21.05.1981
Neðri deild: 104. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4847 í B-deild Alþingistíðinda. (5123)

320. mál, raforkuver

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég leyfi mér að mæla hér fyrir brtt. á þskj. 945 við frv. til l. um raforkuver. Brtt. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„1) Á eftir 5. gr. komi ný grein sem verði 6. gr. og orðist svo:

Samkvæmt ákvæðum 5. gr. skal ráðh. beita eignarnámsheimild vegna fyrirhugaðrar Blönduvirkjunar, takist ekki samkomulag við landeigendur fyrir 1. ágúst 1981.

2) 6. gr. frv. verður 7. gr.

Til þess að ekkert fari á milli mála, hvað hér er átt við, vil ég — með leyfi forseta-fá að lesa 5. gr. frv. Þar segir: „Ráðherra getur tekið eignarnámi eða heimilað virkjunaraðila að taka eignarnámi vatnsréttindi, lönd, mannvirki og önnur réttindi, sem nauðsynleg eru til framkvæmda samkv. lögum þessum. Um framkvæmd eignarnáms fari eftir lögum nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms. Um mat eignarnámsbóta skal fara eftir ákvæðum 140. gr. vatnalaga nr. 15/1923.“

Með þessari brtt. er eingöngu verið að herða á þeirri heimild, sem ríkisstj. óskar sjálf eftir að hafa í lögunum, og alfarið vísað til þeirra ákvæða sem fjalla um mat eignarnámsbóta. Gildir þess vegna raunverulega 5. gr. að hluta til um þá grein og þá brtt. sem ég hér flyt.

Ég vil — með leyfi forseta — vitna til 67. gr. stjórnarskrár lýðveldisins, en þar segir á þessa leið: „Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína, nema almenningsþörf krefji; þarf til þess lagafyrirmæli, og komi fullt verð fyrir.“

Hér er tekið skýrt fram, að ef almenningsþörf krefji sé unnt að beita eignarnámsákvæðum, og ég tel að þetta mál, sem nú er mjög til umræðu hér, þ. e. virkjunarmálin og virkjun Blöndu, sé mál sem snerti almannaheill mjög, og mun ég víkja að því síðar.

Ég er þeirrar skoðunar eftir viðtöl við fjölmarga menn, bæði þá menn, sem átt hafa í þeim samningaviðræðum sem staðið hafa yfir, og heimamenn, aðila úr báðum hópum, þ. e. þá sem eru meðmæltir Blönduvirkjun og þá sem eru á móti, að líkur á samkomulagi séu nú nánast engar. Það er af þeirri ástæðu sem ég vil hnykkja á um það, að hæstv. iðnrh. beiti eignarnámsheimild og tryggi þannig að eitt mesta hagsmunamál Norðurlands og auðvitað landsmanna allra um leið verði að veruleika, þ. e. að einhver hagkvæmasti virkjunarkostur á Íslandi verði notaður.

Ég vil leiða nokkur rök að því, hvers vegna ég tel að það sé ástæða og fyllsta ástæða til þess að beita eignarnámsheimild í þessu sambandi. Ég vil þó taka það fram og skjóta því hér inn í, að ég hef ávallt og ævinlega verið og mun væntanlega um alla framtíð verða fylgjandi samkomulagsleið og samningaleið. En þegar lítil prósenta eða lítill hundraðshluti, nánast promille af þjóðinni stendur við Blönduvirkjun, er ég þeirrar skoðunar að það verði að reisa rönd við.

Árið 1918, 5. júlí, undirritaði þáv. ráðherra Íslands Jón Magnússon, afsal sem hljóðar á þessa leið, með leyfi forseta:

„Ráðherra Íslands kunngjörir, að með því að hreppsnefndir Svínavatnshrepps, Torfalækjarhrepps og Blönduóshrepps í Húnavatnssýslu hafa leitað kaupa á landinu Auðkúluheiði, eign Auðkúluprestakalls í sömu sýslu, og með því að hlutaðeigandi sýslunefnd hefur ekki haft neitt við sölu afréttarlands þessa að athuga að loks með því að allra fyrirmæla laga nr. 50 16. nóv. 1907, um sölu kirkjujarða, hefur verið gætt, þá sel ég og afsala samkvæmt þeirri heimild, sem mér er gefin í nefndum lögum, fyrir landssjóðsins hönd ofannefndum hreppum, Svínavatnshreppi, Torfalækjarhreppi og Blönduóshreppi, greint afréttarland, Auðkúluheiði, með öllum gögnum og gæðum. Þó eru undanskildir“ — eins og stendur í afsalinu — „námur í jörðu sem og fossar sem þar kunna að vera.“

Ég hef borið þetta atriði, fossar, undir flesta þá lögfróðustu menn sem ég þekki hér á landi, og álit þeirra er að það fari ekkert á milli mála að þarna sé átt við virkjunarréttinn. Fossalög eru þekkt, þar voru virkjunarlög, og fossanefnd er þekkt, það var virkjunarnefnd. Af þessu má ljóst vera, enda hefur það komið fram í gögnum sem ég hef nú aflað mér frá Orkustofnun, að þessir þrír hreppar, sem hér um ræðir, hafa engin ráð á virkjunarréttinum — engin. Það er ríkið sem á þennan virkjunarrétt, en bændurnir eiga beitarlandið. Og það er um beitarlandið, sem málið snýst, og bætur, sem skulu koma fyrir það. Ég tek það skýrt fram, að ég tel að þeir bændur, sem verða að láta af hendi beitarlönd vegna virkjunar, miðað við virkjunarkost I í Blöndu, eiga fullan rétt á bótum.

Ég hef hér undir höndum jafnframt athugun sem Orkustofnun hefur látið gera á vatnsréttindum og hlutföllum vatnsréttinda á svæði því sem Blönduvirkjun nær yfir. Þar eru ýmsar fróðlegar upplýsingar. Þar kemur m. a. fram um meðalrennsli til virkjunarinnar fyrirhugaðrar, og er þá miðað við virkjunarkost 1, að þar er Blanda með 96,4%, Gilsá með 3.2% og Vatnsdalsá eða Kolkukvísl, sem heitir svo, 0.4%.

Þá vil ég geta nokkurra talna um hlutfall vatnsréttinda. Þar kemur í ljós að vestan ár, Blöndu, er hlutdeild Auðkúluheiðar í vatnsréttindum 34,4%, Þröm 9.2%, Eldjárnsstaðir 3.1% og Eiðsstaðir 3.3%. Austan árinnar er Eyvindarstaðaheiði með 22.4%, Rugludalur 17%, Selland 6.4%, Bollastaðir 2.8% og Eyvindarstaðir 1.4%.

Þá vil ég — með leyfi forseta — fá að rekja þær niðurstöður sem koma fram í þessari skýrslu Orkustofnunar um eigendur vatnsréttinda á virkjunarsvæðinu. Auðkúluheiði er þar talin eign ríkissjóðs, þ. e. vatnsréttindin að 33.5%. Þröm er talin í eigu Svínavatns-Torfalækjar- og Blönduóshrepps með 9%. Eldjárnsstaðir eru í einkaeign með 3%, Eiðsstaðir í einkaeign með 4,6%, Guðlaugsstaðir í einkaeign með 1.3%, Eyvindarstaðaheiði, óviss eigandi, 21.8%. Rugludalur er í eigu Bólstaðarhliðarhrepps með 16.5%, — ég vil skjóta því inn í að það er ekki þar sem hv. þm. Páll Pétursson á heima. Selland er í einkaeign með 6.2%, Bollastaðir í einkaeign 2.7% og Eyvindarstaðir í einkaeign 1.4%.

Þá vil ég geta þess, að Auðkúluheiði er 50% í eigu Svínavatnshrepps, 40% Torfalækjarhrepps og 10% Blönduóshrepps. Hrepparnir keyptu heiðina af jörðinni Auðkúlu, sem er í eigu ríkissjóðs, á árunum 1910–20. Vatnsréttindi fylgdu ekki með, eins og ég hef tekið hér fram, og í afsali beinlínis tekið fram að fossar séu undanskildir.

Þá vil ég geta þess sem snertir Eyvindarstaðaheiði, sem er mikilvægt mál og mikilvægur þáttur í þessu máli. Samkvæmt athugun, sem gerð hefur verið, mun heiðin hafa verið eign Eyvindarstaða fram á síðasta hluta nítjándu aldar, að því er talið er. Þá munu einstaklingar hafa keypt hana undan jörðinni, síðar eignuðust hrepparnir a. m. k. upprekstrarréttinn á heiðinni, en ekki hefur verið kannað með hverjum hætti það varð, hvort þeir keyptu sjálft landið með öllum gögnum og gæðum, þ. á m. vatnsréttindum, eða hvort þau voru undanskilin á svipaðan hátt og við kaupin á Auðkúluheiði. Ekki hefur heldur verið kannað hverjir þeir einstaklingar voru er keyptu heiðina undan jörðinni Eyvindarstöðum eða hvort vatnsréttindi fylgdu með í þeim kaupum. Loks hefur ekki verið kannað hvort heiðin hefur einhvern tíma verið eiginlegt eignarland Eyvindarstaða eða einungis afréttur jarðarinnar. Niðurstaðan af þessu er sú, að það þarf sérstaklega að fá úr því skorið hvort Eyvindarstaðaheiði var einhvern tíma eiginlegt eignarland Eyvindarstaða eða einungis afréttur, en í því tilviki væru vatnsréttindin á heiðinni almenningseign, þ. e. eign ríkisins.

Herra forseti. Ég hef nú leitt nokkur rök að því, að eignarrétturinn í þessu máli er ekki eins mikill í höndum bænda og margir hafa álitið. Það er t. d. algjörlega óvíst hvort ríkið á Eyvindarstaðaheiði — og þó taldar frekar líkur á því heldur en bændurnir. Þá er með afsali frá 1918 vatnsrétturinn eða virkjunarrétturinn á Auðkúluheiði undanþeginn. Þetta eru staðreyndir málsins. Ég gæti nefnt fleiri dæmi af þessum toga spunnin.

Ég vil þá víkja að því, að mál standa nú svo í samningaumleitunum að það eru aðeins örfáir landeigendur eftir sem andmæla samningum miðað við virkjunarkost I. Hins vegar hafa komið fram hugmyndir um aðra virkjunarkosti, en þær hugmyndir margar hverjar eru svo fáránlegar að það verður ekki nokkur leið að taka hið minnsta mark á þeim. Það hefur verið reiknað út fyrir mig að t. d. virkjunarkostur II, sem til umræðu hefur verið, mundi kosta jafnmikið og tólffaldur afrakstur — brúttóafrakstur — af einni sauðkind, miðað við hennar líf, hversu langt sem það er nú, og það sinnum rösklega tvö þúsund. Ég hef þær upplýsingar, sem ég tel sannar og réttar, að bæði í Torfalækjarhreppi og Blönduóshreppi sé vilji til samkomulags um virkjunarkost I og í Svínavatnshreppi sé staðan í hreppsnefnd sú, að tveir af fimm hreppsnefndarmönnum séu hlynntir samkomulagi, tveir séu á móti því og einn sé nokkuð reikull í trúnni.

Með þetta í huga held ég að menn verði að gera sér ljóst að það er algjör óhæfa í svo mikilsverðu hagsmunamáli fyrir ekki eingöngu það kjördæmi, Norðurl. v., sem mestra hagsmuna á auðvitað að gæta, heldur fyrir Norðlendinga alla og landið í heild, ef það á að líðast að örfáir menn komi í veg fyrir að hægt sé að virkja einhvern besta virkjunarkost í landinu sem er óumdeilanlega Blanda, miðað við virkjunarkost I. Þá verður löggjafinn að grípa inn í.

Ég vil spyrja menn að því í sambandi við þetta mál, hvort þeir hafi áttað sig á því, hvaða hagsmunir eru í húfi. Þeir hagsmunir eru í húfi fyrst og fremst að auka atvinnuuppbyggingu í báðum Norðurlandskjördæmunum og víðar. Það er nú eitt versta atvinnuástand á landinu, a. m. k. í Norðurl. e., og við þessa virkjun eru bundnar gífurlegar vonir í báðum þessum kjördæmum. Þá vil ég nefna það líka, að ef menn hafa yfirleitt hug á því að treysta á byggð í þessum landshluta er þetta nánast eina ráðið sem við höfum til þess að gera það. Ég vil þess vegna reyna að fá úr því skorið, hvort Alþingi Íslendinga sé alvara, og hæstv. iðnrh. um leið og öðrum hæstv. ráðherrum, að vilja stuðla að þeirri framþróun í þessu landi, sem bætt geti kjör allrar alþýðu, og hvort við getum þá ekki, t. d. í þessu tilviki, sameinast um að reyna að flýta fyrir því að þessi þróun nái fótfestu.

Ég er alveg sannfærður um það, að öllum andstæðingum Blönduvirkjunar er ami að þessari brtt. minni. Og það mun auðvitað koma í ljós við atkvæðagreiðslu hverjir eru stuðningsmenn Blönduvirkjunar og hverjir eru andstæðingar hennar. Ég er sannfærður um að það verður fylgst mjög grannt með því, hvernig menn greiða atkvæði um þessa till. Þeir, sem hafa farið m. a. um Norðurland að undanförnu, vita hvaða eftirvænting býr þar meðal fólksins varðandi þetta virkjunarmál. Ég tel að með þessari brtt. sé gefinn það rúmur kostur á því að ná samkomulagi í deilunni að það ætti að vera unnt, þó í dag séu heldur litlar líkur fyrir að samkomulag náist. En ég vil tryggja það, að hæstv. iðnrh. noti þann rétt sem hann hefur í lögum. Ég vil ekki að hann skjóti sér á bak við það að geta túlkað sjálfur hvenær réttmætt og eðlilegt sé að nota þennan rétt. Nú ætla ég ekki að gagnrýna hann í sambandi við þetta mál. Það hvarflar ekki að mér, enda nóg búið að gera að því. Ég vil hins vegar biðja hann að aðgæta mjög vandlega hvort það gæti ekki verið ákaflega heppilegt fyrir hann, ef honum er alvara með því virkjunartali sem hann hafur haft hér á þinginu, að hafa slíka heimild í höndunum sem þessi brtt. gefur kost á.

Ég held að íbúar á Norðurlandi séu orðnir býsna langþreyttir á sinni virkjanasögu. Ég hef oftlega minnt á Laxárvirkjunardeiluna hér á þingi, og ég hef verið þeirrar skoðunar, að þar hefði verið hægt að höggva á hnútinn og bægja frá þeim vanda sem lausn eða við skulum heldur segja vandræðalausn þeirrar deilu hefur leitt yfir þjóðina. Norðlendingar hafa orðið að búa við það að sæta afarkostum í virkjunarmálum, sbr. Laxárvirkjun. Þeir standa frammi fyrir því, að annað orkuver, sem í landshlutanum er, Krafla, er vitagagnslaust og verður það að mínu mati um ókomna tíð. Og því fyrr sem menn átta sig á því, því betra. Þess vegna vil ég segja það við hv. þm., sem á mál mitt hlýða, að hér er ekki á ferðinni mál af þeim toga spunnið að það sé verið að reyna að níðast á helgum rétti þeirra manna sem nú standa gegn eðlilegum framförum í þessu landi. Það er verið að huga að almannaheill. Og ég er eins sannfærður um það og ég stend hér, að viðvörun hv. þm. Stefáns Valgeirssonar í umr. fyrir skömmu hér á þinginu eiga við mjög gild rök að styðjast, þegar hann varaði landeigendur við því að egna almenning í landinu gegn sér með stirfni og ósveigjanleika í allri samningagerð. Auðvitað hafði hann rétt fyrir sér. (Gripið fram í: Það er nú meira.) Það má vera að hv. þm. hafi sagt meira, en ég er sannfærður um það að hann leggur þennan skilning í þá stöðu sem nú er komin upp. Ef sá þvergirðingsháttur, sem hefur oft tíðkast í þessum málum, helst áfram, ef hann verður látinn óátalinn í náinni framtíð, þá mun fjöldinn í þessu landi rísa upp og krefjast réttar síns. Þetta hefur gerst í nánast öllum nágrannalöndum okkar, og jafnvel kapítalistarnir í Ameríku eru búnir að taka landið fyrir sína þjóð, svo merkilegt sem það kann nú að virðast.

En í sambandi við þetta mál verðum við að velta því fyrir okkur, hvort sú þjóð, sem býr í landinu, eigi ekki landið — eða eru það bara nokkrir einstaklingar sem eiga réttinn á því? Þetta eru mál sem við þurfum að fara að gera upp, vegna þess að sóknin og krafan um að fjöldinn fái afnotarétt af eigin landi verður stöðugt háværari. Að lokum er alveg öruggt mál að ef ekki nást einhverjar sögulegar sættir í þessu máli verður eignarnámsákvæðum beitt og þá verður þjóðareign á landi að veruleika. Á því leikur ekki nokkur vafi. Það stöðvar enginn þá þróun. En það, sem máli skiptir, er hvort sú þróun verður mjög sársaukafull eða ekki.

Herra forseti. Ég mun ekki hafa fleiri orð um þessa brtt. mína. Ég tel að hún sé fullkomlega raunhæf eins og mál standa nú, eigi fullkominn rétt á sér, og tel að hér séu svo miklir hagsmunir í húfi fyrir íbúa þessa lands, að við verðum að bregðast við því máli, sem við stöndum frammi fyrir, á réttan hátt. Ég er viss um það, að ef ekki verður höggvið á þennan hnút sem nú hefur myndast í samningamálum, verður Blönduvirkjun m. a. skotið aftur fyrir Fljótsdalsvirkjun og jafnvel fleiri virkjanir í landinu. Og þá vil ég ekki spyrja að leikslokum í sambandi við atvinnumál á Norðurlandi ef það gerist. Ég tel líka — og hef fyrir því orð eins af andstæðingum Blönduvirkjunar — að eignarnám mundi höggva á hnút, sem nú er búið að binda á þessa deilu, og leysa miklu meiri vanda en nokkurn grunar sem um þetta mál hefur fjallað.