21.05.1981
Sameinað þing: 88. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4794 í B-deild Alþingistíðinda. (5039)

99. mál, eldsneytisgeymar varnarliðsins

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr., en það er öllum ljóst, sem til þekkja, að nauðsynlegar eru framkvæmdir til lausnar á vandamálum sem skapast hafa fyrir byggðarlögin Keflavík og Njarðvík vegna eldsneytisgeyma varnarliðsins þar syðra, og vegna þess er till. á þskj. 110 flutt.

Það hefur og komið fram hér í umr. hjá öllum hv. þm. og hæstv. ráðh., að þeim er ljóst að með samþykkt á brtt. frá utanrmn. á þskj. 948 er ekki verið að leggja til neina breytingu á áformum við byggingu olíugeyma við Helguvík sé það talið hagkvæmt, að sjálfsögðu að undangengnum þeim athugunum sem nauðsynlegar eru taldar. (Gripið fram í: Af hverju voru menn þá að breyta till.?) Það er ekki heldur verið að skerða að neinu leyti þau áform hvaða magn er ætlað að slíkir geymar rúmi. Þvert á móti er verið að leggja til að þessum framkvæmdum verði hraðað, sem um hefur verið rætt og fyrirhugaðar hafa verið, að sjálfsögðu eftir því sem við verður komið. Framkvæmdirnar eru á valdi hæstv. utanrrh., þess stjórnvalds sem fer með málefni Keflavíkurflugvallar og málefni varnarliðsins, og það er vissulega þýðingarmikið fyrir hæstv. utanrrh. að allir utanrmn.-menn eru sammála um þessar framkvæmdir og sammála um að þeim verði hraðað.

Það ber að virða það, eins og hér hefur verið bent á, að hv. 11. þm. Reykv., einn af utanrmn.-mönnum Alþingis, hefur áttað sig á málinu og ákveðið að standa að þessu mjög svo sjálfsögðu og um leið umfangsmiklu framkvæmdum vegna varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli og þá um leið leysa vandamál sem byggðarlögin þar syðra hafa átt við að glíma. Hv. 5. landsk. þm. hefur mjög greinilega sýnt fram á hvað með afstöðu hans er samþykkt, og ég sé ekki ástæðu til að endurtaka neitt af því sem hann sagði, en mér þykir rétt að taka undir ábendingar hans.