16.10.1980
Sameinað þing: 4. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í B-deild Alþingistíðinda. (46)

Beiðni um umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Enn eru stjórnarandstæðingar komnir í hár saman. Fulltrúar Sjálfstfl. heimta umræður um Flugleiðamálið, skýrslu ríkisstj. um það mál. Þingmenn Alþfl. eru því algerlega mótfallnir, enda hafa þeir komið þessari ósk á framfæri með formlegum hætti og verið samþykkt að taka málið til umræðu. Forseti hefur úrskurðað að umræðan fari fram á þriðjudag og ekki skuli orðið við þessum tilmælum þingmanna Sjálfstfl. Auðvitað er þetta hárréttur úrskurður og ekkert annað við hæfi. En sem sagt, ég vek athygli á því, að enn eru stjórnarandstæðingar komnir í hár saman. Það ætlar að fara svo, að átök og samkeppni stjórnarandstæðinga einkenni fremur en flest annað upphaf þessa þings.

Ég ætla ekki að fara neinum frekari orðum um þessar umræður eða Flugleiðamálið almennt. Ég vil aðeins staðfesta það, sem kom fram áðan í orðum hæstv. samgrh., að á fundi ríkisstj. í morgun, þar sem fjallað var um Flugleiðamálið, var alger samstaða um meðferð þess máls. Það er ekki ágreiningur í ríkisstj. um það, hvernig á þessu máli skuli tekið. Frumvarp ríkisstj. verður til athugunar í þingflokkunum í dag, og að öllu forfallalausu verður það lagt fram hér á þingi strax eftir helgi.