06.05.1981
Efri deild: 92. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3998 í B-deild Alþingistíðinda. (4086)

312. mál, sjóefnavinnsla á Reykjanesi

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Það frv., sem ég mæli hér fyrir, felur í sér að Alþingi heimili ríkisstj. að beita sér fyrir stofnun hlutafélags er reisi og reki sjóefnavinnslu á Reykjanesi til vinnslu á saltefnum og öðrum efnum sem til falla við þá vinnslu. Mál þetta hefur átt sér langan aðdraganda, en þáttaskil urðu í athugunum á saltvinnslu hér á landi með stofnun Undirbúningsfélags saltverksmiðju á Reykjanesi hf. samkv. lögum nr. 47/1976. Þetta gerðist á árinu 1976, eins og lagatilvitnun ber með sér, en ekki 1978, eins og misritast hefur á bls. 3 í aths. við frv.

Ákvörðun um undirbúningsfélag og tilraunaverksmiðju var tekin í framhaldi af hugmyndum um allt að 250 þús. tonna saltverksmiðju og athugunum á sjóefnavinnslu sem rekja má allt aftur til ársins 1954. Þess má raunar geta, að fyrsta saltvinnslutilraunin, sem vitað er að gerð hafi verið í krafti jarðhita, var á Reykjanesi við Ísafjarðardjúp þegar á árinu 1773, þannig að innlend saltframleiðsla er ekki algert nýmæli hérlendis.

Tilraunaverksmiðjan á Reykjanesi hefur nú verið starfrækt í tvö ár undir stjórn Undirbúningsfélags saltverksmiðju á Reykjanesi. Ýmis tæknileg vandamál komu upp í tilraunarekstrinum sem íslenskum vísindamönnum og starfsmönnum tilraunaverksmiðjunnar hefur tekist að leysa með frekari rannsóknum, hugviti og sérstökum dugnaði. Það, sem e. t. v. er athyglisverðast við þetta mál í heild sinni, er sú rannsóknastarfsemi, íslensk tækniþróun og hönnun sem liggur að baki þessu verkefni.

Sérstök saltvinnslunefnd, sem skipuð var í janúar 1980 til að meta hagkvæmni þess að reisa og reka saltverksmiðju á Reykjanesi í ljósi þeirra niðurstaðna sem tilraunareksturinn gæfi hefur unnið mikið starf og haft við það náið samstarf við stjórn og framkvæmdastjóra Undirbúningsfélagsins, en stjórnarformaður þess er Guðmundur Einarsson verkfræðingur og framkvæmdastjóri Finnbogi Björnsson. Í saltvinnslunefnd rn. eiga sæti — hún hefur ekki verið formlega lögð niður enn sem komið er — Finnbogi Jónsson verkfræðingur, sem er formaður, Gamaliel Sveinsson viðskiptafræðingur, Sverrir Þórhallsson efnaverkfræðingur og Þorvaldur Búason eðlisfræðingur.

Rn. gaf út álit nefndarinnar í mars s. l. undir heitinu „Sjóefnavinnsla á Reykjanesi“, og var hv. alþm. sent það til kynningar.

Fjárskuldbindingar í frv. þessu eru miðaðar við byggingu 40 þús. tonna saltverksmiðju sem auk þess mundi framleiða um 9000 tonn af kalsíumklóríði, 4000 tonn af kalí, 115 tonn af brómi, svo og vítissóda og klórafurðir. Kalsíumklór og bróm yrðu flutt út, en önnur efni seld á innanlandsmarkaði. Miðað við spá Iðntæknistofnunar Íslands um þróun íslenska saltmarkaðarins verður markaðshlutdeild innlenda saltsins um 60% þar sem heildarsaltmarkaðurinn er áætlaður um 60 þús. tonn. Ef miðað er við þróun í saltfiskverkun á undanförnum misserum má ætla að heildarmarkaðurinn verði enn stærri þegar fram í sækir.

Áætlaður stofnkostnaður er 157.65 millj. kr. og er kveðið á um að hlutafé verði að lágmarki 25% af stofnkostnaði. Hér er vissulega um að ræða allhátt hlutfall ef miðað er við það sem algengast hefur verið í atvinnurekstri hérlendis. Hins vegar er nauðsynlegt að mati rn. að þetta hlutfall sé hátt og helst um 30% þar sem framleiðslukostnaður verksmiðjunnar er að stórum hluta fjármagnskostnaður.

Vélar og tæki í verksmiðju er áætlað að nemi um 50% af stofnkostnaði og er talið að unnt eigi að vera að smíða tækjabúnaðinn að stórum hluta hér innanlands. Þarf sérstaklega að huga að því við verkframkvæmdir að alenskum fyrirtækjum verði gert kleift að gera tilboð í tækjasmíði fyrir verksmiðjuna. Aðrir helstu þættir stofnkostnaðar eru byggingar og borholuframkvæmdir sem að stórum hluta eru innlendir kostnaðarþættir og skapa vinnu fyrir allmarga starfsmenn á byggingartímanum.

Árlegar tekjur 40 þús. tonna verksmiðju eru áætlaðar 34.7 millj. kr., en árlegur rekstrarkostnaður án afskrifta og vaxta 17.1 millj. kr. Þar af nema laun og launatengd gjöld rúmlega 40%, en gert er ráð fyrir 45 starfsmönnum í verksmiðjunni. Til viðbótar þessu koma starfsmenn við akstur og flutninga á salti til markaðar sem einkum yrði á Suðvesturlandi.

Arðsemi heildarfjárfestingar fyrir skatta og miðað við fast verðlag er áætluð um 7.3%. Þessir afkastavextir verða að teljast í lágmarki, þótt þeir komi vel út samanborið við ýmsa aðra fjárfestingu sem ráðist er í á öðrum sviðum. Ekki má heldur dæma verkefnið eingöngu út frá reiknaðri arðsemi af fjárfestingu því að önnur atriði, eins og atvinnuhorfur á viðkomandi svæði og áhrif á annan iðnað, koma einnig inn í myndina þegar þjóðhagsleg arðsemi er metin.

Framkvæmdaáætlun, sem gerð hefur verið um byggingu verksmiðjunnar, sýnir að 40 þús. tonna verksmiðja gæti tekið til starfa í ársbyrjun 1985. Forsenda þess er þó sú, að framkvæmdir við 8 þús. tonna byrjunaráfanga hefjist þegar á þessu ári. Til þess þarf að útvega fjármagn sem gæti numið allt að 18 millj. kr. ef ljúka ætti þessum áfanga. Æskilegt hefði verið að þessi upphæð hefði komið inn í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun 1981. Þótt verulegar líkur hafi verið taldar á framkvæmdum við saltverksmiðjuna þegar á þessu ári við undirbúning lánsfjáráætlunar á s. l. hausti var sú leið valin að afla lánsfjárheimilda þegar lokaniðurstöður hagkvæmniathugana lægju fyrir og lög yrðu sett um verksmiðjuna. Verður þannig að reyna á það í framhaldinu hvernig unnt reynist að afla nauðsynlegs fjármagns í þessu skyni í ár.

Atvinnuhorfur á Suðurnesjum kalla vissulega á að ekki verði óþarfa dráttur við framkvæmdir við saltverksmiðjuna, en málið mundi tefjast um allt að eitt ár ef tilskildar heimildir fást ekki fyrir þinglok og framkvæmdir hefjist í sumar. Þá er þess einnig að geta, að segja yrði upp starfsmönnum tilraunaverksmiðjunnar nema framhald verði á framkvæmdum. Vænti ég þess, að þm. hafi þessi atriði í huga við afgreiðslu málsins.

Við mat á tekjum verksmiðjunnar hefur ekki verið tekið tillit til möguleika á sölu á kísilmjöli og kolsýru sem hvort tveggja fellur til við saltvinnsluna. Á vegum Iðntæknistofnunar Íslands og Orkustofnunar hafa verið í gangi athuganir á sölu og notkunarmöguleikum kísilmjöls, og er ýmislegt sem bendir til að hér geti orðið um verðmæta og mikilvæga aukaafurð að ræða.

Þá er í frv. heimild fyrir væntanlegt hlutafélag til að hefja undirbúning að framleiðslu á natriumklórati til útflutnings. Hér er um að ræða orkufrekan iðnað, miðað við 30 þús. tonna ársframleiðslu, sem mundi nota um 175 gígawattstundir af orku eða svipað magn og Áburðarverksmiðja ríkisins. Hráefni til slíkrar framleiðslu yrðu öll innlend og er áætlaður stofnkostnaður um 130–160 millj. kr. Áætlaður starfsmannafjöldi slíkrar natríumklóratverksmiðju hefur verið áætlaður 30–35 manns. Hagkvæmni slíkrar framleiðslu hér á landi byggist fyrst og fremst á að raforkukostnaður er mjög hátt hlutfall af framleiðslukostnaði og að öll hráefni eru innlend. Þar sem flutningsmagn er minna frá landinu en til landsins eru taldir möguleikar á hagstæðum samningum um flutninga á slíkri afurð.

Í saltverksmiðjunni, sem er meginatriði þessa frv., er gert ráð fyrir— fyrir utan salt — framleiðslu á vítissóda, saltsýru, hýpóklóríti og klórgasi. Hér er fyrst og fremst um að ræða framleiðslu til að fullnægja eigin þörfum verksmiðjunnar, en hluti hennar yrði einnig til sölu á innanlandsmarkaði. Með þessari framleiðslu væri kominn vísir að svokölluðum alkalíiðnaði hér á landi, en hann telst til orkufreks iðnaðar. Ákveðnir möguleikar eru fyrir hendi varðandi áframhaldandi þróun slíks iðnaðar hérlendis með útflutning í huga, en forsenda þess er þó sú, að hægt verði að skapa markað fyrir klórgas hérlendis eða flytja það út í formi annarra efnasambanda.

Að síðustu má nefna sem hugsanlegt framtíðarverkefni í tengslum við sjóefnavinnsluna framleiðslu á magnesíumklóríði og magnesíummálmi. Þar yrði um mjög stórt iðnaðarverkefni að ræða, en Iðntæknistofnun hefur nýlega skilað skýrslu til rn. um málið og mun hún berast þm. innan skamms.

Um frekari lýsingu á fyrirhuguðum framkvæmdum og rekstrargrundvelli verksmiðjunnar vísast til skýrslu saltvinnslunefndar iðnrn. sem hv. þm. hafa fengið í hendur.

Varðandi einstakar greinar frv. er rétt að taka fram eftirfarandi:

Í 1. gr. er ríkisstj. veitt heimild til að beita sér fyrir stofnun sjóefnavinnslu á Reykjanesi. Valið var heitið sjóefnavinnsla í stað saltverksmiðju þar sem verksmiðjan kemur til með að framleiða ýmis önnur efni úr natríumklóriði eða matarsalti öðru nafni og er þar um að ræða, eins og þegar hefur komið fram, kalsíumklóríð, kali, bróm, klór, natríumhypóklórít, vítissóda og saltsýru, auk hugsanlegrar þróunar annarra framleiðsluþátta, svo sem natríumklórats. Vinnslan á þessum afurðum fer fram úr jarðsjónum undir Reykjanesi og þar eru tengslin við þetta heiti: sjóefnavinnsla.

Í 2. gr. segir að samvinna skuli höfð við Undirbúningsfélag saltverksmiðju á Reykjanesi sem stofnað var samkv. lögum nr. 47/1976. Gert er ráð fyrir að ríkið eigi meiri hluta í félaginu ef ekki tekst að afla nægilegs hluta fjár frá öðrum aðilum. Ekki þótti ástæða til að setja í frv. hámark varðandi eignaraðild ríkisins, en kveðið er á um að lágmarkshlutafé skuli vera 25% af áætluðum stofnkostnaði verksmiðjunnar.

Í 3. gr. er sjóefnavinnslunni heimilað að hefja undirbúning að framleiðslu á natríumklórati. Slík framleiðsla mundi nýta afurðir sjóefnavinnslunnar, en ef út í hana verður farið þarf að taka afstöðu til rekstrarforms slíkrar framleiðslu og fjármögnunar.

Í 4. gr. er gefinn möguleiki á því, að verksmiðjan nýti þá raforku, sem unnt verður að framleiða með þeim vinnsluholum sem hún kemur til með að ráða yfir, í fyrsta lagi til eigin nota, en einnig er því haldið opnu að fyrirtækið selji afgangsraforku, en þá að höfðu samráði við aðra raforkuframleiðendur.

Í 5. gr. frv. er að finna nauðsynlegar fjáröflunarheimildir vegna byggingar verksmiðjunnar og aðildar ríkisins að hlutafélaginu. Gert er ráð fyrir hlutafjárframlögum allt að 45 millj. kr. og ríkisábyrgðum allt að 105 millj. kr., miðað við lánskjaravísitölu 1. apríl 1981. Einnig er heimild fyrir ríkissjóð til þess að greiða lán vegna rannsóknarkostnaðar Undirbúningsfélags saltverksmiðju á Reykjanesi hf., en skuldir Undirbúningsfélagsins voru um 9.5 millj. kr. í apríl 1981. Í lögum um Undirbúningsfélag saltverksmiðju er gert ráð fyrir að það selji árangurinn af starfi sínu í hendur framkvæmdaaðila og síðan verði því slitið.

Í. 6. gr. frv. er gert ráð fyrir að þetta verði m. a. gert með sameiningu Undirbúningsfélagsins og Sjóefnavinnslunnar hf.

Vegna aðildar ríkissjóðs þykir eðlilegt að hafa ekki lágmark á tölu stofnenda eða hluthafa í félaginu. Slíkar hömlur hafa reyndar flestar verið numdar úr lögum um hlutafélög í nágrannalöndum okkar. Ákvæði um þetta er að finna í 7. gr.

Í 8. gr. er heimild til að undanþiggja hlutafélagið greiðslu stimpilgjalds, m. a. vegna aðildar ríkisins að fyrirtækinu.

Í 9. gr. segir m. a. að iðnrh. og fjmrh. skipi fulltrúa ríkisins á hluthafafundum að jöfnu og að stjórnarmenn skuli kosnir eða skipaðir á aðalfundum félagsins.

Loks er áréttað í 10. gr. að félaginu beri að gera allar þær varúðarráðstafanir, sem við verður komið, til að varna tjóni á umhverfinu og gæta skuli ákvæða laga um náttúruvernd, mengunarvarnir og öryggi og hollustuhætti á vinnustað. Er ávallt mikilvægt við verksmiðjurekstur sem þennan að gæta að umhverfisvernd, bæði utan og innan vinnustaðarins.

Herra forseti. Með lögfestingu þessa frv. væri stigið mikilvægt skref í atvinnusögu Suðurnesja og áfangi næðist í uppbyggingu iðnfyrirtækis sem átt hefur sér langan aðdraganda. Ég vænti þess, að með byggingu saltverksmiðju á Reykjanesi sé lagt upp í langa og heilladrjúga vegferð þar sem byggt verði á innlendum hráefnum og orku og hugviti innlendra sérfræðinga. Þótt skammt lífi nú þessa þings vænti ég að frv. þetta verði að lögum fyrir þinglok, m. a. með samvinnu iðnn. beggja deilda við athugun málsins hér í þinginu.

Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. iðnn.