10.04.1981
Efri deild: 80. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3604 í B-deild Alþingistíðinda. (3686)

133. mál, heilbrigðisþjónusta

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Heilbr.- og trn. hefur fjallað um frv. til l. um breyt. á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 57/1978. Nefndin leggur til að þetta frv. verði samþykkt með þeirri breytingu að 2. gr. frv. falli brott.

Ég held að rétt væri, til þess að fara örfáum orðum yfir sögu þessa máls, að ég lesi — með leyfi forseta — a. m. k. hluta úr þeirri grg. sem fylgir þessu frv. Fyrst vil ég þó geta þess, að 1. gr. frv., sú grein sem við nm. samþykktum að fleyta áfram hér í þinginu, kveður á um það, að heimilt skuli vera að ráða aðstoðarlækni hluta úr ári við heilsugæslustöð H l.

„Þegar lögin um heilbrigðisþjónustu voru sett 1973 hafði ástandið í læknamálum landsbyggðarinnar verið með öllu óviðunandi. Ekki síst var það tilgangur nýrrar löggjafar að bæta hér verulega úr. Í kjölfar löggjafarinnar og mikilla framkvæmda í heilsugæslumálum úti á landi hefur mikil breyting orðið á til batnaðar og þróunin stefnir í rétta átt, til alhliða bættrar þjónustu á sviði heilsugæslu um land allt. Enn ber þó á nokkurn skugga. Erfiðlega hefur gengið að fá lækna að H 1 stöðvunum, þeim heilsugæslustöðvum þar sem aðeins skal starfa einn læknir. Hér er um stöðvar að ræða sem velflestar þjóna þeim svæðum sem afskekktust eru eða verst í sveit sett hvað snertir samgöngur, miklar fjarlægðir eða nálægð við sjúkrahús. Þörfin á góðri og öruggri heilsugæslu er því hvergi brýnni né meir knýjandi og því má einskis láta 6freistað til að unnt sé að fá lækna þar til starfa og til sem lengst tíma. Ýmsar tillögur hafa verið uppi um úrbætur ef takast mætti að laða menn fremur til starfa á þessum stöðvum.

Landlæknir hefur að vonum látið þessi mál mjög til sín taka, enda brennur vandinn hvað heitast á honum, og m. a. reifaði hann á s. 1. vetri ýmsar hugmyndir sínar til úrbóta í þessu efni við heilbrigðis- og trygginganefndir þingsins. Þeim er nú að miklu leyti komið hér í frumvarpsform því að full ástæða er til nánari umfjöllunar viðkomandi nefnda og þingsins í heild um þetta málefni. Þessar hugmyndir hafa m. a. komið fram hjá læknum sem á H 1 stöðvum hafa starfað og þá alveg sérstaklega hugmynd númer 1 í 1. gr. frv., sem er um leið meginatriði hugmyndanna og örugglega sú virkasta.“

Ég held að ég fari rétt með það álit nefndarinnar, að hún telji samþykkt 1. gr. þá virkustu aðferð, en jafnframt þá minnstu breytingu sem við getum komist af með til að færa þessa hluti í það horf sem við öll hljótum að æskja eftir.

Vilji landlæknis í þessu efni hefur nú þegar komið fram. Ég tel rétt og skylt að lesa hér upp bréf eða umsögn frá heilbr.- og trmrn., sem undirritað er af Páli Sigurðssyni ráðuneytisstjóra, um þessi efni, með leyfi forseta:

„Í þessu frv. eru tvær breytingar: Í fyrsta lagi um heimild til að ráða aðstoðarlækni á H 1 stöð og í öðru lagi að læknar, sem unnið hafa á heilsugæslustöð H 1 í þrjú ár, eigi rétt á að njóta eins árs leyfis á fullum launum til framhaldsnáms hér á landi eða erlendis, enda fylgi því skuldbinding um áframhaldandi þjónustu í minnst þrjú ár við heilsugæslustöð H 1.“

Þetta atriði víkur að 2. gr. sem við treystumst ekki til þess að leggja til samþykkt á. Svo les ég áfram: „Hvað því viðvíkur að setja inn í lögin um heilbrigðisþjónustu heimild til að ráða aðstoðarlækni að heilsugæslustöðvum, þá tel ég“ — og þetta bréf er undirritað af Páli Sigurðssyni — „að það sé ekki í samræmi við stefnu laganna því að hvergi er gert ráð fyrir aðstoðarlæknum í heilsugæslunni. Ef sú stefna verður ofan á að fjölga læknum á H 1 stöðvum, þá tel ég að eðlilegra væri að setja inn í lögin heimild til þess að ráða tvo lækna um lengri eða skemmri tíma að H 1 stöðvum, eftir nánari ákvörðun ráðh, og að því tilskildu að stöðuheimildir séu fyrir hendi.“

Ég vildi aðeins víkja nokkrum orðum að þessu. Að okkar dómi í heilbr.- og trn. teljum við með þessum ummælum raunar ýjað að því, að lengra skuli gengið en í þeirri till. sem frv. felur í sér og nefndin er sammála um að leggja til samþykkt á. Við viljum sem sagt fara með meiri varfærni í breytingar heldur en forsvarsmenn heilbr.- og trmrn. láta í veðri vaka samkv. þeim orðum sem hér standa. En ég held þá áfram með lestur bréfsins:

„Hvað því viðvíkur að umbuna læknum á H 1 stöð fyrir störf þar, þá er tillaga um eins árs leyfi eftir þriggja ára starf í samræmi við það sem fram kom í nefnd þeirri er endurskoðaði lögin á árinu 1978, en ekki varð samkomulag í þeirri nefnd um að taka þá tillögu upp til Alþingis. Ég tel mjög til bóta, ef réttur til framhaldsnáms kemur inn til heilsugæslulækna, og tel þá eðlilegra að heilsugæslulæknir fái t. d. hálfs árs leyfi á þriggja ára fresti. Nauðsynlegt er að tekin séu inn glögg ákvæði um hvernig þessi réttur skapast, t. d. hvort hann verður til um leið og lögin eru sett gagnvart þeim læknum sem þá yrðu í starfi, svo og um fyrningu þessa réttar ef menn ekki nota hann strax og þeir hafa rétt á því.“

Eins og fram kemur í niðurlagi bréfsins eru hér ýmis atriði sem mundu verða allflókin í útfærslu, ef ég mætti svo að orði komast, en ekki síður það, að ýmsir nákunnugir innan læknastéttar telja að um of langa starfsbindingu yrði að ræða miðað við ákvæði 2. gr. frv. þannig að sú grein þjónaði alls ekki þeim tilgangi sem flm. hefðu vænst.

Herra forseti. Eins og öllum er ljóst hafa verið ör mannaskipti við H 1 stöðvarnar á undanförnum árum, en jafnframt hefur víða gengið erfiðlega að fá lækna til starfa. Oftast er því borið við, að um of mikið starfsálag og bindingu sé að ræða árið um kring. Það er skoðun nefndarinnar að sú ráðagerð, sem frv. felur í sér, þ. e. heimild til að ráða aðstoðarlækni hluta úr ári, geti að einhverju leyti bætt þarna úr.

Ekki þótti rétt að ákveða í lögum um ráðningartíma nánar en segir í 1. gr. frv.: „að ráða aðstoðarlækni hluta úr ári“. Hins vegar kom sú skoðun fram, að eðlilegt væri að miða við t. d. þrjá mánuði ár hvert. Ef þessi heimild verður nýtt hefur þessi ráðagerð óneitanlega einhvern kostnað í för með sér, en til marks um a. m. k. drjúgan hluta þess kostnaðar, ef heimild til þess að ráða aðstoðarlækna yrði notuð að meðaltali í þrjá mánuði á ári hverju, er rétt að geta þess, að föst mánaðarlaun aðstoðarlækna eru 7600 nýkr. og H 1 stöðvar eru um 15 talsins. Launakostnaður samkv. þessum forsendum yrði þá 342 þús. nýkr.

Ég tel ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta mál. Eins og margsinnis hefur komið fram í mínum orðum leggur nefndin eindregið til að þetta frv. verði samþykkt.