18.05.1981
Neðri deild: 99. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4564 í B-deild Alþingistíðinda. (4736)

283. mál, lagning sjálfvirks síma

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég kem ekki í ræðustól til að mæla gegn eða deila á það frv. til l. sem hér liggur fyrir um lagningu sjálfvirks síma á þskj. 578. Ég held að það sé stórt spor stigið í rétta átt þegar hægt er að tímasetja símavæðingu í landinu öllu, og því fyrr því betra. En ég hef áður rætt þessi mál öðru hvoru allt frá því að ég kom til starfa á hv. Alþingi og hef þá haft nokkuð aðrar skoðanir á málum og viljað fara aðrar leiðir en lagt hefur verið til að fara. Sama má segja um þetta frv. hér. Ég er t. d. á því, að við eigum að leggja niður þá einokun sem er á símatækjum og allri þjónustu við heimilin og þjónustu við þá sem nota símann. Við eigum að leggja þá einokun niður í þeirri mynd sem nú er, og ríkissjóður á ekki að veita fjármagn til innkaupadeildar Landssímans sem sér um símtækin sjálf eða efni til þeirra, — síst af öllu í varahlutabirgðir og varahlutaþjónustu. Ég tel að sú deild eigi að dreifast á fagmenn á hinum frjálsa markaði. Það er ekkert annað en rafvirkjastarf sem þarna er unnið, og símatæki eru afskaplega lítið flókin tæki. Það á ekki að vera einokun á því sviði frekar en það er ekki einokun á innflutningi á eldavélum eða ljósastæðum eða lömpum og brauðristum og ýmsu öðru. Það er ekki heldur einokun af ríkisins hálfu á sjónvarpstækjum, sölu þeirra eða uppsetningu, eða útvarpstækjum, og síminn er þó enn þá minna flókið tæki en þau. Ég held því að það eigi að létta þessari einokun af, ríkið eigi ekki að fjármagna þá heildsölu sem þar er í gangi, heldur dreifa fjármögnuninni yfir á þá einstaklinga, sem vilja flytja þessi tæki inn, og þar með skapa þá fjölbreytni sem annars staðar finnst í tækjunum sjálfum sem á boðstólum eru hverju sinni.

Þá hef ég líka sagt að símvirkjaskólinn, sem tekur talsvert fjármagn til sín, eigi ekki að vera á vegum stofnunarinnar. Rafvirkjar eiga að læra símvirkjun um leið og þeir taka próf í rafvirkjun þannig að hver rafvirki á að geta hugsað um og þjónað þessum tækjum eins og öðrum rafmagnsvélum eða heimilistækjum.

Þá er í þriðja lagi þess að geta, sem ég held að sé kannske ekki rétt að ýta til hliðar miklu lengur, eins og gert hefur verið hér allt frá því að ég byrjaði að tala um þessi mál, að símatæki eru ekki flókin tæki og þessi tæki er hægt að framleiða hér og þau á að framleiða innanlands. Ef þau eru ekki framleidd innanlands á alla vega að setja þau saman hér og byggja upp samsetningariðnað einhvers staðar, kannske á fleiri en einum stað, þar sem vinnumarkaðurinn er þröngur, þar sem atvinnu vantar úti á landi. Þetta á að verða smáiðnaður, sem gæti kannske haldið uppi einu eða tveimur byggðarlögum. Tækjafjöldinn, sem við notum frá ári til árs, mundi áreiðanlega standa undir velmegun einhvers byggðarlags á Íslandi. Hulstrin, sem eru yfirleitt úr plasti, er hægt að framleiða hér innanlands líka. Öryrkjabandalagið er með framleiðslu á plastsviði og framleiðir margar ágætar vörur.

Ýmislegt, sem við erum að flytja inn með símatækjunum, bæði vinnulaun og ýmislegt annað, gætum við gert hér mjög vel. Ef við færum út í að minnka fjármögnun á þessari þjónustudeild Landssímans, en notuðum það fé til þess að símavæða landið, þá hef ég trú á að við gætum símavætt landið á skemmri tíma en kemur fram í þessu frv., og kannske væri þá hægt að komast hjá því að taka erlent lán til að flytja inn vinnu og tæki sem við getum framleitt hér heima.

Þetta er það sem ég vildi að kæmi hér fram. Ef þm. telja þessa hugmynd enn í dag, líklega 6–7 árum eftir að ég fyrst ræddi þetta hér á hv. Alþingi, ekki góða hugmynd mundi ég segja að það næstbesta væri að gera þetta á þann hátt sem hér er lagt til, en það mætti flýta aðgerðinni og hafa árin færri. Fimm ár frá 1. jan. eru allt of langur tími. Vandamálið um land allt er það aðkallandi að þetta verður að vera eitt af forgangsverkefnum. Ég verð að segja það enn þá einu sinni, að þetta er eitt af því sem ég lærði að skilja betur en áður s. l. sumar þegar ég ferðaðist vítt og breitt um landið. Ég mun því styðja þetta frv., þó að ég telji tímann langan, en mín forgangsverkefni mundu vera falin í því sem ég hef hér áður sagt.