13.04.1981
Neðri deild: 80. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3698 í B-deild Alþingistíðinda. (3791)

217. mál, lánsfjárlög 1981

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það eru nokkur orð út af þeirri till. og fsp. sem kom hér fram frá hv. 6. þm. Reykv.

Á síðasta ári var fjárveiting til Erfðafjársjóðs áætluð, að mig minnir, milli 400 og 450 millj. kr. Samkv. fyrirheitum, sem gefin voru við afgreiðslu fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar á síðasta ári, var þessi fjárveiting tekin til endurskoðunar þegar fyrir lá hvaða tekjur voru af erfðafjárskatti á árinu 1980. Þeim stofnunum, sem áætluðu tekjur af erfðafjárskatti, fjmrn., Erfðafjársjóði og öðrum aðilum, bar ekki saman um hvað þetta gæti orðið mikið og þess vegna var ákveðið að gefa sérstaka yfirlýsingu um málið við afgreiðslu þess á Alþingi, þ. e. þegar fjárfestingar- og lánsfjáráætlun var afgreidd í apríl — maí í fyrravor. Í samræmi við þessa yfirlýsingu var gengið frá því núna í kringum áramótin að Erfðafjársjóður fengi á árinu vegna ársins 1980 aukafjárveitingu í kringum 110–115 millj. kr. og að endurhæfingarráð fengi hana til meðferðar. Þannig var um að ræða allmiklu hærri tölu á árinu 1980 í raun en kom fram í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun. Það mun hafa verið fyrirheit um þetta sem ég gaf endurhæfingarráði á s. l. sumri þegar ég mætti þar á fundi og ræddi um fjárhag og útgjöld endurhæfingarráðs.

Varðandi Framkvæmdasjóð öryrkja og þroskaheftra er það að segja, að á síðasta ári hafði hann 1060 millj. kr. til þeirra verkefna sem stjórn sjóðsins fjallaði um almennt, en á þessu ári er gert ráð fyrir að sjóðurinn hafi um 2010 millj. kr. En auk þessara 1060 millj. kr. á síðasta ári hafði sjóðurinn í kringum 200 millj. kr., þannig að ég hygg að sjóðurinn hafi samtals haft á síðasta ári um 1200–1300 millj. kr.

Ég tel að það hafi orðið mjög myndarleg lagfæring á fjárhag Erfðafjársjóðs og endurhæfingarráðs með þeirri aukafjárveitingu upp á 110–115 millj. sem ég gat um, og sömuleiðis sé um að ræða mjög verulega hækkun á fjármunum til Framkvæmdasjóðs öryrkja og þroskaheftra á þessu ári frá því sem var á s. l. ári. Ég tel því að það sé út af fyrir sig allvel að þessum málum staðið, enda þótt lengi megi vafalaust bæta þar um.

Ég vil segja annars út af fsp. hv. þm. að það fyrirheit, sem ég gaf, snerti fyrst og fremst endurskoðun vegna hugsanlega meiri tekna af erfðafjárskatti en áætlað hafði verið, en ég hafði ekki gefið nein fyrirheit um það gagnvart endurhæfingarráði að ekki gæti orðið um neina skerðingu á erfðafjárskatti að ræða á þessu ári, árinu 1981.

Í þessu sambandi er kannske vert að nefna það, að í tillögum, sem fulltrúar þingflokkanna allra gengu frá á s. l. ári til fjmrh. um svokallaða markaða tekjustofna, var gert ráð fyrir að Erfðafjársjóður eða erfðafjárskattur og Framkvæmdasjóður öryrkja og þroskaheftra rynnu í raun og veru saman í eitt og að þó hefði hinn sameinaði sjóður ekki meira til ráðstöfunar en gert er ráð fyrir í lögunum um aðstoð við þroskahefta að verði um Framkvæmdasjóð öryrkja og þroskaheftra. Þar var sem sagt gert ráð fyrir mjög verulegri lækkun á þessum fjármunum frá því sem áður hafði verið miðað við og er miðað við í því frv. til lánsfjárlaga sem við erum hér að fjalla um.

Ég tel þannig að í heild sé af hálfu stjórnvalda allvel að þessum málum staðið. Ég bið menn um að hafa í huga að áætlun um tekjur í Erfðafjársjóð hefur í raun og veru ekki staðist á undanförnum árum. Á árinu 1979 var um að ræða mjög mikinn fjölda uppgjöra á dánarbúum, þannig að á því ári voru tekjur Erfðafjársjóðs verulega umfram það sem nam verðbólguhækkun milli áranna 1978 og 1979. Þannig er í raun og veru ekki hægt að segja að tölurnar frá árinu 1979 sýni þann grunn sem hægt er að miða við þegar áætlaðar eru tekjur Erfðafjársjóðs.