28.04.1981
Neðri deild: 83. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3803 í B-deild Alþingistíðinda. (3888)

306. mál, verðlagsaðhald

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég held að það hafi verið um miðjan dag í gær eða rétt eftir að þingfundur hófst sem hæstv. forsrh. óskaði eftir fundi með forsetum Alþingis og formönnum þingflokka. Erindi hæstv. forsrh. við okkur formenn þingflokka var m. a. að kynna fyrir okkur frv. það, sem síðar var lagt fram á Alþingi og hér er til meðferðar, og óska eftir að við greiddum fyrir því, að þetta frv. gæti fengið hraða afgreiðslu í gegnum þingið. Um miðjan dag í gær heyrðum við stjórnarandstæðingar eða sáum í fyrsta skipti stafkrók af þessu frv. Ég kom ósk hæstv. forsrh. á framfæri við þingflokk Alþfl. á þingflokksfundi í gær og þar var hún rædd. Niðurstaða okkar þingmanna Alþfl. er sú að við munum ekkert gera, hvorki hér í þingdeildum né á fundum fjh.- og viðskn. þingsins, sem þetta mál fá í hendur, til þess að tefja eða draga á langinn afgreiðslu þessa máls og munum líta jákvæðum augum á ósk hæstv. ríkisstj. Til þess að tryggja að frv. þetta fái þá afgreiðslu, sem ríkisstj. óskar eftir, þarf að sjálfsögðu að gefa Alþingi og þá ekki síst stjórnarandstöðunni, sem er að koma ný að þessum málum, ýmsar upplýsingar. Og hæstv. ríkisstj. getur greitt sjálf fyrir því, að málið fái fljóta afgreiðslu, með því að veita okkur stjórnarandstæðingum þessar upplýsingar hið fyrsta. Hæstv. forsrh. getur til að mynda greitt mjög fyrir afgreiðslu málsins með því að veita við þessar umr. nú svör við ýmsum spurningum sem okkur leikur hugur á að fá svar við og varða frv. þetta. Geti hæstv. forsrh: veitt slíkar upplýsingar mun það greiða að sama skapi mjög fyrir afgreiðslu málsins. Ella, ef hæstv. forsrh. getur ekki veitt þau svör, verðum við að sjálfsögðu að leita eftir þeim á fundi fjh.- og viðskn. þingsins.

Hæstv. ráðherrar hafa sjálfir orðið þess valdandi að ýmsar þessar spurningar hafa vaknað. Þótt frv. það, sem hér hefur verið lagt fram, sé árangurinn af samfelldu starfi tíu ráðh. í núv. hæstv. ríkisstj. og sé því byggt á eitt hundrað dagsverkum, hvorki meira né minna, þá eru það fleiri spurningar, sem þetta eitt hundrað dagsverka starf vekur, heldur en það svarar. Hæstv. ráðherrar hafa nú upp á síðkastið látið ýmislegt það eftir sér hafa sem nauðsynlegt er að fá frekar upplýst þegar frv. þetta verður hér til afgreiðslu á Alþingi.

Ég vil leyfa mér að vitna til viðtala við formann Framsfl., hæstv. sjútvrh. Steingrím Hermannsson, í Tímanum og Morgunblaðinu í morgun. Þar fullyrðir hæstv. ráðh. að frv. það, sem hér er á ferðinni, sé aðeins upphafið að aðgerðum sem ríkisstj. muni grípa til, að því er manni skilst, á allra næstu dögum. Kemst maður ekki hjá því, eftir að hafa fengið slíkar fréttir frá hæstv. ráðh. og formanni Framsfl., að óska nokkuð nákvæmra upplýsinga um það sem þar er sagt. T. d. segir hæstv. ráðh. í viðtali við dagblaðið Tímann, orðrétt, með leyfi forseta:

„Við töldum mikilvægt að halda næstu vísitöluhækkun innan 8% markanna og með aðgerðum, sem eru í undirbúningi, þ. á m. aukningu niðurgreiðslna sem nemur 0.5% í vísitölu, þá þurfti ekki meira til eins og stendur.“

Þetta hlýtur að vekja þá spurningu, hvort hæstv. ríkisstj. hafi tekið um það ákvörðun að halda næstu vísitöluhækkun innan 8% markanna, eins og hæstv. sjútvrh. ræðir um í viðtali við Tímann í morgun. Sé ekki svo, hverjir eru þá þessir „við“ sem hafa tekið þá ákvörðun sem hæstv. ráðh. lætur getið í viðtali við dagblaðið Tímann? Nú hefur það komið fram, m. a. hjá umræddum hæstv. ráðh., að líkur séu á að vísitöluhækkun fyrir það vísitölutímabil, sem nú er að liða, verði á bilinu 8–10%. Hæstv. ráðh. skýrir frá því sjálfur, sem ekki hefur áður komið fram og þá ekki heldur í máli hæstv. forsrh. hér áðan, að ríkisstj. hafi þegar tekið ákvörðun um að auka niðurgreiðslur sem nemur 0.5 stigum af því sem vísitalan fer hugsanlega fram yfir 8 stig. Auk þess upplýsir hæstv. ráðh. að ýmislegt fleira sé í aðsigi af hálfu hæstv. ríkisstj. Það er ósköp eðlilegt, þegar mál eins og þetta er á ferðinni, að stjórnarandstaðan vilji fá að vita: Í fyrsta lagi: Er það ríkisstjórnarákvörðun að vísitöluhækkunum skuli haldið innan við 8% á því vísitölutímabili sem nú er að líða? Í öðru lagi: Hefur ríkisstj. tekið þá ákvörðun, sem hæstv. sjútvrh. lætur hafa eftir sér, að auka niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðum sem svarar hálfu vísitölustigi? Ef svo er, hvað kostar það þá, hvenær verður það framkvæmt og með hvaða hætti?

Þá kemur einnig fram hjá hæstv. sjútvrh. í viðtali við Morgunblaðið í morgun að til þess að ná takmarki ríkisstj. um 40% verðbólgu á árinu megi vísitalan á þar næsta vísitölutímabili, frá 1. mars og þrjá mánuðina þar á eftir, ekki fara fram úr 8%, en fara upp í 10% síðasta vísitölutímabil ársins. Auðvitað hlýtur stjórnarandstaðan að spyrja í þessu sambandi: Eru þær ákvarðanir, sem hæstv. sjútvrh. er hér að lýsa, stefnumörkun ríkisstj. eða aðeins hugdettur ráðh. sjálfs sein hann er að skýra frá með þessum hætti í blaðaviðtölum?

Þessar spurningar hljóta að vakna vegna þess að það er tekið fram í 1. gr. frv., sem hér er til meðferðar, að ríkisstj. skuli miða verðlagsákvarðanir sínar við ársfjórðungsleg meginmarkmið. Það er hins vegar ekki tekið fram, hvorki í lagatextanum, grg. með frv. né heldur í framsöguræðu hæstv. forsrh., hver þessi ársfjórðungslegu meginmarkmið skuli vera né heldur hvort ríkisstj. sé orðin sammála um slík ársfjórðungsleg meginmarkmið. Hæstv. sjútvrh. skýrir hins vegar frá þessu í viðtali við Morgunblaðið og menn hljóta að biðja hæstv. forsrh. um nánari skýringar á því.

Þá skýrir hæstv. sjútvrh. og formaður Framsfl. einnig frá því, að nú fari fram á vegum fjmrn. heildarendurskoðun á tollalögum og séu væntanlegar breytingar á þeim og þá væntanlega til lækkunar, sem komi í framhaldi af þeim aðgerðum sem við fjöllum um nú. Við þm. hljótum einnig að spyrja hæstv. forsrh. nokkru nánar út í þetta: Hafa slíkar ákvarðanir verið teknar í hæstv. ríkisstj. og að hverju er stefnt í þessu sambandi? Vænti ég þess, að hæstv. forsrh. geti gefið upplýsingar um þessi atriði sem hæstv. sjútvrh. hefur með þessum hætti skýrt frá í blaðaviðtölum í morgun.

Þá hefur hæstv. sjútvrh. enn fremur skýrt frá því í viðtali við dagblaðið Tímann í morgun, að ríkisstj. hafi tekið ákvarðanir um sérstakar aðgerðir vegna búvöruverðs — sem eins og allir vita er væntanlegt núna 1. júní. Ég vil líka spyrja hæstv. forsrh. með sama hætti: Hvaða ákvarðanir eru þetta? Frv. það, sem hér um ræðir, virðist, ef marka má yfirlýsingar hæstv. sjútvrh. í blaðaviðtölum í morgun, aðeins vera lítill hluti af ísjakanum, hann sé enn mestallur í kafi. Og þar sem hæstv. ráðh. hefur talið ástæðu til að upplýsa blaðalesendur um þessi atriði, þá hlýtur stjórnarandstaðan, sem kemur að málinu nýju af nálinni og hefur aðeins séð það nú í nokkrar klukkustundir, að spyrja hæstv. forsrh. nokkru nánar um þetta. Og meðferð málsins í þinginu hlýtur að sjálfsögðu að byggjast fremur á þeim upplýsingum, sem hæstv. ríkisstj. getur veitt þingi og þingnefndum um þessi mál, en þeim sem hæstv. sjútvrh. hefur gefið í blaðaviðtölum í morgun.

Þá hefur einnig verið rætt af stjórnarsinnum um aðgerðir í vaxtamálum frá og með 1. júní n. k. Í 5. gr. frv. þessa er lagt til að Seðlabanka Íslands verði heimilt að fengnu samþykki ríkisstj. að ákveða hærri bindiskyldu allra eða einstakra innlánsstofnana á tímabilinu 1. maí til 31. des. Ef jafnhliða slíkri ákvörðun, sem tekin væri með lagasetningu héðan frá Alþingi, er verið að undirbúa ákvörðun af hálfu hæstv. ríkisstj. um verulega vaxtalækkun má búast við að fari að þrengjast mjög á peningamarkaðnum eftir 1. júní þegar saman kynni að fara lækkun vaxta og aukning á bindiskyldu. Þá er hætt við að draga mundi úr þeirri innlánsaukningu hjá bönkum og öðrum lánastofnunum, sem verið hefur það sem af er árinu, og færi þá að sneiðast um fé sem þessar stofnanir hefðu til ráðstöfunar til útlána til einstaklinga og atvinnuvega.

Af því gefna tilefni, sem viðtal hæstv. sjútvrh. við dagblaðið Tímann er, hljótum við að biðja um nánari upplýsingar. Enn fremur hljótum við að spyrja, miðað við það sem þegar er fram komið, hvort eitthvað fleira sé á ferðinni hjá hæstv. ríkisstj. sem rétt sé að menn skoði og hafi í huga um leið og menn afgreiða þetta frv., því sannast sagna er frv. ekki svo merkilegt að það sé trúlegt að hundrað vinnudagar liggi að baki samningu þess. Eitthvað fleira hlýtur að vera hægt að afreka á svo löngum tíma þó svo að hæstv. ríkisstj. hafi getið sér orð fyrir ýmislegt annað en dugnað og afköst hingað til.

Þá vildi ég einnig í sambandi við 1. gr. frv. leggja þá sérstöku fsp. fyrir hæstv. forsrh., hvort ekki megi treysta því, að ríkisstj. hans virði þá yfirlýsingu sem gefin var skjalfest sáttanefnd og verkalýðshreyfingunni 17. maí 1977 og allar ríkisstjórnir hafa fylgt fram að þessu. Yfirlýsingin hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Að gefnu tilefni vill ríkisstj. ítreka fyrra svar sitt til sáttanefndar þess efnis, að hún fallist á að verðhækkanir á opinberri þjónustu komi aðeins til á síðustu tíu dögunum áður en framfærsluvísitalan er reiknuð út.“

Þetta loforð, sem verkalýðshreyfingunni var gefið 17. maí 1977, var gefið til þess að koma í veg fyrir að stjórnvöld gætu leikið þann skollaleik að draga verðhækkanir á opinberri þjónustu fram yfir vísitöluútreikningstímabil og dembt þeim svo út rétt eftir að vísitala hefði verið reiknuð út, þannig að þær kæmu ekki fram í vísitöluútreikningnum og verkuðu ekki til hækkunar á launum. Við þessa yfirlýsingu hafa ríkisstjórnir staðið til þessa dags. Nú þykjast menn hins vegar af ýmsu mega marka að það kunni að vera fyrirætlun núv. hæstv. ríkisstj. að fresta öllum hækkunum á opinberri þjónustu þar til vísitölutímabilinu er lokið. Ef hæstv. ríkisstj. hefur það í hyggju gengur hún gegn fyrrnefndri yfirlýsingu. Ef hæstv. ríkisstj. ætlar að standa við þá yfirlýsingu, sem ég gat um, hefur hún aðeins þrjá daga til ráðstöfunar ef hún hyggst hækka verðlag á opinberri þjónustu á því vísitölutímabili sem um ræðir, vegna þess að þetta er yfirlýsing ríkisstj. um að verðhækkanir á'opinberri þjónustu komi aðeins til á síðustu tíu dögum áður en framfærsluvísitala er reiknuð út, og útreikningur framfærsluvísitölunnar fyrir liðið tímabil miðast við 1. maí n. k. Ég ítreka því enn og aftur fsp. núna til hæstv. forsrh. og legg á það mikla áherslu að hann svari henni: Hyggst ríkisstj. ekki tvímælalaust virða þá yfirlýsingu sem verkalýðshreyfingunni var gefin 17. maí 1977?

Herra forseti. Þá hef ég einnig áhuga á að fá svör við því hjá hæstv. forsrh. og ríkisstj., annaðhvort nú eða þegar mál þetta kemur til meðferðar í fjh.- og viðskn., hvernig hæstv. ríkisstj. hyggst framkvæma ákvæði 2. gr. þar sem verðlagsyfirvöldum er veitt heimild til þess að fógeti leggi lögbann við byrjuðu eða yfirvofandi broti á fyrirmælum. Nú vitum við og höfum blaðafregnir fyrir okkur um það, að það hefur oft gerst á hinum svokölluðu verðstöðvunartímabilum — sem allur almenningur er nú raunar farinn að hlæja að — að ýmsir aðilar í samfélaginu, sem selja vöru eða þjónustu, ákveða verð á vöru sinni eða þjónustu og auglýsa það fram hjá verðlagsyfirvöldum og taka ekki tillit til óska verðlagsyfirvalda eða ríkisstj. um að gera slíkt ekki. Nú veit ég ekki hversu mörg dæmi eru um að þetta hafi verið gert nú, en nokkur eru þau þó. Verið gæti að hæstv. ríkisstj. hygðist fara þá leið að leggja lögbann við einhverri slíkri framkvæmd, einhverri slíkri verðauglýsingu sem þegar hefur verið birt og gefa síðan fyrirmæli um það, t. d. til Hagstofu Íslands, sem á að annast útreikning á vísitölu, að tekið sé tillit til þessa lögbanns hæstv. ríkisstj. á verði sem þegar er komið út í verðlagið, líkt og farið hefði verið eftir þessu lögbanni og verðlagið ekki sett jafnhátt og upphaflega var tilkynnt af þeim aðilum sem vöruna eða þjónustuna seldu. Nú ber Hagstofu Íslands að sjálfsögðu skylda til að reikna vísitöluna eftir raunverulegu verðlagi á neysluvörum og þjónustu eins og það er á hverjum tíma, og slíkur gerningur af hálfu stjórnvalda — að leggja lögbann við verðákvörðun, sem þegar hefur verið tilkynnt, og fyrirskipa Hagstofu Íslands síðan að taka tillit til þess lögbanns líkt og það hefði haft einhver áhrif — væri að sjálfsögðu að falsa vísitöluútreikning. Nú spyr ég: Er ætlun hæstv. ríkisstj. að beita slíkri aðferð og er það m. a. tilgangurinn með setningu lögbannsákvæðanna í 2. gr. að beita þeim með þessum hætti? Frekari spurningar varðandi framkvæmd þessa lögbanns vakna óhjákvæmilega eins og hv. þm. Geir Hallgrímsson hefur m. a. lýst í ræðu sinni hér áðan. Mun gefast tækifæri til að spyrja um það á fundi fjh.- og viðskn. á morgun, en þangað hefur verðlagsstjóri verið boðaður.

Í 4. gr. er ríkisstj. enn gefin heimild til að lækka ríkisútgjöld, þar með talin lögbundin framlög, um allt að 31 millj. kr., sem jafngildir 3.1 milljarði gkr. Þetta er þriðja niðurskurðar- og sparnaðarheimildin sem hæstv. ríkisstj. biður Alþingi um á örfáum vikum. Nú þegar er fyrir hendi í fjárlögum, sem samþykkt voru um s. l. áramót, heimild til hæstv. ríkisstj. til að lækka ríkisútgjöld á árinu 1981 um allt að 30 millj. kr., sem samsvarar 3 milljörðum gkr. Þessi heimild nær ekki aðeins til framkvæmda samkv. fjárlögum, heldur til allra ríkisútgjalda, hverju nafni sem þau nefnast. Mér er ekki kunnugt um að hæstv. ríkisstj. hafi notað þessa heimild. Samt sem áður leggur hún til í frv. því, sem hér um ræðir, að Alþingi veiti ríkisstj. heimild til lækkunar og niðurskurðar á ríkisútgjöldum, til viðbótar við þessa heimild, um aðra 3 milljarða gkr. Ef það yrði samþykkt yrði ríkisstj. þar með komin með heimildir til að lækka ríkisútgjöld á árinu 1981 um allt að 6.1 milljarð gkr. Nú vænti ég þess, að á bak við þessar óskir hæstv. ríkisstj. hljóti eitthvað að standa. Það getur varla verið að það gerist þrisvar í röð að hæstv. ríkisstj. biðji Alþingi með nokkurra vikna millibili um að veita sér heimildir til sparnaðar og niðurskurðar á ríkisrekstri um tilteknar fjárhæðir án þess að hæstv. ríkisstj. hafi tilteknar hugmyndir um það, hvernig hún ætlar að beita þessum heimildum. Því hlýt ég að óska þess, að hæstv. forsrh. og ríkisstj. veiti nokkrar upplýsingar um eftirtalin atriði:

Hvernig stendur á því, að heimild, sem hæstv. ríkisstj. hefur í hendi í samþykktum fjárlögum um sparnað og niðurskurð á útgjöldum ríkisins, allt að 3 milljörðum gkr., hefur ekki verið notuð? Er eitthvað sem kemur í veg fyrir að hægt sé að nota hana þannig að veita þurfi aðra heimild eins og þá sem verið er að óska eftir í því frv. sem nú er á ferðinni? Er hér um að ræða heimild til viðbótar við heimild fjárlaganna, þannig að verið sé að æskja eftir heimild til niðurskurðar ríkisútgjalda um ekki 3.1 milljarð gkr., heldur samtals um 6 milljarða gkr.? Og sé óskað svo rúmrar heimildar, sé óskað eftir því að tvöfalda fjárlagaheimildina með þessum hætti, þá hlýtur að vera einhver ástæða fyrir því. Hæstv. ríkisstj. hlýtur þá að vera búin að gera sér einhverjar hugmyndir um í hverju þessi sparnaður, þessi niðurfærsla eigi að vera fólgin. Og þar sem eitt af meginverkefnum þm. er að afgreiða fjárlög fyrir íslenska ríkið hljóta þeir að sjálfsögðu að óska upplýsinga um þetta frá hæstv. ríkisstj.

Því má svo ekki gleyma, að enn ein heimild hefur hæstv. ríkisstj. verið veitt á Alþingi. Sú heimild var samþykkt hér 30. mars s. l. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. er heimilt að fresta framkvæmdum þrátt fyrir ákvæði fjárlaga fyrir árið 1981, sem þar er gert ráð fyrir, eða í lánsfjáráætlun fyrir sama ár, telji hún það nauðsynlegt. Tekur þetta einnig til fjárlagaliða sem jafnframt eru ákveðnir með öðrum lögum en fjárlögum.“

Þarna fær hæstv. ríkisstj. sem sé til viðbótar við þá heimild, sem í fjárlögunum er og er takmörkuð við 3 milljarða gkr., heimild til ótakmarkaðrar frestunar framkvæmda, þrátt fyrir ákvæði fjárlaga og lánsfjáráætlunar, og til viðbótar við það ótakmarkaða heimild til frestunar og niðurfellingar á greiðslum sem ákvarðaðar eru með öðrum lögum en fjárlögum, en falla þó undir fjárlagaafgreiðslu, og er ég þá að tala um t. d. framlögin í sjóði. Ef 4. gr. frv. um verðlagsaðhald yrði nú samþykkt væri hæstv. ríkisstj. komin með frestunarheimildir á útgjöldum ríkissjóðs og lánsfjáráætlunar í þremur lagasetningum: Almenna heimild til niðurskurðar á ríkisútgjöldum um 3 milljarða gkr. í fjárlögum, ótakmarkaða heimild í brbl. sem samþykkt voru 30. mars 1981 um framkvæmdafrestanir án nokkurs þaks — hæstv. ríkisstj. getur frestað framkvæmdum upp að því marki sem henni dettur í hug — og til viðbótar við slíka framkvæmdafrestun hefur hún líka í sömu lögum heimild til að fresta greiðslum til fjárlagaliða sem ákveðnir eru með öðrum lögum en fjárlögum, og svo þriðja frestunar- og niðurskurðarheimildin upp á 3.1 milljarð gkr. sem ætti að afgreiða í frv. nú. Eitthvað hlýtur að búa að baki slíkum beiðnum til Alþingis. Eitthvað hlýtur hæstv. ríkisstj. að geta sýnt alþm. sem búi á bak við að hún telji sig þurfa á öllum þessum frestunarheimildum að halda.

Ég minni aðeins á, herra forseti, að við afgreiðslu fjárlaga við s. l. áramót lögðu þm. Alþfl. fram till. um niðurskurð og sparnað á útgjöldum ríkisins, eins og þau voru ákveðin við afgreiðslu fjárlaga, sem samtals námu um 17 milljörðum gkr. Þar var ekki verið að leggja tileins og hæstv. ríkisstj. er að biðja um núna aftur og aftur — að ríkisstj. yrði veitt einhver ótiltekin heimild um frestun eða niðurskurð einhverra ótiltekinna framkvæmda, heldur lögðum við þm. Alþfl. til breytingar á einstökum liðum fjárlaga sem samtals hefðu lækkað ríkisútgjöldin, sparað í ríkisrekstrinum og frestað framkvæmdum um 17 milljarða gkr. Á bak við till. okkar frá því í des. um niðurskurð í ríkisrekstrinum, sparnað og aðhald bjuggu ákveðnar og afmarkaðar hugmyndir um hvernig þetta skyldi gert. Hæstv. ríkisstj., sem nú kemur í þriðja sinn til Alþingis til að biðja um heimild til að breyta fjárlögum og lánsfjáráætlun — ofan á tvær heimildir sem hún hefur fyrir hendi í þessu skyni sem geta numið allt frá 3 milljörðum upp í óendanlegt hlýtur að geta sýnt Alþingi einhverjar hugmyndir um hvernig hún hyggst beita þessum heimildum. Ella væri hún ekki að biðja um þriðju heimildina til viðbótar við þær tvær sem hún hefur þegar.

Þá hefur fram komið, m. a. hjá hæstv. viðskrh., að eitt af því, sem ríkisstj. hyggist fyrir í sambandi við niðurfærslu á ríkisútgjöldum og ríkisframlögum samkv. þessari heimildargrein, sé að skera niður framlög úr ríkissjóði til fjárfestingarlánasjóða. Nú er, eins og allir vita, liðinn fyrsti þriðjungur ársins og allnokkuð síðan búið er að tilkynna fjárfestingarlánasjóðunum hvaða fé þeir megi eiga von á, bæði úr ríkissjóði og úr lánsfjáráætlun. Allir þessir sjóðir eru þegar búnir að ganga frá útlánaáætlunum sínum og margir sjóðanna þegar búnir að svara umsóknum og tilkynna umsækjendum um þá afgreiðslu sem þeir eigi von á að fá. Þeir, sem hafa fengið slíkar tilkynningar, eiga kröfu á að sjóðirnir standi skil á því lánsfé sem þeir hafa með slíkum bréflegum gerningi lofað sínum lántakendum. Það er því harla seint, þegar komið er fram undir mitt ár, að ætla þá að fara að skera niður framlög ríkissjóðs til sjóðakerfisins, eins og hæstv. viðskrh. lét í veðri vaka að ætlunin væri hjá ríkisstj., þegar fyrir liggur að sjóðirnir eru þegar búnir að ráðstafa þessu fé og ýmsir aðilar, m. a. í atvinnulífinu, byggja rekstur sinn og áætlanir fyrir þetta ár á því að fá þá afgreiðslu sem þeim hefur verið lofað af umræddum sjóðum.

Vel má vera að það sé ætlun hæstv. ríkisstj. að mæta slíkum vanda með því að fyrirskipa sjóðunum að taka það, sem á vantar, í erlendum lánum til þess að geta staðið við þau fyrirheit sem þeir hafa gefið lántakendum sínum. Sé það fyrirætlun ríkisstj. væri auðvitað nauðsynlegt að það kæmi fram við umr. nú og meðferð þessa máls til þess að fjárfestingarlánasjóðirnir og þeir, sem þeim stjórna, og lántakendur þeirra geti vitað nú þegar hvað það er sem hæstv. ríkisstj. fyrirhugar sjóðunum í þessu sambandi.

Þá kemur að lokum síðasta grein frv., um bindiskylduna. Þessi grein er sama marki brennd og flestallar greinarnar, að undantekinni 2. gr., að í henni segir raunar ekki nokkurn skapaðan hlut um hvað ríkisstj. hyggist fyrir. Í 1. gr. er rætt um ársfjórðungsleg meginmarkmið, en engin nánari skýring fylgir á því, hver þessi ársfjórðungslegu meginmarkmið eigi að vera. Það getur allt eins verið að hæstv. ríkisstj. sé ekki enn þá búin að koma sér saman um hver þau skuli vera, komi sér aldrei saman um það og þess vegna sé þetta ákvæði marklaust.

Um 4. gr. er sama að segja. Þar liggur enn ekkert fyrir um hvernig ríkisstj. hyggist nota heimildina til lækkunar á ríkisútgjöldum til viðbótar við þær heimildir sem fyrir hendi eru og enn hafa ekki verið notaðar af einhverjum ástæðum, þannig að ákvæði 4. gr. gætu að þessu leytinu til allt eins verið einbert pappírsgagn þar sem þau verði aldrei notuð. Og ákvæði 5. gr. um bindiskylduna eru af sama toga spunnin. Þar er ekkert, hvorki í greininni sjálfri, grg. með frv. né í ræðu hæstv. forsrh. hér áðan, sem segir til um hvort ríkisstj. sé búin að ná nokkru samkomulagi um að nota þá heimild sem í greininni felst. Og það er athyglisvert, að í frásögn Þjóðviljans í morgun af efnisatriðum frv. er ekki minnst á það, að þetta atriði sé að finna í frv. Þjóðviljinn nefnir ekki aukateknu orði að í frv. þessu sé að finna ákvæði eins og það sem er í 5. gr. þess. Þó eru þar talin upp öll önnur ákvæði frv.

Þeir, sem hafa átt saman við Alþb. að sælda, minnast þess, að það að auka bindiskyldu á innlánsfé, sem Seðlabanki Íslands getur gert innlánsstofnun að sæta, hefur ávallt verið eitur í þeirra beinum. Það skyldi þó aldrei vera svo, að það liggi ekki einu sinni fyrir samkomulag í hæstv. ríkisstj. um að slík heimild verði nokkru sinni notuð? A. m. k. sér dagblaðið Þjóðviljinn ekki einu sinni ástæðu til að skýra frá því í frásögn sinni af frv. í morgun, að þessi grein sé til. Við skulum samt vænta þess, að einhverjar hugmyndir séu uppi um þetta hjá hæstv. ríkisstj. Og þá væri út af fyrir sig nauðsynlegt að fá að vita hvað það er sem hæstv. ríkisstj. hugsar sér í þessu sambandi, ekki endilega alveg nákvæmlega útgefið upp á prósentustig, heldur hvernig gæti hún hugsað sér að þessu ákvæði yrði beitt, upp að hvaða marki og með hvaða hætti. Og sérstök spurning vaknar vegna þess ákvæðis, sem ég man ekki til að hafa séð fyrr en í þessu frv., að Seðlabankanum sé heimilað að mismuna innlánsstofnunum hvað þessa bindiskyldu varðar, sem sé að ákveða að þessi banki skuli binda meira af innlánsfé sínu hjá Seðlabankanum heldur en hinn, og gera þannig upp á milli einstakra banka og lánastofnana hvað bindiskyldu varðar. Ég minnist þess ekki að hafa séð slíkt ákvæði fyrr í lögum og finnst líklegt að með þessu hugsi ríkisstj. sér að ráðskast með innlánsstofnanir og ákveða að t. d. þessi banki eða þessi sparisjóður skuli binda svo og svo mikið af sínu innlánsfé í Seðlabankanum, en hinn bankinn eða hinn sparisjóðurinn, sem kann að vera í meiri náð hjá hæstv. ríkisstj., skuli binda mun minna. Ég vildi gjarnan fá að fræðast um það hjá hæstv. forsrh., hvaða rök liggja að baki því að ákveða bindiskylduna mismunandi með þessum hætti eins og verið er að gera skóna í þessari grein.

Herra forseti. Eins og ég sagði í upphafi máls míns munum við þm. Alþfl. ekki setja á langar tölur um þetta mál eða gera eitt né neitt til þess að tefja umr. um það eða gang málsins, hvorki hér í hv. þingdeild né heldur í fjh.- og viðsk.- nefndum Alþingis. Því mun ég ekki hafa fleiri orð um málið, þó svo að ástæða væri til að halda hér langa ræðu um efnahagsstefnu stjórnarinnar almennt og þann árangur eða öllu heldur árangursleysi sem hæstv. ríkisstj. getur státað af — ef svo má að orði komast. En ég tek það fram enn og aftur, að það er að sjálfsögðu eðlilegt að ýmsar spurningar vakni hjá stjórnarandstöðu út af þessu máli, bæði varðandi atriði í frv. sjálfu og ekki síst varðandi ýmsar yfirlýsingar sem sérstaklega einn hæstv. ráðh. hefur gefið í blaðaviðtölum í morgun. Þeim mun fyllri upplýsingar sem hæstv. forsrh. og ríkisstj. getur gefið okkur, þeim mun greiðari gang mun málið að sjálfsögðu eiga gegnum þingið.