30.04.1981
Efri deild: 89. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3902 í B-deild Alþingistíðinda. (3950)

306. mál, verðlagsaðhald

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Það er ekki ófróðlegt fyrir okkur dm. að fylgjast með þeim ástar- og alúðarorðum sem fara hér á milli þeirra flokksbræðranna, hæstv. forsrh. og hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar. Það skortir sannarlega ekki samheldnina þar á milli. Og það er líka fróðlegt að fylgjast með því, hver munur er á málflutningi þessara flokksbræðra og stefnu í þessum efnum, þar sem annar vill leyfa þær hækkanir allar sem um er beðið, en hinn, sem fylgir þeirri stefnu ríkisstj. sem hér er verið að ræða, vill ekki leyfa neinar hækkanir. Svo eru menn að tala um að þessi flokkur sé á leið til sameiningar og sé styrkari og samheldni þar meiri, að manni skilst, með hverjum deginum sem líður og eftir því sem landsfundur flokksins nálgast! Þetta eru sannarlega áhugaverðar umræður og orðaskipti, að ekki sé meira sagt.

Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson talaði um það áðan að þetta frv. legði stein í götu ríkisstj. Þó svo hann reyndi að klóra í bakkann með það breytir hann ekki því, að þetta orðtak hefur ákveðna merkingu í íslenskri tungu og orð hans áðan breyta að sjálfsögðu ekki nokkrum sköpuðum hlut um það. (ÓRG: Ég sagði ekki heldur hv. þm., að leggja stein í götuna.) Við skulum sjá þegar kemur útskrift úr ræðu þm. Ég skrifaði orðrétt það sem hann sagði hér. Þetta frv. leggur stein í götu, sagði hv. þm., og við skulum ekkert vera að fjölyrða meira um það. Þessi ríkisstj. virðist alveg einfær um að leggja steina í sína götu og hún gengur raunar ekki götuna til góðs, heldur fer hún breiða veginn og stöðugt er nú verið að breikka breiða veginn, virðist vera. Hins vegar er rétt að minna hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson á það, sem talaði um að leggja steina í götur og hvernig götur væru steinum lagðar, að einhvers staðar stendur að vegurinn til vítis sé lagður góðum áformum. En þessi ríkisstj. er sem sagt einfær um að leggja stein í þá götu sem hún gengur og þeir steinar verða henni að falli áður en yfir lýkur og það kannske fyrr en síðar.

Hæstv. forsrh. tók þannig til orða áðan að menn væru að heimta hærri vexti. Ef það er rétt, sem hæstv. forsrh. hefur sagt og haldið hefur verið fram af hálfu þessarar ríkisstj., að verðbólgan sé ekki núna nema einhvers staðar á bilinu 30%–40%, — raunar hefur verið nefnd talan 35%, en þegar hæstv. forsrh. kom í útvarpið fyrir skömmu voru notuð orðin 30–40%, — ef það er rétt, sem sagt hefur verið, að þessari ríkisstj. hafi tekist að draga úr verðbólgunni ætti þessi ríkisstj. auðvitað að vera búin að lækka vextina fyrir löngu, en það hefur hún hins vegar ekki gert.

Það er furðulegt þegar hæstv. forsrh. segir það við alþjóð að innlán hafi aldrei á s. l. 7 árum, ef ég man rétt, verið jafnmikil í bankakerfinu og nú er. Af þessu hrósar ríkisstj. sér. Í hinu orðinu er vaxtastefnan, sem ríkisstj. fylgir og kennd er við Alþfl., fordæmd. Ég man ekki betur en hæstv. sjútvrh., formaður Framsfl., hafi í sjónvarpi fyrir nokkru sagt sem svo: Þessi hávaxtastefna Alþfl. sem við glæptumst til að samþykkja. — Sem sagt: Í öðru orðinu er vaxtastefnan fordæmd, en í hinu orðinu hrósar ríkisstj. sér af því sem þessi vaxtastefna hefur haft í för með sér, þ. e. innlán í bönkum hafa ekki verið jafnmikil í langan tíma. Halda hæstv. ráðherrar að almenningur sjái ekki í gegnum svona málflutning? Mér finnst satt að segja furðulegt að beita slíkum rökum og ætlast til að þetta hrifi á fólk og gera sér ekki grein fyrir því, að auðvitað skilur fólk hvað um er að vera. Sem betur fer er svo komið að fólk skilur að í verðbólgu geta ekki verið lágir vextir. Og ég held að sú stefnubreyting, sem varð þegar vextir voru hækkaðir, hafi gert meira en nokkuð annað til að glæða skilning fólks á því, hve háskalegt ástand verðbólga er. Vissulega væri það gleðilegt ef verðbólgan reyndist minni en við ýmsir ætlum. Þá á auðvitað að lækka vextina. Ef það er satt, sem ríkisstj. hefur verið að segja að undanförnu, ætti að vera búið að því fyrir löngu vegna þess að þessir háu vextir voru auðvitað aldrei hugsaðir sem neitt langtímafyrirbrigði. Þeir voru hugsaðir sem liður í varnaraðgerðum til að ná niður verðbólgunni, sem liður í áætlun til að draga úr verðbólgunni. Auðvitað áttu þeir að lækka með verðbólgunni. Það leikur hins vegar á því nokkur vafi hvort ríkisstj. ætlar sér að lækka vextina í samræmi við það sem hún segir að verðbólgan hafi lækkað.

Það er ekki ástæða til að hafa ýkjamörg orð um það frv. sem hér er til umr. því að það er sannarlega hvorki mikið né merkilegt efni sem það flytur. Ríkisstj. ætlar hér enn einu sinni að fara að dæmi strútsins og stinga höfðinu í sandinn, loka augunum og halda að vandamálin hverfi við það eitt. Og það tekur fyrst í hnúkana þegar Dagblaðið, málgagn hæstv. ríkisstj., það sem stutt hefur þessa ríkisstj. dyggilegast af öllum blöðum, ef undan er skilinn kannske Þjóðviljinn, tekur þannig til orða í leiðara um þetta frv., með leyfi forseta, þar segir:

„Snarvitlaust stjfrv. felur í sér sjónhverfingar og skrípaleik. Dæmigerð vinnubrögð manna sem búa í gerviheimi.“

Þetta segir Dagblaðið — það blað sem með ráðum og dáð hefur stutt þessa ríkisstj. og sérstaklega hæstv. forsrh. Bragð er að þá barnið finnur.

Sannast sagna var talað um verðstöðvun í brbl. ríkisstj., sem forsrh. las fyrir þjóðina á gamlárskvöld. Í þessu frv. er talað um verðlagsaðhald. Senn kemur nú, held ég, að því að ríkisstj. þrjóti ný orð í þessum efnum. Hins vegar er svo það, að ríkisstj. er gersamlega búin að eyðileggja merkingu þess orðs: verðstöðvun. Það hefur átt að vera verðstöðvun hér í gildi frá áramótum, ströng verðstöðvun, en allur almenningur í þessu landi veit hvernig sú verðstöðvun hefur verið. Hver sending af vöru sem komið hefur í verslanir hefur verið seld á hærra verði en sú sem þar var fyrir. Þetta geta menn einfaldlega sannfærst um með því að fara í stórar kjörbúðir og skoða verðmerkingar á vörum þar. Þetta orð hefur því ekki neina merkingu lengur. Ríkisstj. er búin að eyðileggja þetta orð og kannske ber ekki að harma það sérstaklega vegna þess að í rauninni er ekkert til sem heitir verðstöðvun. Það er frestun á verðhækkunum. Með verðstöðvun er verið að freista þess að byggja stíflu sem menn vita að brestur fyrr eða síðar eða það flæðir yfir hana. Því lengur sem reynt er að halda þessari stíflu, þeim mun stærri verður holskeflan sem yfir skellur.

Það er, herra forseti, ekki ástæða til að lengja þessar umr. verulega. Þetta frv. er hreinlega ekki þess virði. Það er ástæða til að taka undir þau orð, aldrei þessu vant, sem Dagblaðið viðhafði um þetta mál, að hér er um að ræða snarvitlaust stjfrv.