21.05.1981
Sameinað þing: 87. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4772 í B-deild Alþingistíðinda. (5020)

280. mál, stóriðjumál

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Sjálfstfl. markaði skýra stefnu í sambandi við mótun orkufreks iðnaðar og stefnumótun í stóriðjumálum. Þessi stefna hefur verið margítrekuð í samþykktum Sjálfstfl. og þ. á m. landsfundar. Ég tel mér skylt að standa við eigin sannfæringu og stefnu míns flokks sem hefur verið ótvíræð í þessum málum og jafnframt hefur ríkt einstök eindrægni innan flokksins um framkvæmd þeirrar stefnu. Því líst mér nú ógæfulega á þegar fulltrúar kommúnista, hálfkommúnista og Framsfl. leggja til að tillögu um aukningu orkufreks iðnaðar og stefnumótun í stóriðjumálum verði vísað til ríkisstj. þar sem kommúnisti ræður'fyrst og fremst ferðinni í þessum málum, — kommúnisti sem hefur ekki gert annað en að grafa sig í möppur með samstarfshópum og flutt hér loðnar yfirlýsingar í stóriðjumálum og orkumálum. Það er maður sem ég treysti engan veginn fyrir þessum málum, og ég treysti ekki núv. ríkisstj. (StJ: Ætlar þm. að segja já?) Þegiðu, Stefán Jónsson. (StJ: Ætlar þm. að segja já eða — ) Leiða gripinn bara út á meðan. Mér er alveg sama hvað er gert við hann. En ég ætla að ljúka þessu máli. Ef þessi maður hefur ekki taugar til að sitja inni þegar pólitískur andstæðingur talar og ef hann kemst ekki sjálfur út, þá ætti einhver af flokksbræðrum hans að leiða hann út. (StJ: Það er bara fsp., hvort þm. ætli að segja já. Hann er að gera grein fyrir atkv. sínu, en ekki að halda ræðu.) Mér liggur ekkert á. Ef maðurinn getur ekki þagað verður að vísa mannræflinum út — eða hv. ræfli þá. (StJ: Ég spyr forseta að því, hvort þetta séu þingleg ummæli.) Ég spyr forseta, hvort þetta sé kurteisi sem þessi maður er búinn að sýna? Ég held ekki áfram fyrr en þessi maður er hættur. (Forseti: Ég vil biðja menn að hætta samtölum hér.) Ég treysti ekki núv. ríkisstj. til að móta þessa stefnu af þeim ástæðum sem ég hef áður sagt, og því segi ég nei.