21.05.1981
Neðri deild: 103. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4830 í B-deild Alþingistíðinda. (5105)

333. mál, listskreytingasjóður ríkisins

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég ætla að nota orðalag hæstv. forseta og segja sem er, að ég mun ekki „setja á langar tölur“ að óþörfu, en mér þykir vænt um að hæstv. forseti sýnir þessu máli þann sóma að taka það á dagskrá og gefa mér tækifæri til að tala fyrir því. Eigi að síður skal ég ekki hafa á móti því, að þau mál, sem þm. bera hér fram, hafi fullan rétt á við þau mál, sem ég kann að flytja. En samt undrar mig nú eitt og annað af því sem hér hefur komið fram, ekki síst hjá hv. þm. Halldóri Blöndal í hans orðum hér, að hafa þau ummæli um þetta mál sem þarna er um að ræða. Ég hélt satt að segja að hann hefði nokkurn áhuga á því, að slík mál sem þessi kæmu til umr. Ekki vissi ég annað og kemur úr hörðustu átt þegar hann fer þessum orðum um þetta málefni áður en það kemur til umr. og er hér kynnt.

En sem sagt, herra forseti, þetta mál er stjfrv. sem ég mæli hér fyrir og fjallar um Listskreytingasjóð ríkisins. Eins og fram kemur í 1. og 2. gr. frv., sem skýra þetta mál hvað best, er ætlunin að stofna sjóð sem hafi það markmið að fegra opinberar byggingar með listaverkum og þessi sjóður heitir Listskreytingasjóður ríkisins. Gert er ráð fyrir því, eins og segir í 2. gr., að tekjur sjóðsins séu árlegt framlag ríkisins og að framlagið nemi 1% álagi á samanlagðar fjárveitingar ríkissjóðs í A-hluta, eins og nánar er vikið að í 3. gr. þessa frv., og einnig vaxtatekjur og aðrar tekjur. Meginatriði málsins er það, að þarna er lagt til að stofna sérstakan sjóð sem beri þetta heiti, Listskreytingasjóður ríkisins, og að tekjurnar séu sem svarar 1% álagi á fjárveitingar til bygginga sem ríkissjóður stendur að einn eða með öðrum.

Þetta málefni hefur lengi verið til umræðu og reyndar eru þegar í lögum ákvæði um þetta efni, þ. e. í grunnskólalögum. En því miður hefur þessi lagabókstafur verið nánast dauður bókstafur og þetta frv. er að mínum dómi þannig að vissa er fyrir því, að þá væri hægt að fara að framkvæma þá hugmynd sem margir hafa borið fyrir brjósti, að nokkurt fjármagn væri veitt til listskreytingar opinberra bygginga. Það tel ég vera meginkost þessa frv.

Sannleikurinn er sá, að sá vandi, sem hefur verið á framkvæmd þeirra ákvæða sem finna má í grunnskólalögum um listskreytingu skólamannvirkja, liggur fyrst og fremst í því, að sveitarstjórnum er ætlað að hafa forgöngu og frumkvæði í þessum efnum. Það hefur ekki gengið og alveg áreiðanlega er miklu heppilegra að ríkisstj. eða menntmrn. hafi forgöngu í þessum efnum. En eins og ég segi hefur þetta málefni átt marga góða fylgjendur hér í hv. Alþingi, og ég vona að svo reynist enn. Jafnvel þó að þetta frv. sé komið nokkuð síðla fram þótti mér eðlilegt að það kæmi fram nú á þinginu og fyrir þinglok og að það næði því að komast til nefndar sem síðan gæti að nokkru fjallað um það, a. m. k. vísað því til umsagnar ýmissa aðila sem kunna að vilja láta sig varða þetta mál, því að að sjálfsögðu þarf að hyggja vel að því, sem í þessu frv. stendur, og ekkert metnaðarmál af minni hálfu að það fari algerlega óbreytt hér í gegn eða án þess að það fái fullkomlega eðlilega athugun.

Ég held að aths., sem fylgja þessu frv., skýri það sjálft, og ég vísa til þess sem þar stendur. Ég bendi á það, eins og fram kemur í aths., að segja má að víðast hvar eða mjög víða í heiminum og þá alveg sérstaklega á Norðurlöndum er að finna þá stefnu sem örvar til listskreytinga opinberra bygginga. Dæmi um þetta má finna víðast á Norðurlöndum, reyndar alls staðar á Norðurlöndum, þó að Norðmenn skeri sig úr að ýmsu leyti í þessu efni og ríkissjóður þar leggi einna mest af mörkum af fjármagni í þessu skyni. Þar er fyrir hendi mjög myndarlegur sjóður sem gæti heitið á íslensku svipuðu nafni og hér er talað um: Listskreytingasjóður. Sama er að segja um Danmörk. Þar er líka til Listasjóður ríkisins, allöflug stofnun sem hefur með hendi svipaða starfsemi og hér er um að ræða og þó reyndar miklu víðtækari.

Ég skal ekki fara öllu meira út í þessi efni, herra forseti. Hér er mörgu að sinna. Hins vegar þætti mér vænt um ef hv. þd. að lokinni þessari umr. vísaði málinu til 2. umr. og hv. menntmn.