28.04.1981
Efri deild: 85. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3787 í B-deild Alþingistíðinda. (3881)

301. mál, umferðarlög

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Að vísu hefur hv. þm. Eiður Guðnason að langmestu leyti tekið af mér ómakið hvað varðar rökstuðning fyrir úrtakslausri nauðsyn þess að lögfesta notkun öryggisbelta í bifreiðum á landi hér. Ég get því stytt mál mitt að verulegu leyti, vil aðeins láta það koma fram, að nú hefur verið ákveðið að Íslendingar taki þátt í svokölluðu norrænu umferðaröryggisári árið 1983. Þetta umferðaröryggisár er nú undirbúið af samgöngumálanefnd Norðurlandaráðs, og ráðstefna til undirbúnings þessu umferðaröryggisári var haldin í Þrándheimi í Noregi nú fyrir fjórum dögum þar sem til voru kvaddir yfir 100 sérfræðingar í umferðaröryggismálum sem fluttu þarna erindi og tóku þátt í umræðum um þessi mál. Það er þegar ljóst, að eitt af þeim atriðum, sem lögð verður sérstök áhersla á á þessu umferðaröryggismálaári Norðurlanda, verður notkun bílbelta, einnig í aftursætum bifreiðanna, þ. e. öryggi barnanna í bílunum.

Ég tel að það sé alveg fráleitt að við gefum undir fótinn í þeirri löggjöf, sem hér er um fjallað, um að veittar verði undanþágur í sambandi við notkun bílbelta í framsætum. Ég sótti þessa ráðstefnu, sem ég greindi þarna frá, í Þrándheimi. Ekki heyrðist mér á sérfræðingum, sem þar tóku til máls, að þeir byggjust við því að unnt yrði að lögleiða á Norðurlöndum fyrir 1983 notkun öryggisbelta í aftursætum bifreiða. En hitt er alveg ljóst, að þessir sömu sérfræðingar — og einnig þeir forsvarsmenn sveitarfélaga sem þar tóku til máls — ætlast til að þetta umferðaröryggisár á Norðurlöndum verði notað til að undirbúa lögfestingu öryggisbeltanna einnig í aftursætum bifreiðanna.

Maður eftir mann, sem tók þar til máls af hálfu sérfræðinganna um öryggismál í umferðinni á Norðurlöndum, lagði megináherslu á það, að kappkostað yrði að tryggja öryggi barnanna í bílunum, þar sem allra hryllilegustu slysin í umferðinni á Norðurlöndum nú hafa orðið með þeim hætti, að öryggi barnanna í aftursætum bílanna hefur ekki verið tryggt með neinum hætti, þau hafa ekki verið fest í sætin.

Það kom fram í tali þeirra, sem skýrslur fluttu um árangurinn af lögleiðingu notkunar öryggisbelta í bílum á Norðurlöndum, að einnig þar höfðu komið fram hörð mótmæli gegn lögleiðingu öryggisbeltanna á þeim forsendum að verið væri að hefta frelsi einstaklingsins með þessum hætti.

Þessir sömu aðilar, sem greindu frá gagnrýninni sem fram kom á lögfestingu bílbeltanna, vöktu hver og einn einasti athygli á því, að það er ekki lengur einkamál jafnvel hinna frjálsustu manna, þeirra einstaklinga sem gera mestar kröfur til þess að njóta persónulegs frelsis, — það er ekki lengur einkamál þeirra, hvort þeir nota bílbelti eða ekki, þegar borguð eru af almannafé þau meiðsl sem verða á einstaklingunum í umferðinni. Þá á samfélagið jafnframt, sögðu þessir góðu frændur okkar og vísu menn á Norðurlöndum, kröfu á því, að gætt sé fyllsta öryggis, samfélagið á þá rétt á því, að haldnar séu þær reglur sem líklegastar eru til þess að tryggja samfélagið fyrir fjárhagstjóni vegna þessara slysa. Sá tími mun nú vera liðinn fyrir nokkru hjá frændum okkar á Norðurlöndum, að tekið sé mark á gagnrýni af þessu tagi eða menn dragi í efa það öryggi sem felst í því að nota fullkomin bílbelti í bifreiðunum.

En aðeins þetta í lokin: Ég tek undir það sem hv. þm. Eiður Guðnason sagði um nauðsyn þess að íhuga það vel, hvort ekki beri að breyta þessari lagagrein, þar sem notkun bílbeltanna er skilyrt, og gera heldur hið gagnstæða, að ýta undir það með einum eða öðrum hætti í þessari lagasetningu að menn taki nú þegar að íhuga mjög alvarlega og undirbúa það, að einnig verði bundið í lög að bílbelti verði notuð í aftursætum bílanna. Langflestir þeir bílar, sem nú eru fluttir inn, eru með útbúnaði til þess að koma við öryggisbeltum einnig í aftursætum bílanna, og þeir bílar, sem framleiddir eru á Norðurlöndum, þ. e. í Svíþjóð, og hingað eru fluttir, hafa einnig bílbelti í aftursætunum.

Aðeins til þess að hnykkja á þeim fróðleik, sem fram kom hjá hv. þm. Eiði Guðnasyni áðan um þá fjármuni sem í húfi eru — að öllu hinu slepptu sem aldrei verður bætt með peningum þegar um slys er að ræða, má geta þess, að beint tjón opinberra aðila í Noregi, fjárhagstjón vegna bílslysa árið sem leið er talið hafa numið kringum 3 milljörðum norskra kr. Árið sem leið létust 2700 manns í bílslysum á Norðurlöndum. Og beint fjárhagslegt tjón af völdum bílslysa á Norðurlöndum öllum mun hafa numið í kringum 15 milljörðum sænskra kr.

Það frv., sem hér er lagt fram um umferðarlög, hnígur að því að auka öryggi í umferðinni. En vel mætti það nú koma í ljós við athugun hér á landi, sem komið hefur í ljós við ítarlega athugun bæði í Noregi og Finnlandi, að eins og nú standa sakir í atvinnu- og efnahagsmálum þeirra landa er ekki hugsanlegt að ávaxta betur fé með öðru móti en því að leggja talsvert fé af mörkum til þess að auka öryggi í umferðinni.