10.04.1981
Efri deild: 80. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3616 í B-deild Alþingistíðinda. (3695)

296. mál, umhverfismál

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Eins og tekið var fram hér af hv. 1. flm. og frsm. þessa máls var þetta frv. flutt vorið 1978 sem stjfrv. af hæstv. þáv. ríkisstj. Var það frv. flutt af þáv. hæstv. félmrh., en hafði verið undirbúið af nefnd sem sett var á vegum þáv. ríkisstj., og ég hygg að sú nefnd hafi starfað á vegum hæstv. þáv. forsrh. Það var síðan ákveðið í ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar að þetta mál yrði flutt af félmrh. og jafnframt var í raun og veru tekin ákvörðun um það þá að stefna að því að miða við að þessi mál tengdust félagsmálum framvegis. Ég held að það sé mikilvægt að þetta atriði komi hér inn, og ég er raunar þeirrar skoðunar, að það sé mjög eðlilegt að þau mál, sem hér eru á ferðinni, tengist hinni almennu félagsmálastjórn eða því stjórnvaldi sem með þau mál fer.

Í frv. er gert ráð fyrir að ýmsir þættir umhverfismála falli undir þá ráðuneytisdeild sem hér er um að ræða. Eins og hv. þm. gat um eru það í heilu lagi náttúrverndarlögin. Síðan eru það mengunarvarnir, þ. e. lögin um eiturefni og hættuleg efni, og það eru fleiri lög, og enn fremur að skipulagsmálin í heild féllu undir þennan þátt. Og fleira er hér tínt til, eins og dýraverndunarmál, framkvæmd alþjóðasamninga um mengunarmál og þess háttar. Ég held að hér væri um að ræða mjög góðan vísi að ráðuneytisdeild í umhverfismálum, sem fengi alla þessa þætti, og það ætti að miða við að það verði a. m. k. ekki færri þættir, sem undir þetta falla, en gert er ráð fyrir í þessu gamla stjfrv. sem hér hefur nú verið endurvakið.

Síðan það frv. var flutt hefur auðvitað ýmislegt gerst í okkar löggjöf sem væri nauðsynlegt að taka tillit til í þessu frv. Ég nefni aðeins tvennt sem kemur mér til hugar á þessari stundu. Það eru annars vegar lögin um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Mér fyndist að það gæti út af fyrir sig verið eðlilegt að þau væru undir þessari hugsanlegu ráðuneytisdeild. Hér í hm. Nd. er til meðferðar allviðamikið frv. um hollustuhætti og hollustueftirlit og þar er m. a. gert ráð fyrir alveg nýjum lagaákvæðum vegna mengunarvarna. Eins og kunnugt er hafa ákvæði og reglugerðir um mengunarvarnir hér byggst á lögunum um eiturefni og hættuleg efni. Það hefur ekki verið hér í gildi nein löggjöf sem tæki á mengunarmálum alveg sérstaklega, en í þessu frv. til laga um hollustuhætti og hollustuvernd, sem er til meðferðar í hv. Nd., er það gert með býsna skýlausum hætti og til þess þyrfti að taka tillit við frekari vinnu að þessu frv.

Frv. tekur ekki á því og bendir ekki á það heldur í grg., hvaða atriði það eru sem þyrftu í raun og veru að koma inn í slíka umhverfis- og auðlindastýringu í landinu ef vel ætti að vera. Ég vil í þessu sambandi nefna t, d. ýmsar stofnanir sem ég tel að sé óhjákvæmilegt að tengist umhverfismálastjórn. Ég get nefnt stofnun eins og t. d. Landmælingar ríkisins. Ef á að fást heildarstýring, eins og gert er ráð fyrir hér í þessu frv., þyrfti slík stofnun að vera í mjög góðum tengslum við umhverfismáladeild ráðuneytis. Einnig verð ég að segja — það er mín skoðun og til þess hefur ríkisstj. út af fyrir sig enga afstöðu tekið til eða frá — að mál eins og þetta þyrfti með einhverjum hætti að tengjast áætlunum um landvernd og landnýtingu.

Hér er, eins og menn vita, í athugun áætlun um landvernd til nokkurra ára í framhaldi af þjóðargjöfinni frá 1974. Ég held að til þess að átak eins og það, sem ákveðið var á Þingvöllum 1974, komi að sem allra bestum notum þyrfti að vinna slíkt í tengslum við heildarstýringu umhverfismála í landinu. Mér er sagt, ég er enginn sérfræðingur á því sviði, að í sumum tilvikum hefði mátt fara betur með þau efni sem þar voru ákveðin.

Ég held sem sagt að það sé alveg óhjákvæmilegt að reynt verði að taka á þessum málum í meira samhengi en gert hefur verið, eins og mögulegt er, og vil koma því sérstaklega á framfæri í sambandi við þennan frumvarpsflutning hér. Ég minni á það í þessu sambandi, að náttúruverndarþing hefur hvað eftir annað tekið á þessum málum og gert ályktanir um þau, þar sem m. a. er lögð á það áhersla að hér þurfi að vera um að ræða samhengi í stýringu umhverfismála og landnýtingar eins og frekast er kostur.

Í stjórnarsáttmála núv. ríkisstj. er ákvæði um að það skuli undirbúið, að stjórn umhverfismála verði í einu ráðuneyti, og að flutt verði frv. til l. um það. Af þeim ástæðum er það ætlun ríkisstj. að þetta frv., sem hér liggur fyrir, svo og löggjöf sem síðar hefur orðið til á þessum sviðum, og ábendingar náttúruverndarþinga frá 1978, — að þessir þættir verði teknir til sérstakrar athugunar með það fyrir augum að endurflytja frv. til l. um umhverfismál á vegum ríkisstj. Þessi vinna er mjög skammt á veg komin svo að ljóst er að af hálfu ríkisstj. getur ekki verið um það að ræða að flutt verði stjfrv. um þessi efni á yfirstandandi þingi. En ég vildi láta það koma fram, að það er ætlun ríkisstj. að á þessum málum verði tekið á hennar vegum.

Ég hef ekkert við það að athuga, nema síður sé, að hv. alþm. flytji hér gömul og ný stjfrv. eftir atvikum og láti þannig í ljós viðhorf sín. Ég lít þannig til, að þessi frv. flutningur þm. Sjálfstfl. í hv. Ed. sé til marks um það, að Sjálfstfl. vilji standa að lagasetningu um þau efni sem hér er gert ráð fyrir. Og í þeim efnum geta menn ekki látið sér nægja að segja a, þeir verða líka að segja b, þeir verða líka að átta sig á því, að raunverulegri framkvæmd á umhverfismálastýringu hér í landinu fylgja fjárútlát í stjórnkerfinu, og það er gert ráð fyrir því í þessu frv. eins og það liggur hér fyrir. Ég fagna því, að sá vilji, skilningur og áhugi skuli koma fram sem hv. þm. Salome Þorkelsdóttir gerði grein fyrir áðan, og vænti þess, að það sé til marks um að unnt verði að ná tiltölulega góðri samstöðu um þessi mál þegar þau kæmu til kasta Alþingis, þó að þau yrðu ekki endanlega til afgreiðslu fyrr en kannske á næsta þingi.