi seinustu ára. Einnig mætti benda á það, að ríkið hefur talið óhjákvæmilegt að styðja við alveg sambærilegan rekstur í Hafnarfirði, að vísu með öðrum hætti, með hlutafjárframlögum sem hafa komið bæði úr ríkissjóði og frá Framkvæmdastofnun ríkisins. Þar er ekki um neinar smáupphæðir að ræða og líklega — ef þær væru færðar upp til núgildandi verðlags — miklu, miklu meiri fjárhæðir. Fleiri dæmi mætti nefna af þessu tagi.

Hv. þm. Friðrik Sophusson bar fram nokkrar fsp. til mín um rekstur þessa fyrirtækis, um kaup á dósagerðarvél og um möguleika á Rússlandsmarkaði við ríkjandi verðlag á útflutningi frá verksmiðjunni. Ég verð að játa að ég hef ekki þær tölur í höndunum sem ég þyrfti að hafa til að svara þessum spurningum, enda vill nú einnig svo til að ég gegni ekki embætti iðnrh., en spurningarnar heyra víst honum til. Hins vegar þekki ég málið sæmilega vel sem þm. kjördæmisins vegna afgreiðslu þess í sumar og veit að það er verið að kaupa nú dósagerðarvél til verksmiðjunnar. Það er liður í þeirri hagræðingargerð sem áætlanir voru gerðar um á s. l. hausti. Ég skal ekkert um það segja, hvort það telst mikil hagræðingarstarfsemi, þó að til sé dósagerðarvél í Reykjavík, eða á Akureyri, að hafa hana til afnota fyrir verksmiðju á Siglufirði. Mér býður í grun að það sé eitthvað annað sem geti talist hagræðing í þessu sambandi. Og raunar er það svo að verksmiðjan hefur orðið fyrir tjóni á undanförnum mánuðum vegna viðskipta sinna við Dósagerðina í Reykjavík sem hefur sannanlega afhent gallaða vöru og ekki fengist til að gera þar leiðréttingu á. Verksmiðjan hefur þar orðið fyrir talsverðu tjóni.

Ég veit að framleiðsla þessarar vörutegundar stendur ákaflega tæpt um þessar mundir. Verðið, sem við fáum fyrir vöruna á Rússlandsmarkaði, er alls ekki nógu hátt og mjög tæpt að þessi rekstur geti staðið undir sér. Menn hafa þó verið þeirrar skoðunar, að ekki væri rétt að fórna endanlega þessum markaði í Sovétríkjunum, í þeirri von að hægt væri að framkvæma það hagræðingarátak í þessum verksmiðjum sem gerði kleift að gera reksturinn arðbæran. Sú von er ekki úti og auðvitað er alltaf von um að knýja kaupendur til að hækka verðið. En ég vil upplýsa það hér, að þessi verksmiðja, sem hefur einhliða framleitt niðurlagða síld á Rússlandsmarkað, er nú um þessar mundir að fara yfir í aðrar framleiðslugreinar, m. a. framleiðslu á niðursoðinni rækju, enda hefur verið niðursuðuaðstaða í þessari verksmiðju um langt árabil án þess að hún hafi nokkurn tíma verið nýtt. Og ég held að það hljóti að teljast skynsamleg ráðstöfun að reyna að koma rekstri þessarar verksmiðju á betri grundvöll en verið hefur, jafnvel þó að það kosti einhver fjárframlög úr ríkissjóði.