15.05.1981
Neðri deild: 95. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4495 í B-deild Alþingistíðinda. (4549)

290. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Það hefur þegar verið samþykkt hér till. um að hafa annan hátt á útgáfu skattskrár en ákveðið var með lögum á síðasta þingi. Þá var ákveðið að haga útgáfu skattskrár með þeim hætti að hún væri ekki gefin út fyrr en að loknum kærufresti. Ég er þeirrar skoðunar, að það hafi verið mjög heppilegt að skattskráin var ekki gefin út á s. l. ári þó að meiningin væri að hún kæmi út í nóvember. Hún er að vísu ekki komin út enn, en lögin gerðu ráð fyrir að sá háttur yrði hafður á.

Í þeirri skattskrá hefði verið svo mikið af villum að hún hefði gefið mjög villandi upplýsingar um skatta manna í landinu. Ég er mótfallinn því, að gefnar séu út mjög villandi upplýsingar um skatta aðila. Ég óttast að svo verði einnig á þessu ári, vegna þess hversu síðbúnar þessar breytingar eru, að mjög mikið af villum verði í slíkri skattskrá þannig að hún muni gefa villandi mynd.

Nú hefur þegar verið samþykkt breyting þess efnis, að skattskrá skuli í reynd gefin út tvívegis, þ. e. fyrst eftir álagningu og síðan endurskoðuð að loknum kærufresti. Með ákvæði til bráðabirgða er þó ákveðið að það skuli ekki gert í ár vegna þessara aðstæðna. Ég hefði talið heppilegra að bíða með að gera slíka breytingu sem þessa þar til reynsla fengist af skattaálagningu nú í sumar. En þar sem þessi brtt. við ákvæði til bráðabirgða gerir ráð fyrir að þetta ákvæði taki ekki gildi fyrr en á næsta ári segi ég já.