11.11.1980
Sameinað þing: 17. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 633 í B-deild Alþingistíðinda. (479)

61. mál, vegurinn undir Ólafsvíkurenni

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Ég fagna þeirri till. sem hér er til umr. Það má kannske segja að ekki sé vonum fyrr, að þetta mál komi í till. hingað inn á hv. Alþ., því að svo mikið vandamál er þetta a.m.k. fyrir okkur sem búum fyrir utan Enni og fyrir alla byggðina á Snæfellsnesi, sá þröskuldur sem þarna er.

Mig langar til að hoppa svolítið aftur í tímann áður en ég fjalla frekar um efni tillögunnar.

Ég kom á Hellissand 1952 og hafði kynnst ýmsum vandamálum í vegagerð annars staðar á landinu. En mér varð svo svolítið bilt við að koma á Hellissand, sem var algjörlega einangraður staður frá samgöngukerfi landsins. Það var ekki aðeins að ekki væri hægt að komast þangað á venjulegum bílum, heldur var ekki hægt að komast þar að landi á skipum, ekki einu sinni 20 tonna fiskibátum. Það var ekki nem hafnaraðstaða eða neitt þess háttar til í hreppnum. Reyndar bjuggu Neshreppingar þá við það merkilega ástand, sem hefur stundum skapast hér í flugmálum, að þarna var flugvöllur og þangað komu flugvélar bæði frá Loftleiðum og Flugfélagi Íslands á þeim tíma sem ég kom þangað. En sleppum því. Til 1956 er Hellissandur á þessu stigi. Þar er ekki nein aðstaða til að hafa samskipti við umhverfi sitt öðruvísi en að fara á jeppum undir Enni eða komast á flugvélum.

Á árinu 1956 er Útnesvegur tengdur, en það er vegurinn fyrir Jökul, og á sama ári hefjast róðrar að nýju úr Rifshöfn með því að stærri fiskibátar geta hafið útgerð þaðan. Það voru uppi miklar umræður um hvernig ætti að leysa samgönguerfiðleika milli Ólafsvíkur og Hellissands. Það voru uppi tillögur um að fara á bak við Enni og síðan að reyna að komast þá leið, sem seinna var valin, að fara utan í Enninu.

Allar götur síðan 1954, að ég fór að taka þátt í sveitarstjórnarmálum í Neshreppi, var það eitt af aðalmálum okkar að flytja tillögur um það eða berja á því að vegur yrði gerður á milli staðanna. Við nutum dyggilegs stuðnings hreppsnefndarinnar í næstu byggð, Ólafsvík, að þessu máli. Svo er á árinu 1963 tekin sú ákvörðun að leggja veginn um Ólafsvíkurenni. Ég held að það sé full ástæða til að gleyma ekki nú, þegar við erum að ræða um þetta mál, ég hef a.m.k. litið svo á, að sá maður, sem réð þar úrslitum, var Gunnar Thoroddsen sem nú er forsrh. okkar. Hann var þá fjmrh. í svokallaðri viðreisnarstjórn. Ég hef a.m.k. metið það svo, að fyrst og fremst að hans forgöngu hafi verið ráðist í Ennisframkvæmdina. Þó seint sé tel ég rétt að koma þessu áleiðis inn á hv. Alþ. og ég þakka fyrir stuðning hans við það mál.

En þó að á árinu 1964 væri unninn þessi stóri áfangi, að vegurinn undir Enni var lagður, var það svo, að þessi vegur var langt frá því að vera öruggur og við vorum langt frá því að vera í öruggu samgöngukerfi. Eins og flm. benti á áðan er stöðugt — og þó sérstaklega á síðari árum í auknum mæti — hrun úr Enninu sem lokar allt að því veginum eða gerir veginn stórhættulegan. Það má segja að það sé sérstök mildi að þarna hafi ekki átt sér stað slys á fólki til þessa tíma, en þarna hafa átt sér stað þó nokkuð mörg slys á bílum.

Það hefur verið velt vöngum yfir því, til hvaða ráða skyldi grípa til þess að minnka eða útiloka þessa hættu, en út úr því hefur ekkert komið, og það hefur verið byrjað á því að leika sama leikinn og leikinn var árin fyrir 1963–1964 að senda samþykktir og senda ályktanir um að kanna þetta og laga þetta. Því miður — það verður að koma fram — hefur verið óskaplega lítið undir slíkt tekið. Jafnvel þó að við höfum bent á ákveðna vankanta undir Ólafsvíkurenni hefur þannig æxlast að ekki hefur verið gengið í að bæta úr þeim fyrr en þá allt að því eftir dúk og disk. Sem betur fer er mildin yfir Enninu þannig að af þessu hafa ekki hlotist sérstök slys.

Það er rétt að blanda því í þetta mál, að ástand hjá okkur fyrir utan Enni er þannig, að á þeim tímum, sem verst eru veður og hættulegast er að fara undir Enni, getur oft og tíðum Útnesvegur — önnur aðalsamgönguleið okkar — verið lokaður. Tímum saman yfir veturinn er ekkert hugsað um að halda Útnesvegi opnum og þar af leiðandi er ekki sú öryggiskennd fyrir hendi að komast megi þá leið eða komast að byggð okkar eftir þeirri leið og er það oft og tíðum mjög hvimleitt. Fólk er að koma að sunnan og fréttir að Ennið sé slæmt, og þá er ekki um það að velja að komast Útnesveg. Ég leyfi mér að leggja á það áherslu einmitt í sambandi við umræður um Ennisveg, að menn láti ekki deigan síga, en berjist fyrir bættri og aukinni vegagerð um Útnesveg einmitt með það sjónarmið í huga að hafa hann sem öryggisleið þegar Ennið er lokað, þ.e. fram að þeim tíma að búið er að tryggja Ennið. Væntanlega tíður ekki langur tími þangað til, en búast má þó við að það taki nokkurn tíma.

Flm. tók það fram, að á Rifi eða í Neshreppi væri flugvöllur okkar Sandara og Ólsara eða Neshreppinga og Ólsara. Vitaskuld er hann eins og aðrir flugvellir jafnt farþegaflugvöllur sem öryggisflugvöllur, sjúkraflugvöllur. Þess vegna er nauðsynlegt að hægt sé að komast að honum við flestar aðstæður. Einnig er læknir okkar Neshreppinga búsettur í ólafsvík og bæjarfélögin standa saman að heilsugæslustöð sem á að byggja í Ólafsvík. En eins og nú er í Ólafsvík vísir að heilsugæslustöð og þar búa læknar okkar. Það er náttúrlega ekki gott til þess að hugsa og vita til þess, að fyrir 600 manna byggð eins og okkar sé við hættulegustu aðstæður, í vondum veðrum og slíku, ekki um það að ræða að komast á milli staða nema með því að leggja sig í mikla hættu.

Ég vona að þessi till. verði samþykkt og þá verði hafist handa strax um að rannsaka samkv. henni og gera tillögur. Mér detta í hug vissir möguleikar á, hvað gera skuli, og nefni hér leiðir sem við höfum verið að velta vöngum yfir:

Það, sem ég tel að verði að vera fyrst og fremst, þar til frekari aðgerðir eru gerðar við Enni, er að aukið verði öryggi með því að Útnesvegi verði haldið opnum þannig að sú leið sé jafnan fær fyrir þá 600 manna byggð sem er fyrir utan Enni.

Það eru fjórar leiðir sem rétt er að nefna í sambandi við það að leysa samgönguvandamál milli Neshrepps og Ólafsvíkur:

Það eru í fyrsta lagi göng, sem ég tel við þær aðstæður, sem nú eru, fjarlægan möguleika sem ekki er líklegt að verði horfið að. Það er í öðru lagi vegur bak við Enni, en frá þeirri hugmynd var horfið þegar löngu áður en ákveðið var að leggja veginn utan í Enni, vegna þess að það er miklu lengri leið og auk þess snjóþung. Í þriðja lagi er vegur undir Enni, sem bent er á í grg., en að mínu mati er frekar verið að nefna sem leið en að það sé raunhæfur möguleiki að það verði byggður vegur frammi í sjó undir Ólafsvíkurenni. Það er harla erfitt að lýsa því, en við þekkjum það, sem fórum oft undir Ólafsvíkurenni áður, að öldurótið þar og sjávarhæðin þar er svo mikil að það er ekkert smávegis mannvirki sem þyrfti að gera ef ætti að leggja veg undir Enni, og þá held ég að það væri komið að því sem hv. þm. Ingólfur Guðnason sagði í umr. áðan, að það væri farið að byggja ævintýravegi.

En í fjórða lagi nefni ég yfirbyggingu yfir veginn, og það er sá annar valkostur sem nefndur er í grg. Ég tel að það sé einmitt sú leið sem sé æskilegust og auðveldast að framkvæma. Ég tek ekki undir það, sem sagt er í grg., að það þurfi að leggja þarna 1000 m yfirbyggðan veg til að afstýra meginhluta af snjóflóðahættu. Ég held að það sé miklu styttri leið. Vitaskuld verður erfitt að gera alla vegi á Íslandi hættulausa. En til þess að gera Ennisveginn að tiltölulega lítið hættulegum vegi þarf miklu styttri leið en þetta. Fyrir utan það væri hægt í tiltölulega litlum áföngum, ef horfið verður að því að bygg ja yfir veg undir Enni, að byrja að byggja yfir veginn og gera það smátt og smátt og tak verstu kaflana fyrst. Ég legg mikla áherslu á að gengið verði í það nú og gengið í það sem fyrst.

Ég vænti þess, að hv. Alþ. samþykki þessa till. um að kanna þær leiðir, sem þarna eru líklegar, og í framhaldi af því verði á næstu vegáætlun eða á fjárlögum ákveðin fjárhæð til þessarar rannsóknar. Svo vona ég að í beinu framhaldi af því verði tekið til við ákveðna framkvæmd og það ástand, sem er hjá okkur, sem búum utanvert við Enni, og hjá þeim, sem þurfa að ferðast undir Enni, verði bætt og við komumst í sæmilega góðar samgöngur og öruggar við önnur byggðarlög.