14.04.1981
Sameinað þing: 75. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3740 í B-deild Alþingistíðinda. (3839)

384. mál, hjöðnun verðbólgu 1981

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Á þskj. 485 hef ég leyft mér að flytja fsp. til hæstv. forsrh. Fsp. er í fjórum liðum.

1. Hver eru áform ríkisstj. um framkvæmd ákvæðis stjórnarsáttmálans, þar sem segir: „Á árinu 1981 verði ákveðin tímasett mörk í samræmi við markmið um hjöðnun verðbólgu.“ Hver eru þessi mörk, hvert er tölulegt markmið um hjöðnun verðbólgu hverju sinni, sbr. hliðstæð mörk 1980?

2. Hver verður kaupmáttur tímakaups verkamanna samkv. áætlun Þjóðhagsstofnunar á öðrum ársfjórðungi 1981, miðað við 100 á fyrsta ársfjórðungi 1980, þegar ríkisstj. tók við völdum?

3. Hver verður kaupmáttur almenns lífeyris elli- og örorkulífeyrisþega samkv. áætlun Þjóðhagsstofnunar á öðrum ársfjórðungi 1981, miðað við 100 á fyrsta ársfjórðungi 1980, þegar ríkisstj. tók við völdum?

4. Hver verður kaupmáttur allra lífeyristekna elli- og örorkulífeyrisþega almannatrygginga, sem fá tekjutryggingu, samkv. áætlun Þjóðhagsstofnunar á öðrum ársfjórðungi 1981 miðað við: a) 100 á fyrsta ársfjórðungi 1981, b) 100 á fyrsta ársfjórðungi 1980?

Í 1. lið þessarar fsp. er vikið að stjórnarsáttmálanum, en í stjórnarsáttmálanum segir svo, með leyfi hæstv. forseta, um verðlagsmál:

„Til þess að draga úr verðbólgu verði beitt eftirgreindum ráðstöfunum í verðlagsmálum:

1. Verðhækkunum á þeim vörum og þjónustu, sem verðlagsráð fjallar um, verði sett eftirgreind efri mörk ársfjórðungslega á árinu 1980: Til 1. maí skulu mörkin vera 8%, til 1. ágúst 7% og loks til 1. nóv. 5%.

Á árinu 1981 verði ákveðin tímasett mörk í samræmi við markmið um hjöðnun verðbólgu.“

Þessi mörk fyrir árið 1981 hafa ekki séð dagsins ljós og hæstv. ráðherrar hafa talað út og suður um það, hvað megi búast við miklu verðbólguflóði á þessu ári. Sumir hafa komið verðbólgunni niður í 30% á árinu, aðrir halda því fram að það þurfi að gera feiknalegar ráðstafanir til þess að koma verðbólgunni niður í 40% yfir árið, í viðbót við þær ráðstafanir sem gerðar hafa verið.

Þjóðhagsstofnun spáir svo til nákvæmlega sömu verðhækkunum á árinu í ár og hún spáði í fyrra, eftir að ríkisstj. tók við völdum, og á þeim forsendum þá að ekkert yrði gert í verðbólgumálum. Þá spáði hún að framfærsluvísitalan hækkaði um 11–11.5% 1. maí, 9% 1. ágúst og 10% .1. nóv. Nú eru þessi mörk eftir spá Þjóðhagsstofnunar 10–11% 1. maí, 9% 1. ágúst og 11% 1. nóv. Það má heita að þarna sé nákvæmlega sama spáin, sem þýðir það að við stöndum nákvæmlega í sömu sporum að því er varðar þennan vágest þrátt fyrir niðurtalninguna og þrátt fyrir ákvæði stjórnarsáttmálans eins og við gerðum í fyrra. Ég tel því fulla ástæðu til þess að spyrja hæstv. ráðh. að hverju sé stefnt á þessu ári, hver séu þessi tímasettu mörk sem stjórnarsáttmálinn gerir ráð fyrir að verði sett á árinu 1981 í viðureigninni við verðbólguna.

Hinir þrír liðirnir skýra sig sjálfir. Kaupmáttur tímakaups hefur farið sílækkandi í tíð núv. ríkisstj., enn fremur kaupmáttur lífeyristekna. Og það vekur sérstaka athygli, að þeir bótaþegar almannatrygginga, sem fá tekjutryggingu, fengu ekki þá hækkun sem varð á framfærsluvísitölu hinn 1. mars s. l. Þeir fengu skertar bætur miðað við framfærsluvísitöluna og eru sennilega þeir aðilar í þjóðfélaginu sem verst fara út úr ráðstöfunum sem gerðar voru með brbl. ríkisstj. um áramót, alla vega að því er ríkisstj. telur sjálf, því að hún telur sig bæta þeim upp, sem skattlagðir eru, kaupmáttarskerðinguna með lækkun skatta, en þetta fólk er yfirleitt skattleysingjar og fékk ekki hækkun samkv. verðlagi á sínum bótum.