16.05.1981
Efri deild: 105. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4543 í B-deild Alþingistíðinda. (4686)

315. mál, Bjargráðasjóður

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Þetta mál á sér nokkra sögu sem ég ætla ekki að fara að rekja hér ítarlega. Hæstv, fjmrh. minntist á óveðrið sem var í febrúar s. l. Tveim dögum eftir það óveður var rætt hér í hv. Ed. um aðgerðir til þess að hægt væri að mæta því tjóni sem fjöldi manns hafði orðið fyrir í óveðri þessu. Þá lýsti ég till., sem við sjálfstæðismenn í þessari hv. deild lögðum fram, um að efla Bjargráðasjóð til að gegna þessu hlutverki með því að honum yrði útvegað fjármagn að upphæð allt að 30 millj. kr., eins og það var orðað þar. Virtust allir vera sammála um að það væri nauðsynlegt að gera ráðstafanir til þess að hægt væri að aðstoða þá sem hefðu orðið fyrir þessum skaða. Menn voru að vísu sem bollaleggingar um að það ætti að gera með því að heimila Viðlagatryggingu Íslands að sinna þessu hlutverki. En við sjálfstæðismenn lögðum áherslu á, að það væri einfaldast að efla Bjargráðasjóð, og bárum þess vegna fram brtt. við frv. um lánsfjárlög á þá lund. Ríkisstjórnarliðið vann það afrek, eftir allt sem á undan var gengið í umræðum um þetta mál, að fella þessa brtt. En það hefur greinilega séð sig um hönd og er nú með þessari till., sem hér er lögð fram, að efla Bjargráðasjóð til hins sama og við sjálfstæðismenn lögðum til í febrúar s. l.

Ég stend þó ekki hér til að fara að rekja þessa sögu sérstaklega því það væri hægt að rekja hana miklu ítarlegar. En það, sem gaf mér tilefni til að standa hér upp, voru þau orð hæstv. fjmrh., að gert væri ráð fyrir að það yrðu vextir á lánum til þeirra sem Bjargráðasjóður veitti af þessu fé. Ég vil vekja athygli á því, að aðstoð Bjargráðasjóðs hefur verið með tvennum hætti: annars vegar með lánum og hins vegar með óafturkræfu framlagi. Spurning mín til hæstv. fjmrh. á þessu stigi er sú, hvort ekki megi vænta þess, að það sama gildi um ráðstöfun þess fjár, sem gert er ráð fyrir að útvega samkv. þessu lagafrv., og hefur gilt um ráðstöfun fjár Bjargráðasjóðs, þ. e. að því geti verið ráðstafað bæði til útlána og til óafturkræfs framlags til þeirra sem fyrir tjóni hafa orðið.