07.05.1981
Neðri deild: 89. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4074 í B-deild Alþingistíðinda. (4206)

180. mál, meðferð mála vegna rangrar notkunar stöðureita

Frsm. (Jósef H. Þorgeirsson):

Herra forseti. Allshn. Nd. hefur haft til athugunar frv. til l. um sérstaka meðferð mála vegna rangrar notkunar stöðureita fyrir ökutæki o. fl. Eitt megininntak þessa frv. er það að hætta að líta á brot eða ranga notkun stöðureita sem refsivert athæfi og taka heldur upp þann hátt að krefja bifreiðaeigendur um sérstakt aukaleigugjald ef þeir brjóta gegn reglum þeim sem um stöðureiti gilda.

Nefndin hefur athugað þetta frv. rækilega og haft til meðferðar umsagnir nokkurra aðila um það. Einnig komu á fund nefndarinnar til viðtals Ólafur Walter Stefánsson úr dómsmrn. og Gunnar Eydal og Guttormur Þormar frá Reykjavíkurborg. Þeir höfðu, sérstaklega fulltrúar Reykjavíkurborgar, ýmsar aths. fram að færa við þetta frv. Eftir allítarlegar umr. í n. varð niðurstaðan að flytja tvær brtt. varðandi frv.

Önnur breytingin felst í því, að í stað þess, að í frv. er gert ráð fyrir að aukaleigugjaldið renni í ríkissjóð, legg;um við til að í þeim sveitarfélögum þar sem sveitarstjórnir samþykkja að taka eftirlit með stöðureitum í eigin hendur og launa stöðumælaverði, jafnframt því sem sveitarstjórnirnar kosta uppsetningu stöðumæla og viðhald þeirra og eiga einnig sjálfa stöðureitina, renni þetta aukaleigugjald í viðkomandi sveitarsjóð, en ekki í ríkissjóð, eins og er samkv. núverandi fyrirkomulagi og er eðlilegt þegar lítið er svo á að gjald þetta sé sekt eða refsing fyrir brot. En þar sem svo verður ekki litið á framvegis, ef þetta frv. verður að lögum, er jafnframt eðlilegt að gjaldið falli til sveitarsjóðs.

Hin breytingin, sem nefndin leggur til að gerð verði á frv., varðar það atriði að í 7. gr. frv. er ráð fyrir því gert, að gjald samkv. 2. gr., þ. e. svokallað aukaleigugjald, njóti lögtaksréttar og lögveðs í viðkomandi ökutæki. Jafnframt eru ákvæði um það í 7. gr., að þetta lögveð gangi á undan öllum öðrum veðum nema lögveði vegna bifreiðagjalds og iðgjalda vegna lögboðinna ábyrgðartrygginga af ökutæki.

Nefndin lítur svo á að þetta sé varhugavert, því að mjög algengt er að í viðskiptum manna á milli séu bifreiðar notaðar sem andlag veðs. Það er því mikilsvert öryggisatriði fyrir þann sem á veð í bifreið, að hann viti hvaða veðréttir eru á undan veðrétti hans. En ef þetta yrði gert með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í frv., þá veit hann ekki fyllilega hvar hann stendur. Þess vegna leggur nefndin til að þetta forgangsveð verði afnumið. Eftir sem áður verði lögveð í bifreiðunum fyrir aukaleigugjaldinu, en hins vegar njóti það ekki forgangs umfram samningsveð.