20.05.1981
Neðri deild: 102. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4763 í B-deild Alþingistíðinda. (4989)

38. mál, kjarasamningar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Það urðu örlög mín við þessa umr. að taka undir með Karvel Pálmasyni, sem ég hélt að yrði nú helsti andmælandi minn, vegna furðulegrar yfirlýsingar Guðrúnar Helgadóttur, sem stafar náttúrlega af hreinni vanþekkingu og algeru reynsluleysi í samskiptum þessara aðila. Hvaða aðili skyldi það hafa verið sem hafi gengið úr ASÍ í BSRB? Margir. Hverjir hafa gengið úr BSRB í ASÍ? Ég þekki ekki einn einasta. En það eru heilir hópar sem hafa streymt yfir í BSRB. Ég kólna upp við að fá svona yfirlýsingu frá samherja og vil nú biðja þingheim hreinlega að taka ekki alvarlega fullyrðingar um að BSRB hafi aldrei seilst yfir á yfirráðasvæði Alþýðusambandsins eða reynt það efnislega að ásælast félagsmenn þaðan. (Gripið fram í. — Forseti: Ekki samtal á fundinum þótt komið sé fram á nótt.) Ég get fyrirgefið þm. þó hann vilji nú eitthvað leiðrétta þessar yfirlýsingar sínar, og bið ég forseta að virða honum þetta til betri vegar.

Hins vegar liggur þetta mál ákaflega ljóst fyrir. Meiri hl. nefndarinnar sem skilar áliti segir:

„Fjmrn. hefur sent nefndinni bréf varðandi málið sem fylgir nál. Undirritaðir nefndarmenn leggja til að frv. verði samþykkt með þeim skilningi varðandi 1. gr. er fram kemur í bréfi fjmrn.“

Yfirlýsing fjmrh. var reyndar gefin seinni hluta síðasta árs um forgangsrétt ASI og í þessu bréfi er sterkari yfirlýsing en ASÍ hefur áður fengið um að tryggja sína félagsmenn hjá ríki og ríkisstofnunum. Í því er tvímælalaus ávinningur.

Varðandi sjálfseignarstofnanir er sá skilningur uppi, sem fjmrh. skýrði mjög greinilega áðan, að þessar stofnanir verða að samþykkja að fjmrn. sé samningsaðili fyrir þær. Ef svo er ekki verður ófremdarástand.

Meginatriði þess frv., sem hér liggur fyrir, er að tryggja félagsmönnum BSRB — að vísu er ekki nema hluti þessara manna félagsmenn sem hafa verið hjá þessum sjálfseignarstofnunum — atkvæðisrétt. Þeir hafa nú atkvæðisrétt nema í sáttatillögum, eins og fjmrh. tók fram, en það er áskilið og liggur ákaflega skýrt fyrir að fjmrn. færi þá með samningsumboð. Sé svo ekki er óbreytt ástand.

Ég sé ekki að Alþýðusambandið sé í neinni hættu eftir þessa yfirlýsingu og eftir þessa túlkun sem hefur komið hér ákaflega skýrt og greinilega fram hjá fjmrh. Ágreiningurinn í nefndinni eða vangaveltur nefndarinnar voru kannske vegna þess að málflutningur formanns BSRB á nefndarfundi var á þann veg eins og hv. 1. þm. Vestf. tók hér fram. Þm. var ákaflega hlutlaus í þessu máli, hlustaði á mál beggja aðila, og án þess að ég sé að gera hann að hæstarétti fór hann að öllu leyti rétt efnislega og drengilega með efnisatriði þessa máls í n. Það var túlkun formanns BSRB sem gerði það að verkum að bæði ég og fleiri nm. vorum hreinlega undrandi. Þetta kom fram hjá hv. 1. þm. Vestf. Hann taldi að Alþýðusambandið hefði þurft að verja rétt sinn, efnislega var það á þá leið, og það var ekki síst vegna túlkunar formanns BSRB á nefndarfundi.

Fyrir nefndina hafa einnig komið tvisvar sinnum forseti og varaforseti Alþýðusambandsins. Eftir þá yfirlýsingu, sem hér liggur frammi, telja þeir að þeir geti efnislega vel við unað og hagsmunir Alþýðusambandsins séu tryggðir. Hagsmunir Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, sem þetta lagafrv. fjallar um, 2. gr., hvað varðar atvinnuleysistryggingar, eru tryggðir ágreiningslaust. Í 1. gr., þar sem sjálfseignarstofnanir eða hálfopinberar stofnanir fara með samninga og ríkið fer með samninga fyrir þær, eru þeirra hagsmunir tryggðir líka. Þetta þarf ekki að stangast á. Þetta verður samþykkt með þeim skilningi, sem fram kemur í bréfi fjmrn. og hann er lagður til grundvallar í nál.

Ég vil minnast á ummæli Karvels Pálmasonar um að t. d. félag eins og starfsstúlknafélagið Sókn muni liðast í sundur. Ég held að fyrir það sé girt með þessari yfirlýsingu. Erfiðleikarnir hafa kannske verið mest hjá sveitarfélögum úti á landsbyggðinni, sem hafa gert starfsfólk að opinberum starfsmönnum vegna þess að í ótrúlega mörgum tilfellum hefur ríkið samið miklu betur en er á hinum almenna vinnumarkaði hjá almennum verkalýðsfélögum. Það virðist hafa verið tilhneiging til að gera helst sem allra flesta að opinberum starfsmönnum. Það er meira en lítið varhugaverð þróun. Ég álít að það sé t. d. sjálfgert að hjúkrunarfræðingar og aðrir slíkir á sjúkrahúsum, sem að einhverju leyti eru sjálfseignarstofnanir, eigi vitanlega að vera í BSRB því að það hefur enginn samninga fyrir slíkt starfsfólk nema það, en ekki að ræstingastúlkur og stúlkur, sem annast matreiðslu og annað þess háttar, séu skilyrðislaust í BSRB.

Það er alveg fullkomlega rétt hjá Karvel Pálmasyni, sem ég bjóst við að yrði hér helsti andmælandi minn, að full þörf er á að vernda fólk fyrir yfirgangi BSRB. En þó að þessi ágengni hafi ríkt í röðum þessara samtaka vil ég ekki svipta menn rétti til að hafa atkvæðisrétt um kaup og kjör eftir þeim skilyrðum sem túlkuð voru hér af fjmrh. Ég vil ekki svipta þá rétti til atvinnuleysistrygginga. Ég held að við Karvel Pálmason þurfum ekki að vera að deila um þetta. Ég held að með nál. og með þeim skilningi, sem kemur fram í bréfi fjmrn., sé ekki lengur þarna að óttast yfirgang.

Um hugarfar forustu BSRB vil ég ekki ræða hér, enda býst ég við að við Karvel Pálmason séum ærið sammála í þeim efnum.