16.05.1981
Neðri deild: 97. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4539 í B-deild Alþingistíðinda. (4667)

138. mál, tollskrá

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal reyna að ljúka máli mínu fyrir kl. þrjú, en ég vil ekki láta hjá líða að þakka fyrst og fremst varaformanni n. fyrir að hlaupa í skarðið fyrir formann og mæla fyrir nál. þannig að þetta litla frv. mitt, sem ég flyt á þskj. 165, nái fram að ganga.

Eins og kemur fram í grg. var frv. þetta flutt til að fella niður tolla af matvælum, sem sérstaklega eru ætluð ungbörnum, og leiðrétta mikið misrétti sem er á tollskránni og virðulegur talsmaður fjh.- og viðskn. gat um áðan.

Ég vil einnig þakka fjmrh. fyrir það brautargengi, sem hann hefur veitt þessu frv., og félögum mínum í fjh.- og viðskn. fyrir undirtektir og lýsa yfir að það er algjör samstaða um þá brtt. sem n. hefur flutt, enda er ég þar meðflm. að.

Ég vil leyfa mér að vona að hv. þdm. taki vel undir afgreiðslu þessa máls nú og veiti því áfram brautargengi því hér er um réttlætismál að ræða.