15.05.1981
Neðri deild: 96. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4500 í B-deild Alþingistíðinda. (4558)

290. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það er þreytandi að ræða um beitningamenn og netamenn við hæstv. fjmrh. sem greinilega hefur aldrei nálægt þvílíku komið. Ég hélt að við beitingu hefðu starfað og notið fiskimannaafsláttar ýmsir þeir sem aldrei hefðu á sjó komið. A. m. k. veit ég dæmi þess, og þótt hann hafi eftir ýmsum af æðstu embættismönnum ríkisins að það sé skilyrði fyrir beitingarvinnu í landi að hafa farið á sjó, þá er það algjör misskilningur. (Fjmrh.: Það sagði ég aldrei.) Þú sagðir, að auðvitað ættu ekki aðrir að fá sjómanafrádrátt en þeir sem færu á sjó, og talaðir um að menn drægju björg úr skauti hafsins eða eitthvað á þá leið. Hæstv. fjmrh. og talaði fagmannlega í þetta skiptið. En auðvitað er það svo um ýmsa landmenn við útgerð, að ýmsir þeirra eru jöfnum höndum sjómenn, og svo er um flesta þá sem ég er hér að tala um. Það eru kannske einn eða tveir landmenn, þeir hlaupa í skarðið og fara á sjóinn þegar á þarf að halda, þegar forföll verða og annað því um líkt, en eru öðrum þræði í landi. Þannig er skipst á og reynslan hefur orðið sú upp á síðkastið, þegar menn hafa gefið sér tíma til þess að vera meira frá og þegar bátarnir hafa orðið dýrari og menn hafa orðið að halda sér meira við, að landmenn hafa jafnvel orðið tveir. En þarna er öðrum þræði um að ræða gamla sjómenn, sem fara í einstaka túra, og öðrum þræði menn, sem eru jöfnum höndum á bátunum ef á þarf að halda, meira eða minna. Hér er því ekki um það að ræða að það séu einhverjir fínir útgerðarmenn, sem aldrei hafa nálægt sjó komið, einhverjir jafnokar ríkisskattstjóra eða ráðuneytisstjóra fjmrn. eða jafnvel fjmrh. sjálfs, sem ég er að biðja um fiskimannaafslátt fyrir. Það er hreinn útúrsnúningur. Það, sem um er að ræða, er einfaldlega það, að ef landmenn uppfylla það ákvæði, sem hér er sett fyrir beitningamenn á línubátum, að þeir njóta greiðslu fæðispeninga frá áhafnardeild Aflatryggingasjóð, þá skuli þeir einnig njóta fiskimannafrádráttar. Þetta er allt og sumt sem ég fer fram á. Ég fer fram á að landmaður, sem nýtur greiðslu fæðispeninga frá áhafnadeild Aflatryggingasjóðs, fái fiskimannafrádrátt hvort sem báturinn er gerður út á línu eða það er netaúthald. Þetta er afskaplega einfalt.

Ég hef reynt að gera bæði hæstv. fjmrh. og embættismönnum hans grein fyrir þessu dag eftir dag án árangurs. Þeir segja mér ævinlega, að þeir séu kunnugri fyrir norðan en ég, og náttúrlega í skjóli þess að enginn sé viðstaddir sem, getur betur um það dæmt. En réttast væri að bjóða þessum mönnum öllum norður og láta þá ganga þar um verstöðvar og láta þá svo staðfesta þau ummæli sem þeir hafa hér uppi í hliðarherbergjum. Er fjmrh. kannske reiðubúinn til að beita sér fyrir því, ef það skyldi koma upp úr kafinu að ég hafi rétt fyrir mér að landmenn á netabátum hafi notið greiðslu fæðispeninga frá áhafnadeild Aflatryggingasjóðs, að þeir fái þá að njóta þessa réttar? Um það snýst málið.