09.04.1981
Neðri deild: 76. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3595 í B-deild Alþingistíðinda. (3659)

298. mál, úrskurðaraðili í deilu um starfsaldurslista flugmanna

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Með skírskotun til þeirrar grg., sem hv. 1. þm. Reykv. flutti hér við 1. umr. þessa máls, hef ég ekki orðið sammála öðrum nm. um afgreiðslu málsins. Ég þarf ekki að taka fram um það frekar hvað liggur þar til grundvallar. Það hefur komið skýrt fram í þeirri grg. sem formaður Sjálfstfl. flutti hér. En ég hef, eins og fram kom í hans máli, einnig flutt nokkrar brtt. á þskj. 633 við þetta frv. Þær brtt. flyt ég af tvennu tilefni sérstaklega: Í fyrsta lagi vegna þess að mér þykir eðlilegt að hlutirnir séu nefndir réttum nöfnum. Hér er um að ræða gerðardóm sem settur er á stofn. Ég tel því einsætt að það komi fram í frv. sjálfu.

Í öðru lagi er mér það mjög ríkt í huga, hvenær sem ég fjalla um frv. til l., að þau séu á venjulegu og eðlilegu íslensku máli og að Alþingi þurfi ekki að fyrirverða sig fyrir hvernig það býr málin úr garði.

Ég verð að segja það, að það orð, sem hér er notað í staðinn fyrir gerðardómur, er að mínu mati óskapnaður í íslensku máli og liggur líklega einna næst því, ef á að afsaka tilkomu þess, að það heiti stofnanaíslenska — sem ekki hefur þótt vera til fyrirmyndar.

till., sem ég flyt hér, er sem sagt eingöngu um nafnbreytingu, að úrskurðaraðili sé nefndur gerðardómur og einnig að fyrirsögn frv. sé breytt til eðlilegra máls en er á frv. sjálfu, eins og brtt. ber með sér.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta efni fleiri orð. Ég tel að þær brtt., sem ég hef flutt hér, séu eðlilegar og réttmætar. Þess vegna vil ég mæla með því, að þær verði samþykktar. Um afgreiðslu málsins að öðru leyti vísa ég til þeirrar grg. sem hér hefur verið flutt af hendi okkar sjálfstæðismanna.