05.05.1981
Sameinað þing: 79. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3951 í B-deild Alþingistíðinda. (4005)

268. mál, rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Það kann vel að vera að þingsályktanir séu ekki lög- og rétt er það. En því síður eru lög fyrir mér álit sem Seðlabankinn gefur frá sér, og ég átti helst ekki von á því, að hæstv. viðskrh. gripi til þess ráðs að verja sig með umsögnum Seðlabanka í þessu máli. En ég á afar stutt erindi. Ég þarf að fá skýrt svar við því, hvort hæstv. viðskrh. álitur að ríkisstj. í landinu sé siðferðilega skuldbundin til að fara að ályktunum og samþykktum í Alþingi. Það er þetta sem þarf að fást svar við, því að þess hefur orðið vart í vaxandi mæli að ríkisstj. hafi bein fyrirmæli Alþingis að engu. Við svo búið má ekki standa. Við það getur hið háa Alþingi ekki unað. Við þessari spurningu verð ég að fá svar og það liggur beinast við að beina því til hæstv. viðskrh. úr því hann er í umr. Álitur hæstv. ráðh. að framkvæmdavaldinu — ríkisstj. — beri að fara að samþykktum hins háa Alþingis eða ekki? Bara þetta, án þess að blanda þessu sérstaka máli á annan hátt inn í það.