21.05.1981
Neðri deild: 104. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4838 í B-deild Alþingistíðinda. (5121)

320. mál, raforkuver

Frsm. meiri hl. (Skúli Alexandersson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir áliti meiri hl. iðnn. um 320. mál deildarinnar, frv. til l. um raforkuver. Eins og fram kemur í nál. hélt nefndin allmarga fundi um mál þetta og kvaddi á sinn fund forstöðumenn ýmissa stofnana sem málið varðar svo og sérfræðinga. Niðurstaða meiri hl. n. varð sú að leggja til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem koma fram á þskj. 1021, en þær eru þessar helstar:

Áherslum í 2. gr. verði breytt þannig að fyrst verði taldar þær framkvæmdir sem eðlis málsins vegna er hægt að fela Landsvirkjun beint án undangenginna sérstakra samninga, en þær framkvæmdir, sem semja þarf um við Landsvirkjun, verði taldar síðar.

Þá er í 1. gr. bætt við heimild til aukningar á vélaafli við Hrauneyjafossvirkjun þannig að heimild sé fyrir fjórar 75 mw. vélar og heildarafl virkjunarinnar þannig 280 mw., og að heimilað verði að bæta við fjórðu 50 mw. vélinni við Sigölduvirkjun og afl hennar þannig aukið í 200 mw.

Á 2. gr. eru gerðar þær breytingar að 2. mgr. frv. er felld niður, en ný sett í staðinn þar sem gert er ráð fyrir að staðfestingar Alþingis þurfi einungis að leita vegna nýrra vatnsaflsvirkjana eða virkjanaáfanga. Til viðbótar er skotið inn í 2. gr. tveim mgr. sem gera ráð fyrir að áður en ákvarðanataka fer fram sé leitað álits Landsvirkjunar, Orkustofnunar, Rafmagnsveitna ríkisins og fleiri aðila um þjóðhagslega hagkvæmni og áhrif á raforkukerfið og að gerð sé grein fyrir notkun orkunnar til orkufreks iðnaðar og til sparnaðar á innfluttu eldsneyti.

Um áfanga þessarar breytingar er þetta að segja: Áherslubreytingin í 1. gr. er fyrst og fremst til að skapa eðlilegra samhengi í upptalningu þeirra framkvæmda, sem um er að ræða, og breytir ekki efnisatriðum. Sú aflaukning, sem lagt er til að heimiluð verði í Hrauneyjafoss- og Sigölduvirkjun, er í samræmi við þær áætlanir sem gerðar hafa verið um framkvæmdir í tengslum við aukna miðlun í Þórisvatni. Þegar miðlun þar efra hefur verið aukin úr núverandi 1000 gígalítrum í 1765 gígalítra er æskilegt að auka aflið í þessum virkjunum til að geta nýtt miðlunina.

Varðandi breytinguna á 2. mgr. 2. gr. er það að segja, að hún er gerð til að taka af tvímæli um hvað heimilt sé að gera án sérstakrar staðfestingar Alþingis og hvað þurfi slíkrar staðfestingar við. Samkvæmt þessu er án sérstakra heimilda Alþingis hægt að ráðast í gerð Kvíslaveitu, stækkun Hrauneyjafoss- og Sigölduvirkjunar, gerð stíflu við Sultartanga, uppsetningu jarðvarmastöðva og varastöðva með þeim stærðartakmörkunum, sem um getur í 1. gr., svo og nauðsynlegar framkvæmdir til aukningar og styrkingar á raforkuflutningskerfinu.

Þetta er í sjálfu sér engin efnisbreyting frá því sem upprunalega var í frv., heldur er hér einungis verið að taka skýrar til orða til að taka af hugsanlegan vafa. Eins og fram kemur í grg. er þetta m. a. gert samkvæmt ábendingu Landsvirkjunar.

Um þær tvær mgr., sem bætt er inn í 2. gr., má segja að þar sé um að ræða leiðarljós fyrir stjórnvöld við ákvarðanatöku um nýjar vatnsaflsvirkjanir eða virkjunaráfanga. Hér er ekki um að ræða nein fyrirmæli um ný eða breytt vinnubrögð, heldur er hér um að ræða áréttingu á þeim sjónarmiðum sem talin eru eðlileg í þessu sambandi og hafa verið og eru einn þáttur í eðlilegum undirbúningi slíkrar ákvörðunartöku. Það er sem sé fyrst leitað álits helstu sérfræðistofnana í málinu, síðan er lögð áhersla á, að þjóðhagsleg hagkvæmni og áhrif á raforkukerfið verði höfð í huga og látin ráða, og að lokum, að ekki sé gleymt því mikilvæga atriði varðandi hverja meiri háttar virkjun, hvort og hvernig nýting orkunnar tengist orkufrekum iðnaði. Sérstaklega er bent á orkunýtingu tengda sparnaði á innfluttu eldsneyti, en þar er m. a, höfð í huga útrýming olíunotkunar til húshitunar og í iðnaði, einkanlega í fiskimjölsverksmiðjum.

Í þessu sambandi er vert að minna á möguleikann til að tengja þetta tvennt saman: að nota vatnsorkuna til að framleiða eldsneyti sem nota mætti í samgöngutæki, eins og hæstv. iðnrh. vék að í framsöguræðu sinni fyrir frv.

Það er álit meiri hl. n. að í væntanlegum samningum við Landsvirkjun verði gætt að tvennu sérstaklega. Annars vegar verði að því stefnt að hlutdeild ríkisins í fyrirtækjunum aukist, eftir því sem virkjunum fjölgar, og/eða að öðrum sveitarfélögum en aðeins Reykjavíkurborg og Akureyrarkaupstað eða þá samtökum þeirra verði gefinn kostur á eignaraðild. Meiri hl. n. telur þetta sjónarmið eðlilegt með tilliti til þess m. a., að vatnsréttindi og landréttindi við ýmsar fyrirhugaðar virkjanir eru að miklu leyti í höndum ríkisins og er lögð fram af því til virkjunarinnar. Einnig er eðlilegt talið að þeir landshlutar, sem virkjað verður í, fái aðild að fyrirtækinu og hafi áhrif á stjórn þess. Hins vegar verði í samningnum við Landsvirkjun stefnt að sem mestri verðjöfnun í þeim skilningi, að smásöluverð til neytenda hvar sem er á landinu verði sem jafnast. Þarflaust er að fara mörgum orðum um það óréttlæti og þá mismunun sem felst í þeim mun á raforkuverði til notenda sem nú viðgengst.

Rafmagn til almenningsnota er orðinn svo sjálfsagður þáttur af almennum lífsgæðum allra landsmanna að það ætti að vera sjálfsagt mál að sama verð á raforku gilti til almennra heimilisnota hvar sem er á landinu.

Í ráðherratíð núv. hæstv. iðnrh. hefur mikið áunnist í þessum málum. Þannig er munur á raforkuverði til almennra heimilisnota hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur annars vegar og Rafmagnsveitum ríkisins hins vegar um 24%, en var áður allt að 86%. En hér þarf að gera betur, munurinn er enn of mikill, og hann er meiri en þetta á öðrum tegundum notkunar.

Ábending meiri hl. n. er til þess gerð, að það tækifæri til leiðréttingar á þessum málum, sem gefst við væntanlega samningagerð við Landsvirkjun, verði notað til að vinna þessu réttlætismáli gagn.

Að lokum vil ég víkja að 5. gr. frv. sem fjallar um eignarnámsheimildir. Slíkar heimildir eru nauðsynlegar og sjálfsagðar í frv. sem þessu, og n. gerir ekki till. um breytingar á þessu atriði. En ég vil leggja áherslu á það meginsjónarmið, að jafnan verði reynt til hins ýtrasta að leysa hugsanleg deilumál, sem upp kunna að koma, með samningum við rétthafa. Sérstaklega á þetta að mínu mati við um þá deilu sem uppi er við Blöndu. Þá deilu á að leysa með samningum og í því sambandi á að kanna vandlega alla möguleika sem kunna að vera á að haga þannig til að sem minnst óhagræði verði að fyrir þá sem eiga afkomu sína undir nýtingu beitilands á þessu svæði. Þetta á einkanlega við tilhögun miðlunarlóns, bæði að því er varðar staðsetningu stíflu og hugsanlega áfangaskiptingu. Slík breyting þarf ekki að hafa neina tímalega seinkun í för með sér eins og upplýst var á fundi n. með sérfræðingum.

Herra forseti. Ég hef nú rakið brtt. meiri hl. n. og greint frá ástæðum fyrir þeim. Breytingarnar ganga allar í sömu átt og meginstefna frv.: að marka stórhuga og raunhæfa orkustefnu sem hefur það að höfuðmarkmiði að íslenskar orkulindir verði nýttar af okkur sjálfum og fyrir okkur sjálfa.