18.05.1981
Neðri deild: 99. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4566 í B-deild Alþingistíðinda. (4738)

283. mál, lagning sjálfvirks síma

Páll Pétursson:

Herra forseti. Hér er um mikilvægt réttlætismál að ræða. Sími er nauðsynlegt tæki í nútímaþjóðfélagi og það er eðlilegt að stefna að því að gefa öllum landsmönnum kost á að nota þetta nauðsynlega tæki, þennan sjálfvirka síma. Eins og sést í þessu frv. eru rúmlega 3200 sveitaheimili hér á landi sem hafa ekki enn þá fengið aðstöðu til að nota sér þessa þjónustu og er brýnt að úr því sé bætt. Ég get tekið undir með þeim sem hafa látið í ljós að áætlunartíminn sé langur, en betra er þó að hafa nokkra vissu fyrir, að þetta verk verði unnið á 5 árum, en þurfa að horfa upp á að það taki kannske 10 ár eða lengri tíma.

Hvað varðar mál, sem hér hefur borið á góma um lokun smástöðvanna, hef ég þá sögu að segja úr Norðurl. v., þar sem nokkrar smástöðvar hafa verið lagðar niður og tengdar á stöðvar með næturþjónustu, að það er góð bráðabirgðalausn, — að sjálfsögðu engin fullnaðarlausn, en tvímælalaust spor í rétta átt. Ég held að það sé gegnumgangandi stefna Landssímans að allar breytingar á þjónustu séu hugsaðar til bóta fyrir notendur. Hitt er annað mál, að úr sumum sveitarfélögum hafa borist mótmæli við þessum breytingum, en þau eru, held ég, borin fram að einhverju leyti vegna þess að það tapast þarna tekjur úr sveitarfélögunum. Menn eru líka að horfa í það, þetta eru kannske lítil sveitarfélög og það kemur e. t. v. við sveitarsjóð ef símstöðvarstjórar eða starfsfólk á símstöðvum hættir að fá þessar tekjur. En það er tvímælalaust til bóta að geta náð allan sólarhringinn, þó með handvirku sambandi sé, en hafa ekki nema fjögurra stunda þjónustutíma á dag, eins og víða hefur verið.

Það gleður mig mjög hvað hv. þm. Albert Guðmundsson er orðinn góður talsmaður dreifbýlisins, og sannar það að forsetaframboðsferð hans hefur verið árangursrík. Ég hygg að margir þm. hér á Faxaflóasvæðinu, sem stundum eru tregir á að sýna okkur dreifbýlisbúum skilning á málefnum okkar, gætu mikið af þessu lært, því að auðvitað er þetta þannig, að þegar menn kynnast vandamálunum fara þeir líka að viðurkenna þau. Það er kannske til of mikils mælst, bæði fyrir þá og þjóðina, að þeir fari allir í forsetaframboð til að öðlast þessa reynslu, en allt um það er gott að fá hana.

Ég vil svo að endingu þakka samgrh. og ríkisstj. fyrir þetta frv. og samgrh. sérstaklega fyrir að leggja mikla áherslu á að það verði afgreitt nú fyrir þinglok.