21.05.1981
Sameinað þing: 88. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4799 í B-deild Alþingistíðinda. (5042)

99. mál, eldsneytisgeymar varnarliðsins

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Aðeins fá orð til viðbótar þó að formaður þingflokks Alþb. sé búinn að segja flest það sem um nákvæmlega þessa till., sem hér liggur fyrir, er að segja. En eftir að hafa heyrt þessar umr. hér í dag, vekja þær með manni svo mikla undrun að maður fer að efast á einhverju tímabili um hvort maður kunni raunverulega að lesa. Hér liggur fyrir ofureinföld till. um að reynt verði að leysa sem allra fyrst þan mengunarvandamál sem blasa við íbúum á Suðurnesjum. Þessi till. kemur í stað till., eins og hér hefur rakið, um ákveðnar hernaðaraðgerðir í Helguvík. Ef menn sjá ekki á þessu neinn mun, þá fer maður að efast um hvað maður er að samþykkja hér á hinu háa Alþingi. Hér hefur stjórnarandstaðan, Natósinnarnir hér á þingi, staðið með glampa í augum og eitthvert sjúklegt yfirbragð og talað í þá veru, að þessi till. sé bara plat, það sé raunar verið að láta okkur samþykkja allt annað. Ef þetta er álit hins háa Alþingis á utanrrh. þjóðarinnar, þá er full ástæða til að óttast. Ég ber hins vegar það traust til hans svo og til hv. utanrmn., að ég geri ráð fyrir að það, sem stendur í þessari till., merki nákvæmlega það sem þar er. Þangað til annað kemur í ljós sé ég ekki ástæðu til annars en að samþykkja þessa till., verandi hernámsandstæðingur og fulltrúi flokks sem að sjálfsögðu mun aldrei hætta að berjast fyrir brottför hersins af Íslandi.

Ég get ekki staðið hér á hinu háa Alþingi og neitað að leysa mengunarvandamál Keflvíkinga og Njarðvíkinga. Ég hélt að það þyrfti ekki að taka það fram. Hins vegar er undarlegt að heyra hv. ræðumann hér áðan, hv. þm. Eið Guðnason, tala um að með því að samþykkja aðgerðir, sem koma varnarliðinu til góða, sé okkur ekki klígjugjarnt. Það ber að fagna því ef þingmenn á hv. Alþingi fara að þekkja eigin klígju.

Jú, okkur er klígjugjarnt. Okkur hefur verið það síðan bandaríski herinn tók sér bólfestu á Íslandi, og okkur mun halda áfram að vera það. Hins vegar eru umr. um það mál hér á Alþingi vægast sagt skelfilegar. Menn standa hér og allt að því hafa í hótunum við andstæðinga veru bandarísks herliðs á Íslandi. Hverju eru menn að hóta? Væri ekki ástæða til að óska eftir upplýsingum um það? Það hefur aldrei farið á milli mála, hver stefna okkar í þessum málum er. Og ég held einmitt að till. sú, sem hér liggur fyrir, sanni í eitt skipti fyrir öll hvers virði það er að Alþb. sé sterkur stjórnmálaflokkur og aðili að ríkisstj.

Hæstv. utanrrh. sagði hér eina athyglisverða setningu í kvöld. Hann lagði á það mikla áherslu, að vald utanrrh. væri ekki skert. Við erum stödd á Alþingi Íslendinga, í lýðræðisþjóðfélaginu Íslandi. Svo er mikið lýðræðið hér á hinu háa Alþingi að menn hafa deilt hér um vikum og mánuðum saman hvort við eigum að virkja Fljótsdalsá eða Blöndu. Heldur hæstv. utanrrh. að það sé eitthvað í hans valdi, ef vald er honum einhvers virði, sem ég trúi ekki, jafnmætur maður og hann er, — heldur hann að það sé í hans valdi, á meðan hann situr í ríkisstj. Íslendinga ásamt þremur Alþb.-ráðherrum, hvort byggð verður herskipahöfn í Helguvík eða ekki? Það held ég hiklaust ekki. Ég held að vald utanrrh. hljóti að vera það sama og annarra ráðherra um allar mikilvægar ákvarðanir. Um þær fjallar ríkisstj. og hún stendur á meðan stætt er, ekki lengur. Þetta ætla ég að vona að hafi þegar sýnt sig á lífdögum þessarar ríkisstj.

Allir menn, sem læsir eru á einhver erlend tungumál, og ég hygg að það séu allflestir hér inni, hafa getað lesið og séð teikningar af væntanlegri herskipahöfn í Helguvík. Héldu menn að það væri einhver tilviljun að menn vildu byggja olíugeyma í Helguvík? Ónei. Teikningar af þessari höfn hafa lengi legið fyrir og eru hverjum manni opinberar sem vill bera sig eftir þeim.

Ég skal ekki tefja allt of lengi þessa umr. Það er stutt eftir af þingi og mörg mál áafgreidd. En það er sorglegt til þess að vita, hvernig umræður um þessi mikilvægustu mál þjóðarinnar fara fram hér á hinu háa Alþingi. Endanlega, ef menn hafa ekki enn þá skilið það, erum við að ræða um hvort við eigum að lifa eða deyja. Það skiptir nefnilega ansi litlu máli hvað við gerum hér á hinu háa Alþingi ef til átaka kemur í heiminum og herstöðin er hér enn þá. En við skulum ekki tala um það núna.

Engir Norðurlandabúar hér allt í kringum okkur, enginn óbrjálaður maður mundi taka sér það orð í munn um bandaríska herinn á Íslandi sem hæstv. utanrrh. gerði í kvöld og menn gera hér ævinlega: að kalla hann varnarlið. (Gripið fram í: Er utanrrh. brjálaður?) Það sagði ég ekki. Ég skal skýra það betur til þess að taka af allan vafa, að ég held alls ekki að hæstv. utanrrh. sé brjálaður. Ég skal þá taka varlegar til orða: Enginn maður með óbrjálaða dómgreind, ef mönnum finnst það „penna“, talar um bandaríska herinn sem varnarlið fyrir Íslendinga. Það heitir einfaldlega „militær base“ á skandinavísku, og það þýðir ekkert annað en herstöð. Það er eins og að fara 30 ár aftur í tímann að heyra svona tal hér meðal þeirra manna sem eiga að ráða lífi þessarar þjóðar.

Á Norðurlöndum hefur vaknað nú á hinum síðustu árum áhugi manna á að vinna að því að fá ríkisstjórnir Norðurlandanna til að krefjast þess að ekki séu geymd kjarnorkuvopn í löndum þeirra. Á Norðurlöndum tala menn ekkert um Ísland í þessu samhengi. Í hverju dagblaði, sem lesa má í Skandinavíu, er talað um hin fjögur kjarnorkulausu Norðurlönd. Við okkur hafa þeir raunverulega ekkert að tala, nema við biðjum um það sjálf, vegna þess að hér er herstöð. Hvort hér eru kjarnorkuvopn rétt í augnablikinu skiptir ekki minnsta máli vegna þess að það er hægt að fá þau hingað hverær sem er, og við munum fá þau hvenær sem bandaríska hernum svo þóknast. Ég hygg að þessi umr. hafi vart farið fram hjá mönnum hér á hinu háa Alþingi. Við okkur er sagt í Skandinavíu: Það er ekkert við ykkur að tala um þetta mál. Þið gegnið sama hlutverki og Kólaskaginn í Rússlandi vegna þess að þið eruð sams konar hlekkur í hernaðarkeðju stórveldanna. Þetta þarf varla að segja fólki hér. Og svo tala menn hér um varnarlið.

Ég hef ekki kynnt mér till. eða hugmyndir Olíufélagsins, sem hér hafa verið ræddar, og vil þess vegna ekkert um það mál segja. En ég treysti því og trúi, að utanrrh. hafi meint það sem hann sagði hér í kvöld, að hann muni láta kanna til hins ýtrasta hvernig sé hægt að leysa þessi mengunarvandamál. Fræðimenn hafa þó sagt mér að vel geti verið að þau verði ekkert leyst með þessum geymum, hvar sem þeir verða, um árabil muni hafa verið hellt niður olíu uppi á Miðnesheiðinni sem hafi fyrir löngu mengað varanlega vatnsból Suðurnesjamanna. Um þetta liggja fyrir skýrslur sem áhugavert er að skoða.

Ég ætla aðeins að víkja að lokum að því sem hv. þm. Eiður Guðnason var að skora á mig að gera grein fyrir, stöðu hernámsandstæðinga. Það var greinilegt að ekkert gladdi meira hv. þm. Alþfl., sem hefur kennt sig við alþýðu þessa lands, en að baráttuhugurinn væri úr hernámsandstæðingum. Ég get alveg fullvissað Eið Guðnason um að baráttuhugurinn er ekki úr hernámsandstæðingum sem tilheyra Alþb. Hinn hugurinn er úr, sem upphaflega var fyrir hendi, hugur hugsandi og velviljaðra og þjóðhollra framsóknarmanna og Alþfl. manna. Það eru þeir sem hurfu. Það hefur enginn horfið úr okkar liði í þessum baráttumálum og mun ekki hverfa. Við munum hins vegar gera allt sem við getum til þess — (Gripið fram í: Hvað segir Vilborg Dagbjartsdóttir?) Vilborg Dagbjartsdóttir segir margt vel og rétt, og einnig að þessu leyti er rétt það sem hún sagði. Hún hins vegar fór ekki út í það, hvað hefði gerst. En ég held að það hafi vissulega verið tap fyrir baráttu hernámsandstæðinga þegar þeir, sem þrautseigastir voru, Alþb.-menn, voru nær einir eftir, þó að vissulega sé enn þá til fólk, sem tilheyrir öðrum flokkum, sem treystir sér til þess að hugsa sjálfstætt í þessum efnum.

En þetta er orðin löng barátta og erfið og kannske ekki láandi nokkrum manni þó að hann missi að lokum trúna á að nokkru sinni verði hægt að koma vitinu fyrir hið háa Alþingi um að losa sig við þann ófögnuð sem herliðið á Keflavíkurflugvelli er. En það er engin hætta á að sú barátta endi. Það get ég alveg fullvissað Eið Guðnason, hv. þm., um.

Ég skal lýsa því yfir hér og nú, að ég mun fylgja mínum þingflokki við samþykkt þessarar till. í trausti þess, að hún merki það sem stendur hér á þessu blaði, í trausti þess, að utanrrh. hafi talað hug sinn hér í kvöld. Sýni menn einhver merki um að fara öðruvísi að en Alþb. getur sætt sig við, þá munum við taka afstöðu til þeirra væringa þegar þar að kemur. Núverandi ríkisstj. hefur ekki efni á neinum stórum frávikum frá því sem hér er samþykkt í kvöld, eins og hún er nú saman sett.