11.05.1981
Sameinað þing: 82. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4204 í B-deild Alþingistíðinda. (4327)

388. mál, utanríkismál 1981

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að taka utanríkismálin á dagskrá á þessum venjulega reglulega fundartíma hér á hv. Alþingi þannig að það gefist góður tími til að fjalla um þessi mál hér.

Ég ætla ekki á þessu stigi málsins, heldur frekar síðar í umr., að svara ýmsum atriðum sem fram komu í ræðu hv. þm. Benedikts Gröndals og Geirs Hallgrímssonar. Ástæðurnar eru fyrst og fremst þær, að það hefur orðið að samkomulagi hjá okkur að reyna að ná tíma fyrir þingflokkana núna kl. 5, þannig að ég mun reyna að haga máli mínu í samræmi við það.

Það var hins vegar mjög athyglisvert í ræðu hv. þm. Benedikts Gröndals áðan, að hann eyddi mestum tíma ræðu sinnar til þess að fjalla um skýrslur, sem fram voru lagðar á landsfundi Alþb., og í raun og veru miklu lengri tíma í þær skýrslur en hann eyddi í að fjalla um skýrslu utanrrh. sem þó er hér á dagskrá. Fagna ég því, að hv. þm. Benedikt Gröndal skuli telja ástæðu til þess og nauðsyn að fjalla um þessi plögg Alþb. með sérstökum hætti, eins og hann gerði áðan, þó hann rangtúlkaði flest og sneri út úr mörgu.

Í umr. um skýrslu utanrrh. er eðlilegt að komið sé víða við í samskiptum Íslendinga við aðrar þjóðir svo og reynt að skyggnast fram og átta sig á því, hvað blasir við þjóðinni á næstu árum og áratugum, að svo miklu leyti sem það er unnt. Þá er að sjálfsögðu eðlilegt að farið sé yfir aðdraganda þeirrar stöðu í utanríkismálum sem Íslendingar eru nú í, einkum og sér í lagi að velta fyrir sér herstöðvamálinu og þróun þess, ekki síst með tilliti til þess, að fyrir fáeinum dögum var þess minnst hér í landinu að 30 ár voru liðin frá því að bandaríski herinn kom hingað á nýjan leik.

Hernám Bandaríkjamanna þá var samþykkt, eins og kunnugt er, af Alþfl., Framsfl. og Sjálfstfl. Það var samþykkt án þess að þing væri kallað saman. Þar voru aðeins kvaddir saman þm. þessara þriggja flokka sem tóku sér vald sem þeir þó áttu ekki, utan þings, til að heimila erlendu ríki herstöðvar í þessu landi. Síðan skreyta þessir flokkar sig með nafninu „lýðræðisflokkar“ af miklum hroka og mannfyrirlitningu, eins og margoft kemur fram í ummælum talsmanna þeirra hér á Alþingi í dag. Hér var vitaskuld um að ræða stjórnarskrárbrot, enda þótt Alþingi hafi verið látið samþykkja bandarísku herstöðvarnar eftir á, þ. e. um haustið þegar þingið kom saman á nýjan leik. En vorið 1951 voru það þm. sem komu saman til fundar, eftir að Alþingi hafði verið slitið, til að leggja blessun sína yfir hið bandaríska hernám. Hér var ekki um að ræða neitt annað en stjórnarskrárbrot og tilraun til að brjóta niður í þágu Bandaríkjamanna hið lýðræðislega valdakerfi á Íslandi sem grundvöllur hafði verið lagður að með stjórnarskrá okkar og með ákvörðun um stofnun lýðveldis árið 1944.

Menn hafa lengi velt því fyrir sér, hvernig á því hafi staðið að Bandaríkjamenn komu einmitt á þessum tíma og einmitt með þeim hætti sem það gerðist, af hverju þeir hafi ekki lagt fram beiðni um það til Íslendinga, að þeir fengju að hafa hér herstöðvar, sem síðan hefði hlotið venjulega meðferð á Alþingi Íslendinga áður en herinn kæmi inn í landið. Þessar vangaveltur hafa raunar staðið yfir æ síðan, allt frá árinu 1951, en margt bendir nú til þess eftir upplýsingum, sem fram hafa komið úr breskum og bandarískum skjölum frá árunum 1945–1950, að bandaríski herinn og Bandaríkjastjórn hafi kosið þessa aðferð beinlínis vegna ráðlegginga frá íslenskum yfirvöldum, vegna þess að þau treystu sér ekki til þess að fallast á beiðni sem kæmi hingað eftir venjulegum leiðum. Um þetta er m. a. fjallað í frásögn af leyniskjölum breska utanrrn. frá árunum 1945–1948. Í þeim kemur fram, að það eru þrjú aðalmál sem mest ber á. Þar er fylgst í fyrsta lagi með þróun efnahagsmála á Íslandi, með stjórnmálaþróuninni og þá sérstaklega fylgi Sósíalistaflokksins og síðan er hernaðarlegt mikilvægi Íslands tengt báðum þessum málum.

Í þessum skýrslum kemur fram hvernig Bretar og Bandaríkjamenn leggja á það áherslu að reyna að afla markaða fyrir fisk frá Íslandi til að koma í veg fyrir pólitísk áhrif íslenskra sósíalista. M. a. leggja bresk og bandarísk stjórnvöld á ráðin um það, að héðan verði keypt um 70 þús. tonn af fiski gagngert í því skyni að koma í veg fyrir að íslenskir sósíalistar verði aðilar að ríkisstjórn Íslands. Jafnframt kemur það fram í þessum bresku leyndarskjölum frá 1945–1948, að íslenskir ráðamenn kvörtuðu beinlínis yfir því, að Bandaríkjamenn skyldu hafa beitt þeim aðferðum að leggja fram opinbera beiðni um herstöðvar á Íslandi til 99 ára. Miklu betra hefði verið ef Bandaríkin hefðu ósköp einfaldlega tekið sér þessar herstöðvar án þess að leggja fyrst fram opinbera beiðni. Breski sendiherrann segir í bréfi sínu 2. okt. 1945 t. d. á þessa leið:

Forsrh.“ — þ. e. íslenski forsrh. — „ætlar samt augljóslega að styðja umsóknina“ — þ. e. um bandarískar herstöðvar á Íslandi — „og sagði að miklu auðveldara hefði verið ef Bandaríkjamenn hefðu tekið einhliða ákvörðun í stað þess að biðja um stöðvarnar.“

29. okt. segir í skeyti frá breska sendiherranum á Íslandi, Shepherd, að Ólafur Thors, forsrh. Íslands, hafi ítrekað þessa skoðun, og orðrétt segir sendiherrann, að Ólafur Thors hafi látið í ljós vonbrigði með „að Bandaríkjamenn og við hefðum ekki haldið áfram hernámi Íslands í eitt eða tvö ár í viðbót í stað þess að valda slíkri kreppu á þessu stigi“.

Það kemur einnig ákaflega skýrt fram í þessum bresku leyndarskjölum, að þegar Bandaríkjamenn lögðu fram óskir um herstöðvar á Íslandi til langs tíma voru þeir auðvitað fyrst og fremst að hugsa um svokallaða öryggishagsmuni Bandaríkjamanna, en litu ekki á þetta sem ráðstáfanir til að tryggja alþjóðlegt öryggi eða frið. Það kemur beinlínis í ljós í þessum skjölum, að setið var á svikráðum við þá grundvallarhugsjón sem lá að baki stofnunar Sameinuðu þjóðanna á þessum tíma. Af þeim ástæðum fóru Bretar fram á það við Bandaríkjamenn, að þeir frestuðu því að biðja um herstöðvar á Íslandi til langs tíma þar til Ísland væri orðið aðili að Sameinuðu þjóðunum. Þetta kemur fram í þessum leyniskjölum bandaríska hersins. M. a. stendur þar á þessa leið:

„Mikilvægum hagsmunum Bretlands væri fórnað með dvöl bandarískra herja í föstum herstöðvum á Íslandi. Á hinn bóginn er það aðaláhugamál stjórnar hans hátignar að Sameinuðu þjóðirnar verði árangursrík samtök. Fram hjá því verður ekki lítið, að flýtir Bandaríkjanna við að tryggja sér aðstöðu á Íslandi og einnig Azoreyjum og á ákveðnum svæðum Breta og bandamanna á Kyrrahafi áður en gengið er til alþjóðasamstarfs kunni að vekja illan bifur hjá Rússum og eyðileggja alþjóðasamstarfið um öryggi áður en á það hefur reynt.“

Á þessum tíma beittu Bandaríkjamenn og Bretar áhrifum sínum m. a. á einstaka forustumenn stjórnmálaflokkanna á Íslandi, ekki síst á forustumenn Framsfl. sem var að þeirra mati tregur í taumi að sögn breska sendiherrans á þessum árum. Segir orðrétt í einu bréfanna um þessi mál:

„Því miður hefur reynst árangurslaust að fá framsóknarmenn til að ganga í þetta bandalag, því að leiðtogi þeirra“ — sem var Hermann Jónasson — „ætlar sér að nota tækifærið og fella ríkisstj. í þeirri von að geta sjálfur myndað nýja ríkisstj. Þeir“ — þ. e. bandaríski sendiherrann og Cummings — „stungu því upp á að heilladrýgst yrði að ræða málin opinskátt við Vilhjálm Þór fyrrum utanrrh., sem er einn af hæfustu og duglegustu framsóknarmönnum þrátt fyrir að hann sé ekki þm., en hann reynir nú að kljúfa flokkinn til að ætlun formannsins nái ekki fram að ganga. Ég gerði þetta því“— heldur áfram — „vegna þess að ég tel málið mikilvægt í alþjóðlegum skilningi og mun leggja á það áherslu við formann Framsfl. og talsmenn hans, að það sé ekki aðeins mikilvægt í flokkslegum skilningi þeirra að Ísland standi á krossgötu á sjálfstæðisbraut sinni frá 1944 og þetta sé stórkostlegt tækifæri fyrir formann Framsfl. til að breyta sem föðurlandsvinur og stjórnvitringur til framtíðarheilla fyrir land sitt. Hr. Þór þakkaði mér,“ segir breski sendiherrann enn fremur, „og lýsti yfir ánægju sinni vegna viðhorfa stjórnar hans hátignar, sem yrðu stuðningur í viðureign hans við aðra framsóknarmenn, og tilkynnti þá ætlun sína að nota þessi rök nú þegar í lokatilraun til að sannfæra formann Framsfl.“

Eins og kunnugt er tókst þetta ekki og niðurstaðan í afstöðu Alþingis til Keflavíkursamningsins var sú, að samningurinn var að vísu samþykktur á Alþingi, en með 32 atkv., 19 voru á móti.

Á þessum árum kom beinlínis til tals, eins og ég gat lítillega um áðan, að beita þeirri hótun gagnvart Íslendingum að þeir fengju ekki aðild að Sameinuðu þjóðunum nema Bandaríkjamenn fengju hér herstöðvar. Um þetta segir breski sendiherrann t. d.:

„Bandaríkjamenn höfðu uppi tilburði til að nota loforð um að styðja inngöngu Íslands í Sameinuðu þjóðirnar til að fylgja eftir beiðni þeirra um herstöðvar. Þetta náði þó aldrei langt og Ísland var formlega tekið inn í Sameinuðu þjóðirnar 2. nóv. 1946 án mótmæla.“

Hér var m. ö. o. öllum tiltækum ráðum beitt til að hafa áhrif á íslensk stjórnvöld og niðurstöðuna hér: Fiskkaupum í fyrsta lagi. Í öðru lagi áttu sér stað leynilegar viðræður íslenskra ráðamanna allt frá lýðveldisárinu 1944 við bandaríska ráðamenn um það, hvernig best væri að haga áframhaldandi hernámi landsins og um að kljúfa jafnvel einstaka stjórnmálaflokka í landinu. Þegar Bandaríkjamenn létu sér detta í hug að fara að þessu venjulega leið, með því að leggja fram opinbera beiðni um slíkt árið 1950 eða snemma á árinu 1951, voru þeir víttir af íslenskum ráðamönnum og sagt að ef þeir ætluðu sér að ná árangri í herstöðvamálinu ættu þeir einfaldlega að hertaka landið án þess að spyrja kóng eða prest áður. Það kemur einnig fram í þessum skýrslum, að beinlínis datt mönnum í hug að nota sér áhuga Íslendinga á að verða aðilar að Sameinuðu þjóðunum til að knýja það fram að bandaríski herinn fengi varanlega aðstöðu í landinu. Svona lágt var lagst á þessum tíma. Og það er fróðlegt að lesa einmitt nú, þegar 30 ár eru liðin frá bandaríska hernáminu árið 1951, ummæli, sérstaklega Morgunblaðsins, um þessi mál þar sem talað er ítrekað um samstöðu ákveðinna þriggja flokka, svokallaðra lýðræðisflokka, um herstöðvamálið. Staðreyndin er sú, að hér er fyrst og fremst um að ræða samstöðu um þögnina, þögn smánarinnar, sem umlykur upphafsár hernámsins á Íslandi, því að á sömu dögum og Íslendingar voru að fagna sjálfstæði sínu heitum og heilum huga um allt land stóðu ákveðnir menn í leynimakki við breska og bandaríska ráðamenn um hvernig ætti að koma hernámi Íslands fyrir, en ekki hvort erlendur her ætti að vera í landinu um aldur og ævi.

Saga bandaríska hernámsins á Íslandi er saga um feluleik þar sem samstaða lýðræðissinnanna svokölluðu, sem Morgunblaðið kallar svo, hefur fyrst og fremst snúist um að koma í veg fyrir að almenningur í landinu fengi að vita hvaða störf það eru sem bandaríska hernámsliðið á Keflavíkurflugvelli hefur stundað. Íslendingar voru dregnir inn í NATO með þeim rökum að hernaðarinnrás frá Sovétríkjunum væri yfirvofandi og Íslendingar voru fengnir til að samþykkja bandarísku hersetuna árið 1951 þrátt fyrir mótmæli yfirgnæfandi meiri hluta þjóðarinnar á þeim sömu forsendum, að hernaðarinnrás frá Sovétríkjunum væri yfirvofandi. Þó vitum við það nú, eftir að bandarísku og bresku leyniskjölin frá árunum 1944–1950 hafa verið birt, að ástæðurnar voru allt aðrar. Ástæðurnar voru einkum þær, að Bandaríkjastjórn lagði alla áherslu á að koma í veg fyrir að íslenskir sósíalistar gætu haft áhrif hér í þessu landi, eins og lýðræðislegur réttur þeirra stóð til, og til þess að tryggja jafnframt svokallaða öryggishagsmuni Bandaríkjanna.

Allt frá árinu 1951 og árinu 1949, þegar Ísland gekk í Atlantshafsbandalagið, hefur staðið yfir hörð barátta um hvort bandaríski herinn ætti að vera hér í landinu eða ekki. Alþb. og Sósíalistaflokkurinn hafa einir íslenskra stjórnmálaflokka barist gegn bandarísku hersetunni og aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Hluti annarra flokka hefur einnig stutt kröfuna um brottför bandaríska hersins. Þessi barátta er orðin löng og hún er orðin ströng. Henni verður þó að sjálfsögðu haldið áfram. Íslenskir herstöðvaandstæðingar hafa á þessum áratugum iðulega orðið að sæta því, að áhugamálum þeirra hafi miðað býsna skammt, en það breytir ekki því, að hugsjónir þeirra um friðlýst Ísland eiga engu að síður rétt á sér nú en þær gerðu í öndverðu. Staðreyndin er að eftir 1951 hefur í meginatriðum tekist að koma í veg fyrir að Bandaríkjamenn næðu hér frekari fótfestu en þá þegar varð. Það hefur þó verið reynt síðan, t. d. 1955 og 1956. Þá lá fyrir að Bandaríkjamenn höfðu áhuga á að koma sér enn betur fyrir, og þá var hafinn undirbúningur að því að koma upp nýjum herstöðvum á Íslandi. Samþykkt Alþingis í mars 1958 varð hins vegar til þess, að það var sett stórt spurningamerki við Ísland á kortum herforingjanna í Pentagon og síðan hafa Bandaríkjamenn ekki óskað eftir að fá hér fleiri herstöðvar í landinu.

Bandaríkjamenn hafa beitt hér ýmsum aðferðum. Það hefur verið beitt gylliboðum af margvíslegum toga. Það er staðreynd, sem liggur fyrir, að talsverður hópur Íslendinga hefur á þessum áratugum átt margs konar viðskipti við herinn og haft af því verulega fjármuni. Ekki þarf að fara langt til að finna fjársvikamál sem stunduð hafa verið í tengslum við bandaríska herinn. Stærsta málið er þó svokallað olíumál. Marshall-féð kom þarna einnig við sögu og það hefur jafnan verið viðurkennd aðferð hjá Bandaríkjamönnum að beita ekki aðeins fortölum, heldur einnig fégjöfum til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Eitt alvarlegasta tilræði Bandaríkjamanna á þessum tíma við sjálfstæði íslensku þjóðarinnar var herstöðvasjónvarpið sem náði um tíma inn á annað hvert heimill hér á þéttbýlissvæðinu eða til um það bil þriðjungs Íslendinga að talið var. Það er einn besti áfangi herstöðvaandstæðinga á þessum árum þegar vinstri stjórninni 1971–1974 tókst að knýja fram lokun bandaríska hermannasjónvarpsins, en það er geymt, en ekki gleymt að á Alþingi Íslendinga voru þá menn sem fluttu beinlínis tillögur um að opna fyrir bandaríska hermannasjónvarpið á ný er því hafði verið lokað.

Það er athyglisvert að fylgjast með því, hvernig þessum málum er háttað nú, hvernig Íslenskir aðalverktakar, sem hér voru nefndir áðan, virðast hafa rakað saman gróða af umsvifum sínum á vellinum og festa hann í steinsteypuhöllum hér í bænum og geyma á bankareikningum í stærstu ríkisbönkunum. Það er einnig athyglisvert að horfa upp á það þegar trúnaðarmenn hermangsins blygðunarlaust ganga fram fyrir skjöldu til undirbúnings prófkjörum í flokkum sínum á sama tíma og þeir gegna störfum við að selja rusl fyrir Ameríkanann hér á þéttbýlissvæðinu. Hér er margt orðið rotið og margt orðið spillt, en þó fer því víðs fjarri að baráttan gegn bandarísku herstöðinni hafi lagst niður á nokkurn hátt. Þvert á móti er það svo, að á undanförnum árum hefur mjög vaxandi hópur ungs fólks gert sér grein fyrir hvaða hætta það er sem fylgir bandarísku herstöðinni fyrir efnahagslegt og stjórnarfarslegt sjálfstæði Íslendinga og menningarlega stöðu okkar, sögu og umgengni okkar við þá arfleifð sem fyrri kynslóðir skildu eftir okkur til ráðstöfunar og varðveislu.

Nú á síðari misserum hafa ný viðhorf í herstöðvamálinu skapað nýja umræðu um þessi mál. Komið hefur fram að Bandaríkjamenn eru að koma sér upp nýrri tegund búnaðar í Keflavík. Ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar ákvað að leyfa staðsetningu svokallaðra AWACS-flugvéla á Keflavíkurflugvelli, en sú ákvörðun var tekin á lokaspretti valdaferils þeirrar ríkisstj., á sama tíma og fyrirheitin um fjármögnun flugstöðvarinnar frægu voru veitt af hálfu Bandaríkjamanna.

Það var upp úr 1960 eða svo, eða fyrir um það bil 20 árum, að breytingar hófust á hernaðarkerfi Bandaríkjamanna á Norður-Atlantshafi. M. a. var í þessum breytingum gert ráð fyrir möguleikum á öflugri kafbátahernaði en verið hafði áður, og þar var gert ráð fyrir að tengja hernaðarkerfi Bandaríkjanna á Norður-Atlantshafi beint við kjarnorkuvopnakerfi Bandaríkjamanna. Á þessum 20 árum hefur verið unnið að því markvisst af Bandaríkjastjórn að tengja herstöðina í Keflavík við þetta kjarnorkuvopnakerfi, og það er talið með óyggjandi rökum að Keflavíkurherstöðin sé nú orðin mikilvæg stjórnstöð í kjarnorkuvopnakerfi Bandaríkjanna á gjörvöllu Norður-Atlantshafi og jafnframt hafi herstöðin nú nýju hlutverki að gegna, eftir að AWACS-vélarnar komu til sögunnar, og stöðin sé í reynd einnig árásarstöð að dómi erlendra hernaðarsérfræðinga, en ekki aðeins varnarstöð eða viðvörunarstöð, eins og hefur verið haldið fram í þessum umr.

Mikilvægur hlekkur í þessu heildarstjórnunarkerfi Bandaríkjanna í Norður-Atlantshafi er svokallað SOSUS-kerfi, eins og hv. þm. Benedikt Gröndal nefndi áðan. Þetta kerfi hefur verið lagt út frá ströndum Íslands og út í Atlantshafið til að gera Bandaríkjamönnum kleift að fylgjast með og stýra héðan kafbátahernaði. Annar mikilvægur áfangi þessara áætlana var koma Orion-vélanna og Phantom-flugvélanna sem í senn stunda þjónustu við kafbátakerfið og hafa auk þess búnað til að bera kjarnorkusprengjur. Allir þessir þættir hafa orðið til þess að herstöðin í Keflavík gegnir nú öðru hlutverki en áður var. Herstöðin í Keflavík er að verða eins konar miðpunktur í kjarnorkuvopnakerfinu á Norður-Atlantshafi og hún er beinn tengiliður við stjórnstöðvar hernaðarkerfis Bandaríkjanna, sem fær boð í gegnum gervihnetti Atlantshafsbandalagsins, en það var einnig ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar sem heimilaði að fjarskiptabúnaður NATO gagnvart gervitunglum yrði mjög endurbættur, en sú heimild var veitt á árinu 1977.

Ég hef út af fyrir sig ekki trú á því, að þeir íslenskir ráðamenn, sem heimiluðu þennan búnað, lagningu SOSUS-kerfisins hérna út í Atlantshafið, Orion- og Phantom-vélarnar og AWACS-vélarnar, hafi gert sér að fullu grein fyrir því í öllum tilvikum hvað þeir voru að gera vegna þess að hér er um að ræða alvarlegt skref í á átt að auka hættuna á að árásir verði gerðar á Ísland. Ég hef ekki trú á að nokkrir sæmilega vel meinandi einstaklingar, jafnvel þótt þeir tilheyri þeim flokkum sem vilja styðja herstöðina hér í landinu, geti í raun með opnum augum samþykkt slíkt.

Núna að undanförnu, eftir að Þjóðviljinn, þm. Alþb. og Samtök herstöðvaandstæðinga hafa tekið að gera grein fyrir þessum auknu umsvifum Bandaríkjamanna, höfum við reynt að gera ítrekaðar tilraunir til að fá hina flokkana og talsmenn þeirra til að ræða um þessi mál af verulegri alvöru. Við höfum bent á að samkv. nýjustu áætlunum stórveldanna sé núna beinlínis gert ráð fyrir að unnt verði að heyja svokallað „takmörkuð kjarnorkustríð“, og við höfum bent á að hætta sé á að herstöðin á Íslandi verði þannig útbúin að forsendur til þátttöku í slíku takmörkuðu kjarnorkustríði skapist hér á Íslandi. Við höfum ekki fengið undir þetta verulegar undirtektir meðal forustumanna hinna flokkanna, en þó hef ég orðið var við að allur almenningur í landinu gerir sér það ljóst. Jafnvel þó að þetta fólk hafi stutt NATO-flokkana gera menn sér betur og betur grein fyrir þeim háska sem hér getur verið fram undan.

Það var athyglisvert í þessu sambandi, að á sama tíma og ofstækisfyllstu áróðursmenn ameríkanismans hér á Íslandi halda því fram, að herstöðin hér á landi sé einungis varnarherstöð og ekkert annað, kemur hingað til lands norskur hermálasérfræðingur, Anders Hellebust, og lætur hafa við sig blaðaviðtöl um herstöðvarnar á Íslandi og í Noregi. Anders Hellebust lauk námi við norskan herskóla og tók magisterspróf í stjórnmálafræðum, vann í skóla norska herforingjaráðsins, en hætti að þjóna norska hernum fyrir um það bil tveimur árum. Hann vinnur núna við blaðamannaskólann norska og kennir þar félagsfræði og kom hingað með stórum hópi blaðamanna sem voru að kynna sér ýmsa íslenska málaflokka.

Árið 1975 birti hann úttekt á Loran C-stöðvunum í Noregi og vakti mjög mikla athygli í kosningunum í Noregi sem þá fóru í hönd. Í þessari úttekt kom fram að tilgangur stöðvanna væri að gefa siglingaleiðbeiningar til Polaris-kafbáta. Það var sett sérstök nefnd til að kanna þessar staðhæfingar á þeim tíma. Þessar stöðvar hafa einnig það hlutverk að miðla fyrirmælum til bandarískra kafbáta frá stjórnstöð í Bandaríkjunum og að sjálfsögðu geta slíkar stöðvar verið þýðingarmikil skotmörk í stríði, eitt af því sem Rússar mundu fyrst reyna að eyðileggja, segir Anders Hellebust í blaðaviðtali hér á dögunum. Síðan segir hann orðrétt í blaðaviðtali við Þjóðviljann 7. maí 1981:

„Ég frétti að Íslendingar hefðu verið að deila um AWACS-flugvélarnar. Mér finnst það viðhorf rétt, að staðsetning þessara flugvéla fær Keflavíkurherstöðinni annað og meira hlutverk í hernaðarkerfi Bandaríkjanna en áður hefur verið. Hinn mikli og flókni búnaður þeirra véla er gífurlega þýðingarmikill til stjórnar og samræmingar á athöfnum flugsveita í stríði. NATO segir venjulega að hér sé um varnartæki að ræða sem fylgist með hugsanlegum árásartilburðum Rússa, en þær eru alveg eins sóknarvopn. Þær geta séð, “ eins og hann orðar það, „500 mílur inn í sovéskt land, stjórnað árásarflugsveitum og margfaldað afköst þeirra.

Sumir halda því meira að segja fram, að ef Bandaríkjamenn hefðu átt AWACS-vélar í Víetnam-stríðinu hefðu þeir getað greitt Norður-Víetnam miklu þyngri högg en þeir gerðu með svipuðum árásarmætti. Þessar vélar ern svona óheillakrákur,“ segir hann, „sem sendar eru á vettvang hvenær sem eitthvað er á seyði, milli Írans og Íraks t. d. eða þá í Póllandi, þegar vélar voru sendar frá Íslandi til Vestur-Þýskalands.“

Í þessu blaðaviðtali bendir Anders Hellebust á það, að nú séu uppi ný viðhorf sem smáþjóðirnar þurfi að taka tillit til. Það sé hætta á að ófara stórveldis í einum heimshluta verði hefnt í öðrum heimshluta. Hann segir orðrétt:

„Ég hef fylgst með yfirheyrslum í bandaríska þinginu, þar sem flotaforingjar hafa haft hátt um nauðsyn þess, að Bandaríkjamenn hafi sig meira í frammi í Noregshafi, byggi upp nýja herstjórnarlist sem miði að því að loka Rússa inni í Barentshafi. Þetta er ekki ný stefna. Hún hefur verið í gildi í 4–5 ár og við þessa stefnu er tengt ýmislegt það sem öryggi Íslands og Noregs er hættulegast. Það gæti gerst á þann veg að Sovétríkin og Bandaríkin lentu í árekstrum einhvers staðar annars staðar í heiminum, t. d. við Persaflóa. Eins og Harold Brown, fyrrum varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, lét uppi við International Herald Tribune gætu Bandaríkjamenn talið það skynsamlegt að mæta slíkum árekstrum með mótaðgerðum í Evrópu, jafnvel allt norður í Noregi. En með þessu móti,“ heldur hann áfram, „gætu Ísland og Noregur dregist inn í átök risaveldanna sem eiga upptök innan NATO-svæðisins, inn í stigmögnun sem e. t. v. endaði með árás Sovétmanna á Norður-Noreg í því skyni að brjótast út úr kvínni.“

Norski hermálasérfræðingurinn leggur á það mjög þunga áherslu, að það, sem varast beri í þessum efnum, sé í rauninni tiltölulega einfalt. Hann segir:

„Það, sem máli skiptir, er sá útbúnaður sem Rússar telja mikilvægan og hættulegan: SOSUS-stöðvarnar, radarstöðvarnar, elektrónískar njósnastöðvar. Ef menn vilja hafa skynsamlega stefnu í varnarmálum á Íslandi sem í Noregi, skynsamlega í þeim skilningi að menn séu ekki að auka stríðshættu, þá eiga menn að beita sér gegn öllum þeim mannvirkjum og útbúnaði sem beinlínis haggar svokölluðu jafnvægi óttans í þá veru að annar aðilinn, hér Bandaríkin, fái aukna möguleika á því að greiða fyrsta högg.“

En hvernig litur staðan út hér á Íslandi og á Norður-Atlantshafinu ef bandaríski herinn færi héðan? Við Alþb.-menn höfum svarað þeirri spurningu, en hvert er svar hins norska hermálasérfræðings? Hann segir:

„Því er það svo, að jafnvel þótt bandaríski herinn færi frá Íslandi, þá fer því fjarri að verið væri að opna dyrnar fyrir Rússum. Bandaríkjamenn munu alltaf eiga miklu auðveldara með að taka Ísland ef þeim þurfa þætti en Rússar, sem þyrftu að fljúga yfir ýmsar hindranir á leiðinni til Íslands meðan ekkert hindrar Bandaríkjamenn.“

Í lok þessa blaðaviðtals kemst hermálafræðingurinn svo að orði:

„Eins og við vitum er mikið rætt um öryggismál í Evrópu núna. Mér hefur verið það mikið ánægjuefni að sósíaldemókratískir flokkar hafa haft frumkvæði um að endurskoða ýmis viðhorf og leitast við að byggja upp þriðja sjónarmiðið, valkost fyrir Evrópu í varnarmálum.

Ég hef sérstaklega dáðst að hollensku verkalýðshreyfingunni, sem hefur haft sig mjög í frammi í þessum málum. Við höfum ekki stutt nóg við bakið á slíkri viðleitni. Sem betur fer fer þó vaxandi gagnrýni og andstaða við fyrri stefnu í Verkamannaflokknum norska. Það er mikil nauðsyn okkar tíma að finna kost sem gerir Evrópuþjóðum kleift að fá Bandaríkjamenn til meiri varkárni og hefði vissulega sín áhrif í Varsjárbandalaginu líka.“

Hér kemur hinn norski hernaðarsérfræðingur að ákaflega mikilvægum þætti í öryggismálum Evrópu um þessar mundir. Stórveldin hafa í vaxandi mæli verið að koma fyrir eldflaugum og kjarnorkuvopnabúnaði í Vestur-Evrópu og í Austur-Evrópu, sitt hvorum megin við járntjaldið sem svo var kallað í eina tíð. Það er talað um það af forráðamönnum norskra og sænskra sósíaldemókrata að hér sé í raun og veru verið að koma upp því ástandi að Evrópa geti orðið eins konar gísl stórveldanna í hernaðarátökum, að það sé hugsanlegt að heyja takmarkað kjarnorkustríð án þess að slíkt komi niður á miðstöðvum stórveldanna, Asíuhluta Sovétríkjanna ellegar á meginlandi Ameríku. Spurningin, sem Evrópuþjóðirnar standa frammi fyrir núna, er þess vegna sú, hvort þær ætla að láta stórveldin hafa sig að gíslum í þessum efnum eða hvort Evrópuþjóðirnar geta samein ast um evrópskan valkost andspænis hernaðarstefnu stórveldanna. Þessi evrópski valkostur yrði að vera í því fólginn að stíga ákveðin skref í átt til afvopnunar og friðar á þessu svæði. Í þeim efnum hefur einkum verið rætt um möguleikana á því, að ákveðin svæði og helst allt svæðið verði lýst kjarnorkuvopnalaust. Fyrir því er nú vaxandi áhugi hvarvetna. Það kemur m. a. fram í því, að Hollendingar og Danir og fleiri hafa neitað að taka þátt í auknum vígbúnaði Atlantshafsbandalagsins á þessu svæði. Raddir innan breska Verkamannaflokksins hafa gerst svo háværar að flokkurinn hefur lýst því yfir að nái breski Verkamannaflokkurinn meiri hluta á nýjan leik í því landi muni hann gera það að skilyrðislausri kröfu að Bandaríkjamenn fari burt með allar kjarnorkuvopnaeldflaugar af bresku landi. Einnig hefur komið mjög skýrt fram innan vestur-þýska Sósíaldemókrataflokksins að þar er um að ræða mjög verulegar áhyggjur vegna vaxandi hernaðarumsvifa í Evrópu.

Einnig hér á landi hafa farið fram miklar umræður um þessi efni, m. a. um möguleikana á því að Norðurlöndin verði lýst kjarnorkuvopnalaust svæði. Auðvitað þýðir slík yfirlýsing einfaldlega það, að þau ríki, sem að henni stæðu, mundu gera með sér tiltekinn þjóðréttarlegan samning um að þau mundu ekki skapa aðstöðu fyrir kjarnorkuvopn í löndum sínum. Það hefur komið fram á hinum Norðurlöndunum mikill áhugi á þessu, og í Noregi, Danmörku og Svíþjóð er farin af stað undirskriftasöfnun þar sem þess er krafist að Norðurlöndin verði kjarnorkuvopnalaust svæði.

Í þessum umræðum heyrist því haldið fram að þarna verði í raun og veru að sleppa Íslandi vegna þess fyrst og fremst að staða Íslands í þessum efnum sé svipuð og Kólaskagans í Sovétríkjunum, að með því að Ísland væri kjarnorkuvopnalaust væri raskað svokölluðu hernaðarlegu jafnvægi stórveldanna. Alþb. er þeirrar skoðunar, að þessi uppsetning mála sé í raun og veru fráleit, í fyrsta lagi vegna þess að tilgangurinn með því að lýsa því yfir að ákveðin svæði séu kjarnorkuvopnalaus, er ekki síst sá að leitast við að draga úr hernaðarumsvifum stórveldanna, og ef slíkt gæti gerst með því, að Ísland yrði aðili að slíkri yfirlýsingu, væri fólgin í því áhrifarík stefnumörkun. En í öðru lagi er þessi uppsetning mála um Norðurlöndin fjögur sem kjarnorkuvopnalaus, en ekki Ísland, Færeyjar og Grænland, fráleit af þeim sökum að með því móti er í rauninni verið að óska eftir auknu öryggi fyrir hin Norðurlöndin fjögur á kostnað eyþjóðanna þriggja. Það ætti sem sé að auka þrýsting á Ísland, Grænland og Færeyjar um geymslu kjarnorkuvopna og aukins herbúnaðar um leið og hinum Norðurlöndunum fjórum væru skapaðar friðvænlegri kringumstæður. Hér er þess vegna ekki um að ræða drengilega afstöðu á Norðurlöndunum að mínu mati, og Alþb. mótmælir henni mjög harðlega og mun koma þeim mótmælum á framfæri á Norðurlöndunum nú á næstunni.

Herra forseti. Ég sé að klukkan er nú orðin 5. Þingflokksfundir hafa verið boðaðir á þessum tíma. Ég óska því eftir við hæstv. forseta að ég fái að gera hlé á ræðu minni nú og halda henni áfram kl. 6. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég var kominn þar í ræðu minni fyrr í dag að fjalla um umræður sem fram hafa farið á Norðurlöndunum og einnig hér á landi um hugmyndirnar um að lýsa Norðurlöndin kjarnorkuvopnalaust svæði,og þessar umræður hafa einnig verið hér í gangi eins og kunnug er. Yfirlýsing um Norðurlöndin sem kjarnorkuvopnalaust svæði þýðir einfaldlega að þau ríki, sem að henni stæðu, mundu gera með sér tiltekinn þjóðréttarlegan samning um að þau mundu ekki skapa aðstöðu fyrir kjarnorkuvopn í löndum sínum. Hefur komið fram á hinum Norðurlöndunum mikill áhugi á þessu, eins og ég gat um áðan, og í Danmörku, Noregi og Svíþjóð er farin af stað undirskriftasöfnun þar sem þess er krafist að Norðurlöndin verði kjarnorkuvopnalaust svæði.

Ég gat um það í ræðu minni fyrr í dag að í þessari undirskriftasöfnun væri í raun og veru gert ráð fyrir að Íslandi væri þarna sleppt og það væru aðeins fjögur Norðurlandanna sem átt væri við í sambandi við þessa undirskriftasöfnun vegna þess að forvígismenn hennar legðu í rauninni Ísland annars vegar og Kólaskagann í Sovétríkjunum hins vegar að jöfnu. Ég lét það koma fram, að Alþb. er mjög andvígt afstöðunni sem þarna hefur birst, vegna þess að hún þýðir ósköp einfaldlega að það er verið að óska eftir auknu öryggi Norðurlandanna fjögurra á kostnað eyþjóðanna þriggja, þ. e. Íslands, Grænlands og Færeyja. Það ætti sem sagt að auka þrýsting á Ísland, Grænland og Færeyjar um geymslu kjarnorkuvopna og aukins herbúnaðar um leið og hinum Norðurlöndunum fjórum væru skapaðar friðvænlegri kringumstæður. Hér er þess vegna ekki um að ræða drengilega afstöðu á Norðurlöndunum að mínu mati, og Alþb. mótmælir henni mjög harðlega og hefur gert ráðstafanir til að koma þeim mótmælum á framfæri við þá sem standa fyrir nefndri undirskriftasöfnun á Norðurlöndunum. Áhuginn á að lýsa yfir, að Norðurlöndin verði kjarnorkuvopnalaus, er hins vegar ákaflega eðlilegur og hann er hluti af viðleitni, sem er á dagskrá í allri Vestur-Evrópu, að skapa samstöðu um evrópskan valkost í varnarmálum. Ég tel eðlilegt að Íslendingar hafi augun opin í þessum efnum og kanni alla möguleika til þess að Íslendingar verði einnig aðilar að þessum evrópska valkosti, ef hann finnst, vegna þess að okkur er nauðsynlegt að tryggja tengsl okkar við Evrópu og Norðurlönd enn þá betur en gert hefur verið.

Það hefur komið í ljós í norrænu samstarfi á liðnum 30 árum, að þegar þar er unnið af heilum huga næst þar verulegur árangur sem hefur þýðingu fyrir allar þjóðirnar sem búa á Norðurlöndunum. Hins vegar hefur ekki tekist samstarf í varnarmálum milli þessara þjóða, því miður, þrátt fyrir mjög verulegan áhuga í þeim efnum. Nú er hins vegar að vakna skilningur á þessu sviði. Hann kom mjög greinilega fram á þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í vetur þar sem m. a. var óskað eftir að forsætisnefnd Norðurlandaráðs kannaði möguleika á að haldinn verði sérstakur fundur norrænna þm. um að Norðurlöndin verði lýst kjarnorkuvopnalaust svæði.

Umræða um þessi mál hefur hins vegar ekki náð eins langt hér á Íslandi og skyldi. Þó eru rökin enn augljósari hér en nokkurs staðar annars staðar, vegna þess að við erum eina ríkið á Norðurlöndum sem hefur erlenda herstöð. En hérna á Íslandi hafa ákveðin öfl reynt að sporna við fótum og reynt að koma í veg fyrir að umræður um þessi mál geti haldið áfram með eðlilegum hætti. Ég leyfi mér að spyrja talsmenn þeirra stjórnmálaflokka, sem fulltrúa eiga á Alþingi núna og mæla með aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og bandarísku herstöðinni: Geta þeir ekki hugsað sér að hafin verði umræða hér í landinu á milli stjórnmálaflokkanna á einhverjum vettvangi, í utanríkismálanefnd eða öryggismálanefnd, um það, hvaða breytingar eru að eiga sér stað á herstöðinni í Keflavík og hvernig öryggi Íslendinga verður best borgið andspænis þeim breytingum og með hvaða hætti Íslendingar geti tengst þeirri umræðu um evrópskan valkost í öryggismálum sem nú er rætt um í allri Vestur-Evrópu og víðar? Ég trúi því ekki, að þeir forustumenn annarra flokka, sem hér eiga sæti á Alþingi nú, séu svo freðnir í brynju kalda stríðsins, eins og forverar þeirra voru, að þeir fáist ekki til að setjast niður til að ræða þessi mál, til að skapa víðtækari þjóðarsamstöðu um úrræði í utanríkismálum en nokkru sinni hefur skapast hér á landi. Forráðamenn þessara flokka verða að gera sér grein fyrir að sú leið, sem þeir hafa fylgt, kann að vísu að hafa stuðning nokkurs meiri hluta þjóðarinnar að því er varðar aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu, en hún hefur aldrei notið stuðnings yfirgnæfandi meiri hl. þjóðarinnar. Af þeim ástæðum tel ég að þessum forustumönnum sé skylt að leita nýrra leiða í þessum efnum og kanna hvort ekki er möguleiki á miklu víðtækari samstöðu en verið hefur um þessi mál, því að hvergi í NATO-ríki hafa utanríkismálin verið jafnumdeild og hér á Íslandi.

Ég er viss um að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar er andvígur því, að hér séu geymd kjarnorkuvopn eða að hér sé aðstaða fyrir kjarnorkuvopn. Ég er sannfærður um að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar er andvígur því, að Ísland verði gert að sérstakri skotskífu í stríði, að Ísland verði í raun og veru sá staður sem eigi að taka höggið af stórveldinu Bandaríkjunum í hugsanlegum átökum hins takmarkaða kjarnorkustríðs sem hershöfðingjar stórveldanna núna velta fyrir sér. Ég er sannfærður um að það er unnt að skapa yfirgnæfandi þjóðareiningu á Íslandi um íslenska friðarstefnu sem tekur mið af öryggi Íslendinga einna fremur en að taka í rauninni fyrst og fremst mið af hernaðarlegum hagsmunum Bandaríkjamanna, jafnvel á kostnað Íslendinga. Og ég lýsi ábyrgð á hendur þeim mönnum sem neita að vinna að þjóðarsamstöðu um úrræði í öryggis- og varnarmálum Íslendinga sem tryggja stöðu þjóðarinnar, öryggi hennar, framtíð, sjálfstæði og menningu betur en núverandi úrræði meiri hl. Alþingis gera í þessum efnum.

Ég minni á í þessu sambandi að engin Norðurlandaþjóð önnur en Íslendingar hefur tekið í mál að opna fyrir dvöl erlends hers í landi sínu á friðartímum, og við skulum muna að nær 90% þeirra ríkja sem aðild eiga að Sameinuðu þjóðunum, hafa kosið að standa utan hernaðarbandalaga risaveldanna.

Því er stundum haldið fram að hlutverk okkar Íslendinga sé ekki stórt eða merkilegt á alþjóðavettvangi, við séum fáir og smáir. Reynslan úr landhelgisstríðinu sýnir okkur þó að okkar framlag getur skipt sköpum, getur ráðið úrslitum um það sem koma skal. Þetta framlag getur haft áhrif á það sem stórveldin hafast að, einnig gagnvart þeim ríkjum sem eru þeim fylgispökust. Vilji stórveldin beita okkur ofríki skulum við mæta því ofríki eins og menn. En það er hins vegar ekkert annað en helber barnaskapur að láta sér detta í hug að herstöðin í Keflavík geti orðið okkur til varnar ef til styrjaldar kemur. Þvert á móti bendir flest til þess, að með þeim breytingum, sem gerðar hafa verið á herstöðinni á undanförnum árum, sé hún í rauninni í fyrsta skotmáli og þannig hafi stóraukist sú tortímingarhætta sem í stríði vofir yfir.

Ég minnti á það áðan, að á ríkisstjórnarárum Geirs Hallgrímssonar voru teknar mjög afdrifaríkar ákvarðanir um breytingar á eðli herstöðvarinnar hér. Keflavíkurherstöðin er nú búin sem stjórnstöð og þar með miðstöð í kjarnorkuhernaði. Til marks um þetta er ekki síst staðsetning AWACS-vélanna á Keflavíkurflugvelli. Það er álit erlendra hernaðarsérfræðinga að mestu hættusvæðin í Evrópu, komi til kjarnorkustríðs, séu annars vegar Reykjanesskaginn á Íslandi og hins vegar svæðið í kringum Murmansk í Sovétríkjunum. Hvergi í Evrópu eru AWACS-flugvélar nema hér. Þetta eru staðreyndir sem liggja fyrir, og Íslendingar verða að átta sig á þessum staðreyndum. Ég er sannfærður um að þeir forvígismenn NATO-flokkanna, sem neita að horfast í augu við þessar staðreyndir, munu áður en langur tími liður verða í minni hluta með sjónarmið sín á Íslandi. Það er kominn tími til þess vegna að þeir opni augu sín, athugi sinn gang og skoði í alvöru, hvert þeir hafa leitt íslensku þjóðina, og að þeir endurmeti afstöðu sína í ljósi hinna nýju staðreynda. Okkar krafa hlýtur þó alltaf og ævinlega að vera sú og engin önnur en að bandaríski herinn fari úr landinu og að Ísland segi sig úr Atlantshafsbandalaginu.

Í skýrslu utanrrh. kemur margt fróðlegt fram, sem ekki verður farið nákvæmlega út í hér. Ég vil þó í þessu sambandi undirstrika alveg sérstaklega að í núverandi ríkisstj. er staðan þannig, að einn stjórnarflokkurinn, þ. e. Alþb., er andvígur aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og andvígur bandarísku hersetunni á Íslandi. Þetta skapar sérkennilegar aðstæður um margt í ríkisstj., en innan hennar á að vera af þessum ástæðum samkomulag um að hér verði óbreytt ástand eða „status quo“, að ekki verði um að ræða umsvif eða eðlisbreytingar á herstöðinni á þessum tíma. En vegna aðildar Alþb. að ríkisstjórnum hefur það gerst núna frá árinu 1978 að umræður um eðli herstöðvarinnar og innri gerð hennar og búnað hafa verið miklu opnari en áður hefur verið hér á landi. Þetta gerðist fyrst með stofnun svokallaðrar öryggismálanefndar samkv. málefnasamningi ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar 1. sept. 1978. Þessi opna umræða hefur haldið áfram innan núverandi öryggismálanefndar Alþingis og innan núv. ríkisstj. Ég tel að núv. hæstv. utanrrh., Ólafur Jóhannesson, hafi átt mjög gott frumkvæði að því, að umræða um þessi mál væri opinská, en einkenndist ekki með sama hætti og oft áður af leynibruggi og pukurshætti. Ég tel að þetta sé mikilvægt þannig að þjóðin geti sem best áttað sig á því, hvaða starfsemi er um að ræða í bandarísku herstöðinni

Varðandi skýrslu utanrrh. í einstökum atriðum minni ég aðeins á að eins og jafnan er margt sem vantar og maður vildi gjarnan hafa með í slíkum skýrslum. Þar er t. d. ekki sérstakur kafli um bandarísku herstöðina, sem þó væri mjög eðlilegt að hafa í slíkri skýrslu, þ. á m. um íslenska aðalverktaka, svo að ég nefni dæmi, og fleiri þætti, en eins og kunnugt er ríkir það undarlega ástand hér á landi að utanrrn. fer með öll mál á þessu svæði, einnig málefni sem önnur rn. fara með að jafnaði. Samgöngumál eru t. d. á snærum utanrrn. þarna suður frá. Vinnuverndarmál eru þar á ábyrgð utanrrn. Kjaramál eru það líka o. s. frv. Þess vegna væri ekki vanþörf á að fá allítarlegan kafla í skýrslu utanrrh. framvegis um herstöðina og það sem þar á sér stað. Í þessu sambandi vil ég sérstaklega minna á að í málefnasamningi núv. ríkisstj. er gert ráð fyrir að stjórnarráðslög verði endurskoðuð. Ég tel að verkaskipting ráðuneyta að því er varðar yfirstjórnina á Keflavíkurflugvelli eigi að koma til athugunar við endurskoðun stjórnarráðslaganna og stjórnarráðsreglugerðar. Ég tel að það væri mikill fengur í því, að framvegis fylgdi skýrslu utanrrh. skýrsla um Keflavíkurflugvöll og herstöðina, framkvæmdir þar og annað sem máli skiptir, og vil ég koma þessu á framfæri hér við hv. Alþingi og hæstv. utanrrh.

Ég vil þá víkja lauslega að öðrum köflum í skýrslu utanrrh. og þá fyrst að Norðurlandasamvinnunni. Norræn samvinna skipar sem áður háan sess í samskiptum okkar við aðrar þjóðir og ber okkur að leggja á það þunga áherslu. Samstarf við þessar þjóðir hefur verið náið á sviði alþjóðamála, eins og þeir þekkja sem setið hafa alþjóðlegar ráðstefnur fyrir Íslendinga. Ég tel að norrænt samstarf hafi skilað Íslendingum mjög verulegum árangri á undanförnum árum og áratugum og miklu meiri árangri en menn almennt gera sér ljóst.

Ég vil koma því hér á framfæri, að það er mín skoðun að ekki sé nærri nógu vel búið að norrænu samstarfi hér á landi að því er varðar þátttöku ríkisstj. og Alþingis í þeim efnum. Ég tel að þarna þurfi að koma til meira starfslið en verið hefur, bæði varðandi þátttöku alþm. í Norðurlandaráði og eins þurfi að vera til á einum stað betra yfirlit yfir það sem einstök rn. eru að vinna í tengslum við norræna samvinnu. Hér er um að ræða svo fjölþætt og viðamikið verkefni að það er á engum stað núna unnt að fá heillegt yfirlit yfir það, að hvaða verkum er unnið. Ég tel það ákaflega slæmt og vil leggja á það mikla áherslu að í framtíðinni verði að búa betur að norrænni samvinnu hér á landi en gert hefur verið til þessa.

Ég vil í öðru lagi víkja aðeins lauslega að hafréttarmálefnum. Ég tel að afstaða Bandaríkjamanna á síðustu hafréttarráðstefnu hafi í raun stefnt hinum nýja hafréttarsáttmála í stórkostlega hættu. Ég tel að hafréttarsáttmálinn, sem hefur verið í undirbúningi um margra ára skeið, sé í rauninni eitt merkasta plagg sem unnið hefur verið að á alþjóðavettvangi á undanförnum áratugum og jafnvel þó lengra væri farið aftur í tímann. Hér er reynt að skipuleggja aðgang þjóða að dýrmætum auðlindum. Ég held að þess vegna beri okkur að leggja mjög þunga áherslu á að hafréttarráðstefnunni ljúki og þar nái menn niðurstöðu sem unnt verði að taka mið af á næstu árum og áratugum. Það er ljóst að allar þjóðir, sem hafa lagt vinnu í hafréttarráðstefnuna á undanförnum árum og hafréttarsáttmálann, harma þá afstöðu sem stjórn Reagans Bandaríkjaforseta tók. Það gerum við einnig, og ég hygg að það eigi við alla flokka hér á landi. Þess vegna vil ég nú draga þetta fram og leggja á það áherslu að við látum ekki deigan síga og reynum að knýja fram lausn og niðurstöðu að því er varðar alþjóðlegan hafréttarsáttmála, og síðan skulum við leggja okkur fram um að tryggja að sáttmálinn fá sem allra fyrst staðfestingu hjá sem allra flestum þjóðum þannig að hér geti orðið um að ræða alþjóðlegan rétt til viðmiðunar.

Varðandi landhelgismálið vil ég einnig leggja á það áherslu af hálfu Alþb., að við teljum að það sé nauðsynlegt að gera þeim þjóðum, sem hér hafa fiskveiðisamninga, Belgum, Norðmönnum og Færeyingum, grein fyrir því að hér er ekki um að ræða samninga sem eiga að vera í gildi um aldur og ævi. Hér er um að ræða skammtímasamninga sem gerðir hafa verið við sérstakar aðstæður þegar landhelgin var færð út á sínum tíma, en það er ekki ætlun Íslendinga og íslenskra stjórnvalda, að þessir samningar gildi um aldur og ævi, enda þótt þeir hafi verið alllengi í gildi. Sú hugmynd er stöðugt á dagskrá meðal íslenskra stjórnvalda og alþm. að þessum samningum verði sagt upp. Þetta þurfa Belgar, Færeyingar og Norðmenn að gera sér vel ljóst vegna þess að þeir geta ekki reiknað með því að þetta sé sjálfgefinn samningur um alla framtíð um fiskveiðiréttindi. Það má ekki koma til þess, að þeir geti með neinu móti litið svo á, að þeir hafi af hefð eða öðrum sögulegum ástæðum verið hér svo og svo lengi þannig að þeir geti haldið þessum réttindum um langa framtíð. Slíku er ekki til að dreifa og það þarf að segja þessum þjóðum og ríkisstjórnum þeirra afdráttarlaust.

Talandi um norræna samvinnu og hafréttarmál er ljóst að við þurfum að fylgjast mjög vel með framvindu mála á Grænlandi á næstu árum. Þar fer nú fram undirbúningur að því, að Grænlendingar taki stjórn eigin mála í vaxandi mæli í sínar hendur og nú á næstunni mun þar fara fram atkvgr. um hvort þeir eigi að vera aðilar að Efnahagsbandalaginu. Það eru taldar talsverðar líkur á að því verði hafnað í Grænlandi. Við þurfum að gera okkur ljóst að við getum þurft að hefja viðræður og samninga við Grænlendinga um þau mál sem okkur eru sameiginleg í hafinu milli Grænlands og Íslands. Við verðum að vera reiðubúnir að fara út í þá samninga hið fyrsta og við þurfum að fara að undirbúa okkur undir þær viðræður sem allra fyrst. Grænlendingum þarf að vera ljóst að hér ríkir jákvætt viðhorf til þeirra og sjálfstæðisbaráttu þeirra.

Varðandi Jan Mayen-málið vil ég sérstaklega leggja á það áherslu, að í þeim viðræðum, sem nú munu fara fram á næstu vikum og mánuðum um hafsbotnssvæðið, verði haldið þannig á málum að við afsölum okkur engum rétti, heldur höldum ítrasta rétti á Jan Mayen-svæðinu og gætum þess að hleypa ekki aðilum að vinnslu verðmæta eða rannsóknum á hafsbotni okkar öðruvísi en við höfum þar fullt forræði yfir.

Næst vil ég nefna þann kafla í skýrslu utanrrh. sem fjallar um markaðsmál og unninn er af viðskrn. eins og venja er til. Ég tel að í rauninni séu þessi mál svo þýðingarmikil að það væri ekki óeðlilegt að fram færi um þau sérstök umræða hér á hv. Alþingi. Ég held að allt of fáir alþm. geri sér glögga grein fyrir því, hvernig markaðsmál okkar eru vaxin og hversu mikið og dýrmætt starf er unnið á því sviði. Í þessu sambandi vil ég minna á að það eru mörg mál á vettvangi viðskrn. sem ráðast með sérstökum hætti og lúta ekki í öllum tilvikum nákvæmlega sömu reglum og þau málefni sem unnin eru á vegum utanrrn. Í þessum efnum vil ég skjóta því hér að sem minni persónulegu skoðun, að ég teldi mjög óráðlegt ef farið væri út í að leggja viðskrn. niður og gera það að eins konar undirdeild í utanrrn. Þær hugmyndir hafa oft komið fram og ég vil segja það sem mína skoðun að ég væri andvígur slíku. Ég tel að viðskiptahagsmunir okkar séu þannig að við eigum að gæta þess að við getum sinnt þeim á vegum sérstaks fagráðuneytis sem hafi sérþekkingu á því sviði.

Varðandi viðskiptamálin vil ég einnig koma að því, að í skýrslu utanrrh. er tíundað nokkuð nákvæmlega hvað Íslendingar hafa unnið í tollalækkunum gagnvart EFTA og Efnahagsbandalaginu, þ. e. í þeim löndum sjálfum. Hins vegar hef ég ekki tekið eftir því, að í skýrslum utanrrh. nú eða á undanförnum árum komi fram upplýsingar um hvað við höfum gefið eftir sjálfir í tollalækkunum á vörum EFTA og Efnahagsbandalagsins hingað til Íslands, en til þess að fá einhverja mynd af tollaívilnunum og hagkvæmni þeirra þarf það náttúrlega að liggja fyrir líka. Ég vil fara þess á leit við hæstv. ráðh. að upplýsinga um þau mál verði aflað áður en þessari umr. lýkur.

Ég vil í sambandi við viðskiptakaflann drepa örlítið á það, að eitt meginverkefna viðskrn. á undanförnum árum hefur verið aðild og þátttaka Íslands að EFTA, Fríverslunarbandalagi Evrópu. Fríverslunarbandalagið hefur tekið mjög miklum breytingum frá því sem það var í öndverðu. Bretar eru farnir þaðan út, Danir eru farnir þaðan og aðrar þjóðir eru á leiðinni þaðan út þannig að þetta er í rauninni að vera bandalag smáríkja í Vestur-Evrópu sem eru hlutlaus eða með sérstöðu í utanríkismálum. Innan EFTA eru nú Austurríki, Sviss, Svíþjóð, Noregur, Ísland og Portúgal, auk Finnlands með sérstaka aðild. Þessi ríki eru að því leytinu lík að þetta eru allt smáríki. Þau hafa yfirleitt þannig stöðu að ekkert þeirra gæti af ýmsum ástæðum gerst aðili að Efnahagsbandalagi Evrópu. Aðeins þrjú þessara ríkja, þ. e. Portúgal, Ísland og Noregur, eru innan Atlantshafsbandalagsins. Hér er því um að ræða allsérskennilegan ríkjahóp saman kominn sem í fljótu bragði sýnist ekki eiga mikið sameiginlegt, en þegar allt kemur til alls og farið er að skoða málin nánar á þó býsna mikið sameiginlegt. Ég vil einnig láta það koma fram hér, að mín reynsla er sú, að hagsmunir Íslands, ef þeir eru bornir fram af fullri reisn með eðlilegum rökum innan Fríverslunarbandalagsins, eigi þar skilningi að mæta. Þetta segir mér reynslan af einu tilteknu máli.

Þegar Íslendingar gerðu tilraun til að framlengja nokkuð aðlögunartíma sinn að Fríverslunarbandalaginu óskuðum við eftir viðræðum við bandalagið um svokallað aðlögunargjald sem yrði lagt á hér á innfluttar vörur til landsins. Mér var sagt af ýmsum mönnum, sem þekktu til og töldu sig þekkja til frá fyrri tíma innan Efnahagsbandalagsins og EFTA, að það væri útilokað að fá þetta gjald samþykkt. Eftir að íslenska ríkisstjórnin hafði gert út sendinefnd til allra höfuðborga EFTA-ríkjanna kom hins vegar allt annað í ljós. Þetta gjald var einfaldlega samþykkt innan EFTA á ráðherrafundi þess vorið 1979 þannig að á þessum vettvangi er skilningur á íslenskum málefnum ef þau eru borin fram af fullum rökum og fullum þunga. Það sýnir reynslan frá þessum tíma.

Um viðskiptamálin mætti margt segja að öðru leyti. Það þarf auðvitað að gæta þess í þeim efnum, að við verðum ekki um of einum háðir. En það þarf einnig að gæta þess að íslensk stjórnvöld láti ekki hrekja sig til fljótræðisverka í viðskiptamálum vegna pólitískrar ofstækisöldu sem ríður yfir í landinu af og til í ýmsum málum. Í þessum efnum vil ég alveg sérstaklega nefna olíumálin.

Árið 1979 lá þáv. ríkisstj. og ég sérstaklega sem viðskrh. hennar undir stórfelldum árásum stærsta blaðs landsins, einkamálgagns Geirs Hallgrímssonar, vegna olíuviðskiptá Íslands við Sovétríkin. Þessi viðskipti hafa staðið um áratugaskeið og þau hafa í heild verið okkur hagstæð. Þau hafa skilað okkur góðum olíuvörum, það hefur verið um að ræða örugga afhendingu á vörunum og verðið hefur yfirleitt ekki verið slæmt. Þegar olíuverð fór hækkandi á árinu 1979 var þess hins vegar krafist af ákveðnum öflum hér í landinu, að Íslendingar rifu niður þessi gömlu og traustu viðskiptasambönd sín við Sovétríkin. Því var að sjálfsögðu hafnað af mér sem þáv. viðskrh. og núv. viðskrh. hefur að sjálfsögðu hafnað slíku líka því að enginn viðskrh. mundi nokkurn tíma, ef hann ætlaði að gæta skyldu sinnar, fallast á önnur eins úrræði og þau sem lögð voru til af Morgunblaðinu sumarið 1979 í olíumálum. Engu að síður fór það svo, að menn töldu skynsamlegt að miða við að Íslendingar hefðu möguleika á olíuinnkaupum frá fleiri ríkjum en Sovétríkjunum einum. Þess vegna voru gerðir samningar við breska olíufélagið BNOC. Staðan í þeim efnum er hins vegar sú, að eftir að þeir samningar voru gerðir, en þeir virtust í fyrstu, miðað við hið háa Rotterdam-verð, vera tiltölulega hagstæðir, en í þessum BNOC-samningum er miðað við svokallað mainstream-verð, kemur í ljós núna að þetta verð er mun hærra en verðið á rússnesku olíunni á Rotterdam-markaðinum. Það er ekki allt sem sýnist. Þetta mál gefur alveg sérstakt tilefni til að staldra við og vara stjórnvöld, hver sem þau eru, við því að láta undan ofstækisbylgjum sem skella yfir öðru hverju í málum af þessum toga. Ég er þó sannfærður um að þessi skrif Morgunblaðsins á sínum tíma um olíumálin gerðu mjög verulegt ógagn og þau sköpuðu mjög erfitt ástand fyrir þá stjórn sem þá sat, og enn þá erfiðara var ástandið fyrir þær sakir að innan þáv. ríkisstj. var ekki mjög sterk samstaða um þessi mál frekar en önnur, svo að ekki sé fastar að orði kveðið. Ég tel að í olíumálum þurfum við að haga okkur þannig að höfuðatriðið sé öryggið, annað atriðið sé verðið og í þriðja lagi þurfum við að tryggja að við höfum aðgang að fleiri en einum aðila í þessum efnum. En umfram allt eigum við ekki að láta hræða okkur til flýtisverka á þessu sviði fremur en öðrum.

Á öðrum sviðum viðskiptamála okkar má segja að í heildina tekið hafi gengið tiltölulega vel á undanförnum árum. Markaðir hafa yfirleitt verið allgóðir. Það hefur auðvitað gengið misjafnlega vel að selja landbúnaðarafurðir og verðið fyrir þær hefur ekki verið mjög hátt. Fiskurinn hefur hins vegar yfirleitt verið rifinn út. Það hefur ekki hlaðist hér upp mikið upp í birgðum nema skamman tíma og þá fyrst og fremst vegna þess að við höfum fiskað meira en áður í miklum aflahrotum. Við hófum að vísu orðið fyrir nokkrum áföllum um tíma, eins og í Nígeríu fyrir nokkrum árum þegar skreiðin seldist ekki og hlóðst upp í mörg misseri. Engu að síður og þrátt fyrir góðan árangur á ýmsum sviðum á undanförnum árum er ljóst að markaðsstarfsemi okkar er ekki nægilega virk. Hér vantar miklu virkari markaðsstarfsemi. Sendiráð okkar þurfa að vera ötulli í þessum efnum og rn., bæði atvinnuvegaráðuneytin og viðskrn., þurfa að brjótast um í markaðsmálum meira en gert hefur verið. Þau þurfa að reyna að skyggnast inn í framtíðina, ekki aðeins hina næstu, heldur einnig hina fjarlægari framtíð, og átta sig á því, hvar eru möguleikar fyrir Íslendinga til þess að brjótast inn með sínar vörur.

Við búum við mikla sérstöðu. Okkar vandi er meiri en annarra vegna þess að við liggjum langt frá hinum þéttbýlu stóru mörkuðum á meginlandinu. En þar á móti kemur að ýmislegt höfum við sem ætti að vera tiltölulega auðvelt að koma á framfæri á þessum sama markaði. Eins og sakir standa má hins vegar ekki mikið út af bera. Þá getur blasað hér við verulegur efnahagsvandi sem skekur allt þjóðfélagið efnahagslega og pólitískt á örstuttum tíma. Við megum ekki láta innanlandsástand okkar vera í höndum annarra með þessum hætti. Þess vegna þurfum við að vera miklu virkari, duglegri og ötulli og umfram allt frjórri í markaðsstarfsemi en við höfum verið á undanförnum árum.

Ég vil þá einnig víkja sérstaklega að kaflanum í skýrslu utanrrh. um þróunarsamvinnu. Þar er gerð glögg grein fyrir þeim verkefnum sem unnið hefur verið að á vegum Aðstoðar Íslands við þróunarlöndin á undanförnum árum, og þeim framlögum sem Íslendingar hafa veitt vegna jarðhitadeildar Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Hins vegar finnst mér að í skýrsluna skorti nokkurt yfirlit yfir aðra þætti í þeirri starfsemi sem kölluð eru þróunaraðstoð Íslendinga. Það, sem ég á sérstaklega við, eru framlög Íslendinga til Alþjóðaframfarastofnunarinnar, IDA, sem eru t. d. á þessu ári um 30% af heildaraðstoðinni eða 2760 millj. kr. af 9242 millj. kr. Þá vil ég einnig í þessu sambandi nefna stofnfjáraukningu í IRDD, sem er stofnun á vegum Alþjóðabankans og er 900 millj. kr. árið 1978 og þá ríflega þriðjungur af aðstoðinni það ár. Ég held að nauðsynlegt sé að fá á Alþingi yfirleitt nánari upplýsingar um hvernig þessum fjármunum er varið. Þá væri fróðlegt að fá gleggra yfirlit um aðra þætti mála, þ. e. það sem kallað er „önnur aðstoð — reglubundin framlög“ í skýrslu utanrrh., þar sem um er að ræða Alþjóðabarnahjálparsjóðinn, matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna, Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, Aðstoð Sameinuðu þjóðanna við Palestínuflóttamenn, Flóttamannaráð Íslands, Namibíusjóð Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðanefnd Rauða krossins og Suður-Afríkusjóð Sameinuðu þjóðanna. Ég tel að það sé nauðsynlegt að gleggri upplýsingar um þessa þætti gætu legið fyrir. Sjálf aðstoð Íslands við þróunarlöndin, sem er sú tala sem yfirleitt er fjallað um hér og gerð grein fyrir í skýrslum utanrrh., er t. d. á árinu 1981 ekki nema um helmingur af aðstoðinni allri. Árið 1980 er hún að vísu meiri eða um 2/3, árið 1979 er hún hins vegar aðeins 710 millj. af 3931 millj. kr.

Ég vil í sambandi við þetta vekja sérstaka athygli á því, að þessi liður, Aðstoð Íslands við þróunarlöndin, hefur margfaldast frá því sem áður var. Þessi liður var á árinu 1978 400 millj. kr., árið 1979 nam þessi liður 710 millj. kr., árið 1980 nam þessi liður 6022 millj. kr. og árið 1981 4757 millj. gkr. Á þessu ári, 1981, er því um að ræða um það bil tólfföldun í krónutölu frá árinu 1978. Þetta er auðvitað sá þáttur sem langmestu máli skiptir í þróunaraðstoð af hálfu Íslendinga, og ber að leggja áherslu á að auka við hann á næstu árum.

Hinir liðirnir, sem eru tíndir þarna til, eru ýmist föst framlög ellegar liðir eins og Alþjóðaframfarastofnunin, IDA, sem ekki er gerð sérstaklega grein fyrir í skýrslum utanrrh. á undanförnum árum né heldur í þessari skýrslu.

Herra forseti. Ég vil að lokum endurtaka þakkir mínar til hæstv. utanrrh. fyrir þá skýrslu sem hann hefur hér lagt fram, og leggja áherslu á að núv. ríkisstj. leggur áherslu samkv. stjórnarsáttmála sínum á framkvæmd sjálfstæðrar íslenskrar utanríkisstefnu. Í þessu sambandi ber að leggja megináherslu á þátttöku Íslands í Sameinuðu þjóðunum og Norður(andaráði og að styrkja þátttökuna á þessum vettvangi. Þetta eru þau meginatriði sem hafa ber í huga við framkvæmd utanríkisstefnu á vegum núv. ríkisstj.

Þetta eru þau meginatriði sem utanrrh. hlýtur að starfa eftir jafnframt þeim grundvallaratriðum í stjórnarsamstarfinu sem ég minnti á fyrr í ræðu minni varðandi herstöðvamálið. Ég tel þó að sú umræða, sem hefur hafist um herstöðvamálið á undanförnum misserum, hafi opnað hugi þúsunda og aftur þúsunda Íslendinga þannig að í náinni framtíð megi gera sér vonir um að miklu víðtækari og heilli samstaða náist um öryggis- og varnarmál Íslendinga en verið hefur á síðustu 30 árum, eftir að hin bandaríska utanríkisstefna varð að sumu leyti ráðandi í hugum forráðamanna NATO-flokkanna hér á landi. Það er athyglisverð og alvarleg staðreynd, að í engu NATO-ríki hefur verið og er jafndjúpstæður og víðtækur ágreiningur um utanríkisstefnuna og hér á Íslandi. Þessa staðreynd verða NATO-öflin hér, í Alþfl., Sjálfstfl. og Framsfl., að viðurkenna og móta stefnu sína og störf samkv. því.

Baráttan um þverrandi auðlindir heimsins fer nú stöðugt harðnandi og fjöldi mannkyns tvöfaldast á fáum áratugum. Viðbúnaður ríku þjóðanna andspænis þessum staðreyndum hefur því miður oft verið aukinn vígbúnaður. Innrásin í Afganistan og ástandið í El Salvador er til marks um viðbrögð stórveldanna. Alvarlegri ófriðarblikur eru nú á lofti en oft áður. Ískaldur hægri vindur fer um sali á alþjóðaráðstefnunum og samskipti þjóða líða fyrir stríðsæsingar og þvergirðingshátt. Auðlindastríðið leiðir af sér vaxandi vígbúnað og pólitískar mótsetningar verða stöðugt skarpari milli ríkra þjóða og fátækra. Ný viðhorf blasa við og í ljósi þeirra er okkur brýnt að endurmeta stöðuna og leita að nýrri og farsælli braut til friðar og öryggis.

Horfurnar eru nú alvarlegri en verið hefur um langt skeið, sagði hæstv. utanrrh. áðan. Um það eru væntanlega allir flokkar á Íslandi sammála þrátt fyrir allt og þeim ber að haga sér samkvæmt því.