05.05.1981
Sameinað þing: 79. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3961 í B-deild Alþingistíðinda. (4024)

389. mál, fréttasendingar til skipa

Fyrirspyrjandi (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Mál þetta hefur komið til umr. í hv. Alþingi í vetur í sambandi við önnur mál. Það hefur vakið nokkra athygli að loftskeytamenn, fleiri en einn og fleiri en tveir, sem hafa starfað við þessar fréttasendingar og hafa gefið vinnu sína — eins og þeir loftskeytamenn sem hafa unnið að þessu á undanförnum árum hafa gefið vinnu sína til þessa — hafa furðað sig á því, að þessari þjónustu skuli ekki hafa verið haldið áfram. Breytingin, sem hér varð þegar þessum morsfréttasendingum var hætt, var að upp voru teknar stuttbylgjusendingar á tali sem heyrist misjafnlega. Þarf lítið út af að bera til þess að það geti verið alger þögn á stórum hluta þeirra hafsvæða sem íslensk skip ferðast um langtímum saman. Vegna þessa leikur mörgum forvitni á að vita hvar þessi mikli kostnaður í ríkisrekstrinum liggur í sambandi við þessar fréttasendingar. Ég held að það hljóti að vera mjög forvitnilegt fyrir allan almenning, að ég tali nú ekki um sérstaklega þau hundruð sjómanna sem fjarri eru ströndum landsins og njóta hvorki þessarar þjónustu né annarrar frá þjóðfélaginu þótt þeir borgi sína fullu skatta til sameiginlegrar neyslu og þjónustu um leið. Vegna þessa hef ég, herra forseti, leyft mér að bera fram eftirfarandi fsp. ásamt hv. þm. Matthíasi Á. Mathiesen:

„1. Hver var kostnaður Ríkisútvarpsins vegna morsefréttasendinga til skipa árin 1979 og 1980?

2. Hver var launakostnaður vegna þessarar þjónustu og hvernig skiptist hann milli deilda?

3. Hver er áætlaður kostnaður við stuttbylgjutalsendingar frétta á árinu 1981?“