04.05.1981
Neðri deild: 87. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3933 í B-deild Alþingistíðinda. (3977)

123. mál, hollustuhættir

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til l. um hollustuhætti og hollustuvernd. Gert er ráð fyrir að sett verði á laggirnar sérstök stofnun er sinni því verkefni sem lögin gera ráð fyrir.

Það vekur fyrst athygli mína við lestur þessa frv., að það er gífurlega umfangsmikið, ryðst inn á verksvið margra aðila. Það er ekki gerð tilraun til að afmarka þau á nokkurn hátt við það starfsvið sem ekki er nú þegar í lögum. Glöggt dæmi í því sambandi er Vinnueftirlit ríkisins.

Það vekur einnig athygli, að traðkað er alfarið á sveitarfélögum og þeirri starfsemi sem átt hefur sér stað hjá hverju einstöku sveitarfélagi með heilbrigðisnefndum. Þeim er sópað saman í nefndir eins og nefndaraðilum hefur dottið í hug, í fyrra skiptið þeirri nefnd sem samdi þetta frv., í seinna skiptið þeirri nefnd sem hefur veitt því umsögn.

Það er talað um að nefndirnar eigi að koma saman minnst ársfjórðungslega sem mundi þá þýða að lágmarki fjóra fundi á ári. Í sumum tilfellum er ekki um það að ræða að samgöngur bjóði upp á slíka fundi. Þetta er á sama tíma og ástand í læknamálum, t. d. á Vestfjörðum, er algjörlega óviðunandi.

Þá vekur undrun mína líka í þessu sambandi það valdsvið sem nefndinni er ætlað að hafa. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa þann kafla því að hann er holl lesning til að átta sig á hvað hér er verið að tala um:

„Til þess að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögum þessum, hollustuverndarreglugerð, mengunarvarnareglugerð, hollustusamþykktum sveitarfélaga eða eigin fyrirmælum samkv. þessum ákvæðum getur hollustunefnd beitt eftirfarandi aðgerðum:

1) Veitt áminningu.

2) Veitt áminningu og tilhlýðilegan frest til úrbóta.

3) Stöðvað viðkomandi starfsemi eða notkun að öllu leyti eða að hluta til, með aðstoð lögreglu ef með þarf.“

Það er spurning hvort eigi að ráða lögreglunni, sýslumaður eða nefndin, ef til ágreinings kæmi. Samkvæmt þessu virðist það alveg alfarið að lögreglumönnum beri að hlýða fyrirmælum nefndarinnar.

„Stöðvun skal því aðeins beitt að um alvarlegri tilvik eða ítrekun sé að ræða, eða ef aðilar sinna ekki úrbótum innan tiltekins frests. Sé um slíkt brot að ræða getur hollustunefnd afturkallað starfsleyfi viðkomandi reksturs teljist rík ástæða til.

Þar sem innsiglun er beitt við stöðvun skulu hollustunefndir nota sérstök innsigli er auðkenni þær.

Ef aðili sinnir ekki innan tiltekins frests fyrirmælum hollustunefndar getur hún ákveðið honum dagsektir þar til úr sé bætt. Dagsektir renna í sveitarsjóð. Hámark dagsekta skal ákveðið í hollustuverndarreglugerð og mengunarvarnareglugerð.

Ef aðili vanrækir að vinna verk, sem hollustunefnd hefur fyrirskipað í samræmi við þessi lög og reglur, er nefndinni heimilt að láta vinna verkið á kostnað hins vinnuskylda. Kostnaður skal til bráðabirgða greiddur úr sveitarsjóði, en innheimtast síðar hjá hlutaðeigandi.“

Ég vil, með leyfi forseta, gera hér örlítið hlé á lestrinum en vekja athygli á því sem hér er verið að leggja til. Í fyrsta lagi á nefndin að hafa það vald að hún geti skipað sveitarstjórnum að greiða reikninga hafi hún áhuga á því. Það tel ég ákaflega hæpið og mér er ekki ljóst hvernig ætti að framkvæma það verk ef kassinn er tómur.

Það hlýtur einnig að vera matsatriði, ef maður er skikkaður af hálfu nefndarinnar, hvort hann tekur þá ákvörðun að selja sitt fyrirtæki, leggja það niður eða hvort hann á alfarið að hlíta þeim fyrirmælum sem hér koma fram. Að mínu viti er þetta svo hart og svo ósveigjanlegt, að það liggur við að mér detti í hug lögregluríki þegar ég les þetta yfir.

Þá vil ég halda áfram, með leyfi hæstv. forseta: „Kostnað og dagsektir samkv. 27. gr. 4, og 5. tölul. má innheimta með lögtaki.

Sé vinna sú, sem hollustunefnd lætur framkvæma samkv. 27. gr. 5. tölul., til komin vegna vanhirðu, óþrifa eða heilsuspillandi aðstæðna í húsi, á lóð eða í farartæki er kostnaður tryggður með lögveðsrétti í viðkomandi húsi, lóð eða farartæki tvö ár eftir að greiðslu er krafist.

Hollustunefndum skal heimill aðgangur til skoðunar og eftirlits, þ. á m. sýna- og myndatöku, að öllum þeim stöðum, sem lög þessi, hollustuverndarreglugerð, mengunarvarnareglugerð og hollustusamþykkt ná yfir, og geta leitað aðstoðar lögreglu ef með þarf.“

Ég geri aftur hlé á lestri, herra forseti. Það er merkilegt atriði, að aldrei er gert ráð fyrir að nefndin leiti til dómstóla. Það er aldrei gert ráð fyrir að hún láti dæma í máli. Það er alfarið gert ráð fyrir að hún hafi dómsvaldið í sínum höndum, hún þurfi aðeins að leita til lögreglu. Þetta er í beinni andstöðu við alla lagasetningu sem verið hefur í landinu og gerir ráð fyrir að ef tvo aðila greini á þurfi að leita til dómstóla og þeir að skera úr. Þarna skal nefndin bæði vera framkvæmdaraðili og dómsaðili eigin mála. Ég mótmæli svona lagasetningarhugleiðingum. Þá vil ég halda áfram lestrinum:

„Hollustunefndum er heimilt að gefa fyrirmæli um meðferð og notkun matvæla og annarra vara þar sem settum reglum hefur ekki verið fylgt. Nefndirnar geta lagt hald á slíkar vörur og fyrirskipað förgun þeirra teljist slíkt nauðsynlegt.“

Hér er náttúrlega ekki um neitt smáræðisvald að ræða, að fyrirskipa förgun á vöru. Það má magnað vera ef ekki er hægt að geyma hana eða það gefist ekki tími til að óska eftir dómsúrskurði í því sambandi. Í sumum tilfellum gæti þarna verið um eyðileggingu á sönnunargögnum að ræða.

„Eftirlitsskyldum aðilum er skylt að veita hollustunefndum allar nauðsynlegar upplýsingar sem krafist er vegna hollustueftirlitsins.

Eftirlitsskyldum aðilum er skylt að afhenda hollustunefndum nauðsynleg sýni vegna hollustueftirlitsins endurgjaldslaust.“

Herra forseti. Ég er ekki hissa á því, að það hafi þurft 13 fundi, þó að skörungur hafi setið í formannsstól, við að berja þetta áfram, því að hér er margt sem þyrfti að athuga og skoða áður en þetta yrði afgreitt sem lög.

Ég var að lesa í þessu frv. einnig um ýmis verksvið sem því er ætlað að sinna. Það vakti t. d. athygli mína, að gert er ráð fyrir að eyðing á vargfugli heyri undir þessar nefndir. Það má vel vera að þetta verði afgreitt í hópvinnu, þannig séð að þær taki að sér í sjálfboðaliðsvinnu að fara með skotvopn um landareignir manna og skjóta vargfugl, en e. t. v. er líka með þessu verið að gera því skóna að það eigi að leggja niður þá stofnun sem sér um þetta mál.

En mig undrar það satt best að segja, þegar frv. eins og þetta er lagt fram, að þá skuli ekki gerðar á því lágmarksbreytingar til þess að það lúti þeim eðlilega ramma sem er grundvallaratriði í lagasmíð hér á landi. Fyrst er deilt um hvort lög hafi verið framkvæmd með eðlilegum hætti. Náist ekki einn skilningur á því atriði eru dómstólar látnir skera úr. Þetta er grundvallaratriði varðandi lagasetningu. Ég tel að þegar menn leggja til að þeirri grundvallarreglu verði vísað til hliðar, þá séu þeir jafnframt að leggja til beint eða óbeint að ákveðnir málaflokkar skuli ekki heyra undir dómstóla, þeir skuli ákveðið heyra undir vissar nefndir og að vissri nefnd sé falið þar dómsvald. Í sumum tilfellum hlýtur, hvað sem hver segir, að fara svo að menn leiti réttar síns fyrir dómstólum. Og þá er spurningin hvaða aðili sé ábyrgur fyrir afglöpum nefndar sem hefði slíkt vald með höndum. Hvaða aðili er ábyrgur? Er þá nægilegt að skrifa reikning á sveitarfélagið og láta það borga ef hollustunefnd, eins og hér er verið að leggja til, yrði það á að láta eyðileggja umtalsverð verðmæti í matvælum? Eða er það ætlun flutningsmanna að nefndarmenn séu þá ábyrgir prívat og persónulega og þurfi að greiða það úr eigin sjóði? Það væri fróðlegt að fá fullt svar við þessu vegna þess að mér virðist einsýnt að til þess gæti komið, að einhver yndi ekki þeim úrskurði að fela nefnd eins og þessari dómsvald í sínum málum, jafnvel þó að Alþingi yrði til að samþykkja slíkt sem lög.