12.05.1981
Neðri deild: 91. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4254 í B-deild Alþingistíðinda. (4351)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Hæstv. fjmrh. sagði að ég hefði flutt mjög sérkennilega og óvenjulega ræðu og játað á mig sakir, eins og ég hefði komið hér til þess að játa að ég væri sekur um það sem hann bar á nm. í ræðu sinni í Ed. Ég held að hæstv. ráðh. hefði verið meiri maður ef hann hefði sagt á þá leið, að hann hefði tekið of mikið upp í sig í Ed. og hann sæi eftir því að hafa látið slík ummæli falla. Þá hefði verið fljótt að fenna í sporin og ekki þurft að hafa um það fleiri orð. En þó hann telji það mikils virði fyrir sig að reyna að gera mig að einhverjum sakamanni í þessu máli — og er um leið að ráðast á hina sex nm. því að ég ætla þá ekki svo utan við sig að skrifa undir nál. og vera með nál. og þegja við tvær umr. málsins, — þeir séu eins utan við sig og hæstv. ráðh. viðurkennir að hann sé. Ráðh. og embættismenn deilda hafa þau forréttindi fram yfir aðra þm., að þeir fá öll þskj. á borðið til sín í upphafi hvers þingfundar og þurfa ekki að fara nema aðeins í þau mál sem eru á dagskrá þess fundar, og það hefði ekki tekið margar sekúndur fyrir hæstv. fjmrh. að draga út plaggið um frv. um breytingu á söluskatti. Það er stundum kannske lengur verið að finna það hjá óbreyttum þm. Þetta er því varla ástæða til þess að afsaka sig með.

Það, sem kemur fram og er alrangt hjá hæstv. ráðh., er að þetta mál hafi farið á einhverjum ofsahraða hér í gegnum þd., heldur síður en svo. Meira að segja tók hv. formaður n. undir að það hefði tekið sinn tíma að afgreiða málið, og e. t. v. og örugglega er það honum að þakka eða kenna, eftir því hvernig hver og einn vill líta á það, hvað málið var lengi í nefnd. Það var af þeirri ástæðu sem hann gat hér um, að hann var ekki reiðubúinn og sagði það strax — hann var ekki reiðubúinn að samþykkja þetta frv. óbreytt. Hann vildi kanna málið, eins og hann gerir yfirleitt í sambandi við afgreiðslu og meðferð mála, en að þessum upplýsingum fengnum og með þeim breytingum, sem gerðar voru á frv., léði hann atkvæði sitt þessu máli með þessari breytingu.

Ég tel því ekki ástæðu til þess að hæstv. fjmrh. að endurtaka ásakanir sínar. Hvorki ég né aðrir nm. álítum okkur sökudólga í þessu máli. Og ég tek það fram, að margir þm. eru þá orðnir miklir sökudólgar þegar þeir jafnvel í tímaskorti koma hér í ræðustól, þegar þeir eiga að mæla með málum, og segja aðeins: Nefndin mælir með samþykkt frv. — eins og oft og einatt kemur fyrir og þá einkum hjá stjórnarliði á hverjum tíma, ekki endilega því stjórnarliði sem nú er. Þá er ekki verið að rekja gang mála eða umsagnir. Hitt má kannske til sanns vegar færa, að það eigi alltaf að rekja allar umsagnir, en þá á það að vera almenn þingvenja, en ekki árásarefni á einhverja ákveðna menn eða ákveðna nefnd.

Ég vil að það komi hér fram að síðustu, að ég tel að fjh.- og viðskn. þessarar hv. d. eigi það ekki skilið að fá slíka ásökun frá hendi hæstv. ráðh. Ég tel að sú n. starfi mjög vel undir forustu formanns n., og það hefur ekkert sældarbrauð verið hjá honum síðustu daga og öðrum nm. að koma málum áleiðis og í gegnum þessa nefnd. Og ég verð að segja það, að þó að okkur greini oft á um efnismeðferð og í skoðunum til mála, þá held ég að vart sé hægt að hugsa sér betra samstarf á milli nm. og við formann n. og í þessari nefnd.