10.04.1981
Neðri deild: 78. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3621 í B-deild Alþingistíðinda. (3709)

281. mál, lífeyrissjóður sjómanna

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyt. á lögum um lífeyrissjóð sjómanna. Frv. þetta er borið fram vegna yfirlýsingar ríkisstj. í tengslum við kjarasamninga sjómanna í febrúarmánuði s. l. Ef þessi breyting, sem hér er gerð till. um, verður að lögum er komin samræmd regla í almannatryggingalög og lög um lífeyrissjóð sjómanna sem opnar sjómönnum rétt til töku ellilífeyris við 60 ára aldur eftir 25 ára starf á sjó og 180 lögskráða daga að meðaltali á ári í 25 ár.

Þessi megintilgangur lagabreytingarinnar kemur fram í 4. gr. frv., en þar er lagt til að heimildarákvæði 3. og 4. mgr. 12. gr. laganna verði breytt þannig, að nú sé sjóðfélaga heimilt eftir 25 ára starf að taka ellilífeyri við 60 ára aldur hafi hann verið lögskráður á íslenskt skip eigi skemur en 180 daga að meðaltali í 25 ár. Og eins og áður segir hefur verið gerð breyting til samræmis á almannatryggingalögunum sem gengur í sömu átt.

Aðrar breytingar, sem fólgnar eru í þessu frv., eru þær, að lífeyrissjóður sjómanna er opnaður öllum sjómönnum sem ráðnir eru á íslensk skip, 12 rúmlestir og stærri. Þar með eru taldir þeir sjómenn sem eru ekki lögskráðir, en vinna tímavinnu í þágu útgerðar. Í stað gildandi ákvæða um það, hverjir af sjómönnum geti verið sjóðfélagar, tryggir 2. gr. nú öllum sjómönnum, sem ráðnir eru á íslensk skip, 12 rúmlestir og stærri, við hvers konar störf í þágu útgerðar, aðild að lífeyrissjóði sjómanna.

Í frv. er einnig gert ráð fyrir breytingu á 10. gr. laganna. Hér er sem sagt gert ráð fyrir því, að iðgjöld sjóðfélaga á fiskiskipum öðrum en skuttogurum, 500 rúmlestir og stærri, skuli reiknast af launum, eftir því sem kveðið er á um hverju sinni í kjarasamningum hlutaðeigandi stéttarfélaga. Er þessi breyting í samræmi við það samkomulag sem varð með aðilum vinnumarkaðarins í kjarasamningunum fyrir skemmstu.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði máli þessu vísað til fjh.- og viðskn.