07.05.1981
Neðri deild: 89. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4067 í B-deild Alþingistíðinda. (4183)

174. mál, fiskveiðilandhelgi Íslands

Forseti (Sverrir Hermannsson):

Skilað var nefndarálitum í þessu máli hinn 19. mars og síðan hefur uppstyttulaust verið nauðað á mér um það af hv. þm. sitt á hvað að taka þetta mál út af dagskrá og ekki orðið uppstytta á því nema snöggvast í páskahléinu. Þessu mun ekki fram haldið með þessum hætti. Alltaf eru einhverjir hæstv. ráðh. til andsvara ef upplýsinga þarf með, fyrir nú utan það sem þetta frv. er örstutt og afar skýrt hvað um er að tefla. Þar við bætist að hv. sjútvn. hlýtur að hafa sent málið til umsagnar og kallað á þá menn sem upplýsingar áttu að veita.

Ég mun fallast á að þetta mál verði ekki tekið til umr. í dag, en það verður þá á morgun og þá verður látinn ganga í því leppurinn og þvaran.