13.04.1981
Efri deild: 82. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3703 í B-deild Alþingistíðinda. (3804)

158. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, en frv. þetta hefur verið afgreitt frá hv. Nd.

Í frv. þessu er kveðið á um að eigendur þeirra fasteigna, sem nýttar eru við verslunarrekstur eða til skrifstofuhalds, skuli á árinu 1981 greiða sérstakan eignarskatt til ríkissjóðs. Þessi skattskylda hvílir á þeim aðilum sem skattskyldir eru samkv. ákvæðum. I. kafla laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, og skattstofninn er fasteignamatsverð í árslok 1980.

Lög með þessu efni voru fyrst sett árið 1979 og voru framlengd á seinasta ári. Efni þessa frv. er það eitt að framlengja þessa lagasetningu enn um eitt ár.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál, sem er gamalkunningi hv. þm., og leyfi mér að leggja til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. fjh.- og viðskn.