06.05.1981
Neðri deild: 88. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4035 í B-deild Alþingistíðinda. (4129)

315. mál, Bjargráðasjóður

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Eins og fram kemur í 1. gr. frv. er ekkert kveðið á um það í frv., hver skuli vera kjör á þeirri fyrirgreiðslu sem hér um ræðir og á að koma frá Bjargráðasjóði. Það er ekki minnst á það einu orði í frv. að hér skuli vera um verðtryggð lán að ræða ellegar að hér skuli ekki vera um verðtryggð lán að ræða eða hér geti verið um styrki að ræða o. s. frv. Þetta atriði er ekki lögfest. Svo hefur yfirleitt ekki verið þegar um hliðstæða fyrirgreiðslu hefur verið að ræða á fyrri árum. Ég vil vekja á því athygli, að fyrir réttu einu ári var samþykkt á Alþingi heimild handa fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs til að ábyrgjast lán sem Bjargráðasjóður átti að taka á þeim tíma, en þau lán átti að veita vegna uppskerubrests og annarra afleiðinga af hörðu vori og sumri árið 1979. Frv. gr. var þá nákvæmlega eins orðuð og hún er orðuð hér og raunar var um nákvæmlega sömu upphæð að ræða. Mér er því nær að halda að það skeiki ekki ýkjamörgum orðum í þessu frv. miðað við það frv.

Eftir að frv. verður að lögum verður að sjálfsögðu að taka það atriði til ákvörðunar með hvaða kjörum þessi lán verða veitt, með líkum hætti og gert var þegar frv. var samþykkt í fyrra og varðaði þá hagsmuni landbúnaðarins. Ef ég man rétt var gerð töluvert ítarleg úttekt á því, hvað væri eðlilegt í þeim efnum, hvað hefði verið gert í þeim efnum og hvernig á þeim þyrfti að taka miðað við þá ábyrgð sem sjóðurinn tók á sig með þeim lánveitingum. Niðurstaðan varð sú, að þar var ekki um að ræða verðtryggð lán, en þó lán með allnokkrum vöxtum. Mig minnir að lánskjörin væru ekki langt frá því sem er um lánveitingar úr Byggðasjóði.

En um þetta atriði er vafalaust ekki ástæða til að fjalla nú. Hér er fyrst og fremst farið fram á lántökuheimild, en sjóðsstjórn verður að höfðu samráði við ríkisstj. að taka endanlega ákvörðun um lánskjörin þegar þar að kemur.