18.05.1981
Neðri deild: 99. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4564 í B-deild Alþingistíðinda. (4735)

283. mál, lagning sjálfvirks síma

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns sérstaklega þakka hv. 7. landsk. þm. Hann er búinn að flytja hér tvær stuðningsræður við þetta frv. Í hinni fyrri lofaði hann stuðningi Sjálfstfl. og í þeirri síðari fulltingi stjórnarandstöðunnar allrar við að koma þessu máli áfram. Ég verð að segja eins og er, að það er ákaflega gagnlegt þegar menn sameinast þannig að vinna að góðum málum. Ég efa ekki að hann muni sjá til þess, að þetta verði ekki orðin tóm. Hann er vanur að fylgja sínum málum eftir. Við þurfum þess vegna ekki að óttast að framgangur þessa máls verði ekki með ágætum hér í deildinni.