05.05.1981
Sameinað þing: 79. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3950 í B-deild Alþingistíðinda. (4003)

268. mál, rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins

Fyrirspyrjandi (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Þegar hæstv. viðskrh. svaraði mér hér í nóvembermánuði s. l. lét ég mig hafa það að þakka honum fyrir svörin þó að þau væru raunar engin. Í þetta skipti er ekkert að þakka því að hann svaraði engu. Hann gerði að vísu grein fyrir því, hvernig þessum málum væri háttað. Allir þm. vita hvernig lánamálunum er háttað, og það þurfti ekkert að skýra okkur frá því. En Alþingi hefur fyrirskipað þessum hæstv. ráðh. að breyta þessari framkvæmd. Það er það sem felst í till. sem samþ. var með miklum meiri hl. hér á hinu háa Alþingi. Ef þessi hæstv. ráðh. vill ekki framfylgja vilja Alþingis á hann að segja af sér. Það er engin önnur leið til í þingræðisríki.

Það er hrein ósvífni að koma hér upp í annað sinn, svara engu og segjast ekkert ætla að gera, hafa samþykktir Alþingis að engu, ætla að ástunda það að brjóta lögin í allra augsýn því að auðvitað eru þetta lög, þetta eru fyrirskipanir Alþingis. Ég er svo hissa að ég get varla komið upp nokkru orði, að ráðh. skuli leyfa sér þá ósvífni að koma hér upp og svara engu — bókstaflega engu. Þessi ráðh. á að segja af sér.