13.04.1981
Neðri deild: 80. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3692 í B-deild Alþingistíðinda. (3783)

217. mál, lánsfjárlög 1981

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég vil segja hér fáein orð út af þeirri brtt. sem hv. 2. þm. Suðurl., Steinþór Gestsson, mælti fyrir áðan á þskj. 656.

Þegar ofviðrið gekk yfir fyrir nokkrum vikum óskaði ég eftir því við Samband ísl. sveitarfélaga, að safnað yrði skýrslum um tjón sem orðið hefði í sveitarfélögum í landinu og það gerðist með þeim hætti, að það yrðu kvaddir til svokallaðir dómkvaddir matsmenn til að meta tjónið á hverjum stað. Var við það miðað að niðurstöður lægju fyrir í lok síðasta mánaðar eða 31. mars. Þegar kom að þeirri dagsetningu var ljóst að þó nokkur sveitarfélög áttu eftir að skila inn skýrslum, m. a. flestöll sveitarfélög hér á þéttbýlissvæðinu þar sem mjög verulegt tjón varð. Þess vegna var ákveðið í samráði við félmrn, og Samband ísl. sveitarfélaga að setja nýjan frest og síðasta, sem er 15. apríl. Nú eru skýrslur óðum að berast inn og eru í raun komnar skýrslur yfir tjón sem varð á nær öllu landinu, þ. e. fyrir utan Reykjavík og höfuðborgarsvæðið, með örfáum öðrum undantekningum hér og þar í landinu. Í grófum dráttum liggur því fyrir hvert tjónið varð utan höfuðborgarsvæðisins. Hins vegar vantar enn þá upplýsingar um höfuðborgarsvæðið. Þar varð tjón verulegt, eins og kunnugt er, og mjög erfitt að ætla á um það á þessu stigi, hversu mikið tjónið er í heild.

Það hefur verið ætlun ríkisstj. alveg frá því þetta tjón gekk yfir að á þessu máli yrði tekið sérstaklega með því að afla Bjargráðasjóði fjár. Við umr., sem fóru fram um þetta mál í þinginu í sömu viku og tjónið gekk yfir, kom mjög skýrt fram hjá mér að ríkisstj. mundi beita sér fyrir því að afla Bjargráðasjóði fjár í þessu skyni, en það væri ekki hægt að festa þá tölu fyrr en skýrslur hefðu borist. Ég geri ráð fyrir að í framhaldi af niðurstöðum, sem liggja fyrir í kringum 15. þ. m., verði unnt að taka ákvörðun um þetta mál í ríkisstj. áður en páskahléi lýkur með það fyrir augum að flutt verði hér sérstakt frv. um lánsfjárheimild vegna Bjargráðasjóðs eftir að páskaleyfinu lýkur og þá liggi betur fyrir hver upphæðin verður sem þarf að verja í þessu skyni.

Þegar umr. fóru fram um þetta mál á þinginu á sínum tíma lýstu hv. þm. Alþfl. því yfir, að þeir væru reiðubúnir til samvinnu við ríkisstj. um þetta mál, og einnig lýsti því yfir hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson og ég skildi það svo að þm. væru allir reiðubúnir til þess að taka á í sameiningu, enda er það reglan þegar svona vandamát ber upp á að menn eru tilbúnir til slíks. Ég held þess vegna að till. eins og þessi sé, í hreinskilni sagt, ekki tímabær. Ég held að það sé skynsamlegra að hinkra við fram yfir páskana, þegar séð verður hvert tjónið er í heild og hver fjárþörf Bjargráðasjóðs er. Ég vil leyfa mér að fara fram á það við hv. flm. að íhuga hvort hugsanlegt er í ljósi þessara yfirlýsinga, sem ég hef hér flutt, að þeir dragi till. til baka og að við tökum á málinu í sameiningu þegar þing kemur saman á ný að loknu páskahléi.